Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 11:50:35 (1552)

[11:50]
     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans og lögfræðingnum fyrir leiðréttingu á úrskurði og áliti. Ég hygg hins vegar að þarna sé m.a. grundvöllurinn fyrir spurningu umboðsmanns sem kemur fram á bls. 228 í bréfi hans, að hann vill fá að vita hvort það sem haft er eftir skrifstofustjóranum þýði að ráðuneytið hyggist virða að vettugi álit umboðsmannsins. Þarna kann að vera nokkur ástæða til lagaskýringa. Nú er það vitanlega svo að í mörgum tilfellum er talað um úrskurði sem síðan er jafnvel beint til umboðsmanns að fjalla um. Í skýrslunni koma fram aftur og aftur úrskurðir tryggingaráðs sem síðan er vísað til umboðsmanns. Mér er því ljóst eins og hæstv. ráðherra að hvort sem um er að ræða álit eða úrskurð umboðsmanns þá er hann ekki sama og dómur, að sjálfsögðu ekki sama og dómur. Ég vona að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um það.
    Ég vil einnig taka það skýrt fram að það skiptir mig engu máli hvenær sú reglugerð var sett sem umboðsmaður álítur ekki standast lög og ég fagnaði líka áðan að leiðrétt hefur verið. Ég get út af fyrir sig vel skilið að ekki er endurgreitt nema það sem hefur verið með fyrirvara greitt í upphafi. En mig langar þó til að vita hvort margar beiðnir um slíkar endurgreiðslur hafi komið fram og þá verið neitað á þeirri forsendu að ekki hafi verið um fyrirvara að ræða þegar greiðslan var innt af hendi.