Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 11:40:15 (1551)

[11:40]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með þeim hafa tekið þátt í þessari umræðu að sú skýrsla sem hér liggur fyrir og er til umræðu er gagnleg og þær umræður sem um hana fara hljóta einnig að vera gagnlegar og ég vil jafnframt láta það koma fram í mínu máli að ég held að stofnun umboðsmanns Alþingis hafi á sínum tíma átt fullan rétt á sér og það hafi sýnt sig í störfum umboðsmannsins. Ég vil strax í upphafi þó segja af því að hv. 7. þm. Reykn. talaði tvívegis í sínu máli um úrskurð umboðsmanns, að það er auðvitað hinn mesti misskilningur að umboðsmaður úrskurði því að eins og hv. þm. réttilega las úr

skýrslunni, áður en hann kom í ræðustólinn þegar á það var bent, þá stendur skýrum stöfum á bls. 9 af hálfu umboðsmanns sjálfs að hann kveður ekki upp úrskurði heldur lætur uppi álit og það er auðvitað mjög mikilvægt að menn geri mun á þessu tvennu.
    Í 10. gr. laganna um umboðsmann Alþingis er frá þessu greint og um þetta varð umræða á sínum tíma þegar lögin voru samþykkt 1987. Þar er skýrt tekið fram að umboðsmaður gefur álit um hvort athöfn stjórnvalda brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum.
    Það sem rekur mig hér í ræðustólinn er einkum það sem fjallað hefur verið um þjónustugjöld og skattamál og snýr að fjmrn. Umboðsmaður hefur valið það að setja í starfsskýrslu sína í I. kaflann nokkur atriði og gerir þar talsvert mikið annars vegar úr þjónustugjöldum og hins vegar úr ummælum skrifstofustjóra ráðuneytisins í dagblaði, en þar er á ferðinni sami skrifstofustjórinn og vitnað var til í ræðu frsm. allshn., Indriði Þorláksson. Ég vil einungis segja það af tilefni þess sem kemur fram varðandi 4. liðinn í I. kafla skýrslunnar að það mál er rakið ítarlega í þessari skýrslu og það kemur skýrt fram í þeirri rakningu, á bls. 228 til að mynda, að umboðsmanni var svarað. Málið var skýrt mjög rækilega og niðurstaða málsins í fullu samkomulagi við umboðsmann var sú að reglugerð var sett í málinu þannig að raunar finnst mér það nokkuð sérkennilegt að þetta mál sé tekið hér út úr nema fyrir eina sök sem er skýrð mjög vandlega í bréfaskiptum ráðuneytisins og umboðsmannsins að það nær auðvitað ekki átt og var alls ekki ætlunin að fyrir fram væri sagt af hálfu ráðuneytisins að ekki yrði farið að áliti umboðsmannsins. Sá misskilningur var leiðréttur og kom bæði fram í bréfi ráðuneytisins til umboðsmannsins og einnig síðar þegar málið fékk endanlega afgreiðslu.
    Varðandi síðan þjónustugjöldin almennt, sem menn hafa rætt hér um, vil ég taka það fram að ég er sammála því sem kemur fram í 3. lið I. kaflans um störf umboðsmanns þar sem fjallað er um þjónustugjöldin og hvaða gjöld hið opinbera getur tekið af almenningi án þess að beinar lagaheimildir séu til og ég er sammála því og það hefur margoft komið fram í mínum ræðum á hinu háa Alþingi að þjónustugjöld eru gjöld sem auðvitað verða að svara til þess kostnaðar sem þjónustan kostar og um það er ekkert deilt. Ég vil taka það sérstaklega fram af þessu tilefni og ekki síst vegna þess að hv. 7. þm. Reykn. fjallaði um þessi mál hérna í ræðustólnum að það var einmitt í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem gerð voru þau mistök sem ég vil kalla svo að gefin var út reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs þar sem þær voru hækkaðar mjög verulega og langt umfram það sem kostnaðurinn var af stjórnarathöfninni. Þessu var breytt og eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var að setja lög um aukatekjur ríkissjóðs þannig að aukatekjurnar og innheimta þeirra byggðust á lögum en ekki reglugerðum. Ég vil taka það fram vegna umræðu sem hér hefur farið fram um endurgreiðslu að ráðuneytið hefur ekki fallist á samt sem áður á að greiða aftur þau gjöld sem tekin voru á þessu tímabili sem reglugerðin var í gildi nema að greitt hafi verið með fyrirvara. Og það eru nokkur dæmi þess að slíkar endurgreiðslur hafi átt sér stað, en við höfum ekki talið og viljum láta á það reyna fyrir dómstólum hvort aðrir sem greiddu eigi rétt á þessum endurgreiðslum og við teljum að fyrir stjórnsýsluna sé það ágætt að fá slíkt prófmál fram vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir framkvæmdarvaldið að vita hvar valdmörk þess liggja í þessum efnum. Ég vil þess vegna segja af þessu tilefni að ég veit ekki betur en það sé full samstaða og sami skilningur á milli fjmrn. og umboðsmanns Alþingis um þjónustugjöld og hvar mörk liggja á milli þjónustugjalda og skatta.
    Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl., sem var fyrirspurn vegna þál. sem flutt var hér í fyrra og var samþykkt. Hv. þm. fékk svar. Það kemur í ljós að við höfum auðvitað ekki ráð á því í fjmrn. að gera alla hluti í einu, en það er að því stefnt að endurskoða þessa löggjöf eins og kom fram í mínu svari og vonandi getur það orðið síðar á þessu þingi þannig að frv. geti legið fyrir eftir jól. Það kom fram í svari mínu við fsp. sem flutt var hér í haust.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi hér fram þannig að öllum væri ljóst hver afstaða ráðuneytisins er og ég hef í sjálfu sér engar athugasemdir að gera. Hv. frsm. allshn. vék síðan að skýrslu sem Félag löggiltra endurskoðenda hefur dreift og ég vil nota þetta tækifæri fyrst sú skýrsla er notuð hér í framsöguræðu til þess að taka það skýrt fram að ég fagna mjög tilurð þessarar skýrslu. Ég hef fylgst með þessu starfi og ég vil láta það koma hér sérstaklega fram að ég tel það sem segir um tilurð skattalaga í skýrslunni vera merkilegt og ekki síst það sem haft er eftir téðum Indriða Þorlákssyni sem er sami skrifstofustjórinn sem var vitnað til í máli umboðsmanns í upphafskaflanum, I. kafla um störf umboðsmanns Alþingis. Ég tel að þessi skýrsla sé vel unnin. Tildrög þess að hún er gerð eru þau að það hefur farið fram skattaeftirlit á vegum ríkisskattstjóra sem skattumdæmin taka þátt í. Við þetta skatteftirlit hefur komið í ljós að það eru ýmsir brestir annars vegar í framtölum fyrirtækjanna en ekki síður í framkvæmd skattalaganna. Af því tilefni skipaði ég fyrir nokkrum vikum, mánuðum reyndar, nefnd undir forustu Indriða Þorlákssonar sem fer með þessi mál í ráðuneytinu með aðild tveggja fulltrúa löggiltra endurskoðenda og þar á meðal eins þeirra sem stendur að útgáfu þessarar skýrslu, þ.e. Árna Tómassonar, löggilts endurskoðanda. En Tryggvi Jónsson, löggiltur endurskoðandi á einnig sæti í nefndinni og ég vænti þess af þeirri nefnd að hún skili niðurstöðu í hlutum þannig að fyrst verði ráðist á þau efni sem brýnust eru og þau leyst og síðan koll af kolli.
    Það kemur líka fram í skýrslu endurskoðendanna ýmislegt fleira sem ég ætla ekki að ræða hér enda koma þau atriði ekki beinlínis skýrslu umboðsmanns við.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram í þessari umræðu að það kæmi skýrt fram að þrátt

fyrir það að umboðsmaður kjósi að taka í I. kaflann í 3. lið og 4. lið efni sem hafa verið á milli fjmrn. annars vegar og umboðsmanns hins vegar, þá hafa þessi mál að mínu viti verið farsællega leyst í alla staði með þeim hætti sem ég held að báðum aðilum geti verið til fulls sóma.