Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 11:59:09 (1558)

[11:59]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég tel að hér sé um mikilvæga umræðu að ræða og ástæða fyrir Alþingi að eyða nokkrum tíma í hana. Ég tel einnig að það hafi verið skynsamlegt að taka þessa skýrslu til umræðu og að tímasetningin sé rétt. Hér er ekki um mikinn annatíma að ræða og eðlilegt að við gefum okkur góðan tíma til að ræða þessa skýrslu og hann gefst í dag.
    Ég held að það hafi verið mjög rétt ákvörðun að stofna embætti umboðsmanns. Nú er það svo að svokallaður eftirlitsiðnaður er nánast eini iðnaðurinn á Íslandi sem dafnar og e.t.v. mætti flokka hluta af starfi umboðsmanns Alþingis undir eftirlitsiðnaðinn. Sama er um Ríkisendurskoðun. Ég vil líka láta það koma fram að ég held að það hafi verið mikið heillaspor þegar Ríkisendurskoðun var tekin undan fjmrn. og sett undir stjórn Alþingis. Þetta sýnir manni að við erum á réttri leið þrátt fyrir allt.
    Hér liggur fyrir býsna vönduð skýrsla frá umboðsmanni Alþingis. Það er ekki unnt að fara nákvæmlega yfir hana í öllum atriðum en ég vil láta það koma fram að ég held að hún sé vel unnin og niðurstöður sem þar koma fram séu vel ígrundaðar. Þetta embætti nýtur mikils og sívaxandi trauts.
    Hér hefur orðið nokkur umræða um úrskurði eða álitsgerðir og vissulega er það tekið fram í lögunum að umboðsmaður láti uppi álit en úrskurði ekki. Það er e.t.v. ekki nægilega skýrt eða nákvæmt, okkur vantar kannski orð sem þyrftu að vera þarna í málinu, sem hægt væri að nota í þessu sambandi. Ég lít nefnilega svo á að álitsgerðir umboðsmanns Alþingis séu rökstuddar með þeim hætti og eigi að vigta það mikið að þær virki að nokkru leyti sem úrskurðir jafnvel þó að í lagamáli sé úrskurður annað en álitsgerð frá umboðsmanni. Það vantar með einhverjum hætti að fylgja eftir áliti umboðsmanns Alþingis. Það er skref sem ég tel að við eigum að taka. Ég skal ekki segja hvort sú hugmynd sem hv. 7. þm. Reykn. hreyfði hér í umræðunni um siðanefnd fyrir stjórnkerfið er sú rétta aðferð eða ekki, það getur vel verið að hún sé það. En það þarf einhvern meiri þunga til að fylgja eftir þessum álitsgerðum. Ég bið hv. þm. að brjóta heilann um það með mér með hvaða hætti það verði best gert.
    Umboðsmaður Alþingis lætur uppi sitt álit. Það er í flestum tilfellum að ég hygg skothelt, en samt sem áður þá láta handhafar framkvæmdarvaldsins iðulega þessar álitsgerðir sem vind um eyru þjóta. Það er ekki nægilega góð aðferð. Ég vek athygli á hrokafullu svari skrifstofustjóra fjmrn. sem hann gaf í DV, á bls. 10, og hér hefur verið gert að umtalsefni, þar sem höfð voru eftir honum þau ummæli að ráðuneytið mundi ekki fara eftir niðurstöðu álits umboðsmanns Alþingis ef hún yrði á tiltekinn veg. Nú hefur það mál leyst brúklega að mér skilst. En eftir stendur að skirfstofustjóri í fjmrn. tekur það fram fyrir fram að hann muni hafa að engu álit umboðsmanns. ,,Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að halda hann að engu`` var einu sinni sagt. En hér er nokkuð ólíku saman að jafna. Ég held að það sé of mikið um það að ráðherrar og þeirra starfsmenn yppi öxlum og hafi álitsgerðir umboðsmanns að engu. Verkefni okkar er að finna farveg til að fylgja þessum álitsgerðum eftir. Eitthvað af þeim kann að lenda til dómstóla og hafa sinn gang þar. En það þarf að finna einhvern markvissari farveg til þess að fullnusta eða hrinda í farmkvæmd álitsgerðum umboðsmannsins.
    Umboðsmaður hefur nú þegar með starfi sínu rétt hlut margra með sínum álitsgerðum, einstaklinga og samtaka, sem órétti hafa verið beittir í stjórnkerfinu og það er hlutverk hans. En enn þá liggja margir óbættir hjá garði. Í þessari skýrslu má finna allmörg dæmi þar um, því miður. Þær álitsgerðir sem hér eru birtar taka einnig á ýmsum deilumálum sem hafa verið uppi í þinginu. Þetta eru svona gamlir kunningjar sem maður er að sjá aftur í álitsgerðum umboðsmannsins. Ég nefni t.d. allsnarpa umræðu um Menningarsjóð sem hér varð á fyrri tíma og hvenær heimild væri til þess að leggja Menningarsjóð niður. Hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Umboðsmaður taldi ljóst að Menningarsjóður yrði ekki lagður niður nema með lögum þar sem hann hefði verið stofnsettur með lögum. Nægði ekki í því efni heimild í fjárlögum fyrir fjmrh. til þess að semja um ráðstöfun eigna og skulda sjóðsins.``
    Þetta ætti náttúrlega að vera hverjum manni ljóst. Samt héldu stjórnvöld því fram á sínum tíma að heimild í fjárlögum gæti afnumið lög og væri æðri lögum. Ef ráðherra fengi heimild þá gæti hann afnumið stofnanir sem settar voru upp með lögum. Ég mun ekki rekja þetta lengra.
    Hér er fjallað um Lánasjóð ísl. námsmanna sem líka var mikið deiluefni á sínum tíma en sérstaklega vil ég gera að umtalsefni veitingu á opinberri stöðu, á bls. 151 í skýrslunni. Þar er kveðinn upp ansi þungur áfellisdómur yfir stjórnvaldi. Merkilegt nokk er það ráðherra úr hópi alþýðuflokksmanna sem hér á hlut að máli og kemur það e.t.v. þingheimi á óvart. Hér er verið að fjalla um veitingu tollvarðarstöðu hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Þar sóttu þrír menn um stöðu, tveir voru hæfir, einn ekki, en ráðherra ákvað að veita stöðuna þeim sem ekki var hæfur og ganga fram hjá hinum. Þetta létu þeir hæfu sér ekki líka. Þeir höfðu betri embættisskilyrði heldur en sá sem stöðuna fékk en hafa kannski ekki verið úr réttum flokki, ég skal ekki segja um það, eða þeim flokki sem formaður Alþfl. og hæstv. utanrrh. taldi hentugastan til að gegna þessu starfi. Með leyfi forseta, segir svo í niðurstöðum umboðsmanns:
    ,,Umboðsmaður taldi ástæðu til að leggja áherslu á að stjórnvald sem veitti stöðu hefði ekki frjálsar hendur um val á milli umsækjenda, jafnvel þegar svo stæði á að fleiri en einn hæfur umsækjandi sækti um stöðu. Það væri grundvallarregla í stjórnsýslurétti að þegar svo stæði á bæri að velja þann umsækjanda sem hæfastur yrði talinn á grundvelli málefnalegra sjónarmiða um menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og aðra persónulega eiginleika er máli skiptu. Í málinu þóttu hins vegar engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir um að veiting umræddrar stöðu hefði verið á slíkum grunni. Það var því skoðun umboðsmanns að stöðuveitingin hefði verið ótæk, bæði um undirbúning og niðurstöðu þar sem í veigamiklum atriðum hefði verið brotið í bága við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.`` --- Ég endurtek, frú forseti: ,,Það var því skoðun umboðsmanns að stöðuveitingin hefði verið ótæk, bæði um undirbúning og niðurstöðu þar sem í veigamiklum atriðum hefði verið brotið í bága við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.`` --- ,,Þá vék umboðsmaður að því að ganga yrði út frá þeirri meginreglu að hver sá sem bæri upp skriflegt erindi við stjórnvöld ætti rétt á skriflegu svari hlutaðeigandi stjórnvalds. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti bæri að gera þeim er ekki fengu stöðuna grein fyrir því bréflega hvað ráðið hefði vali stjórnvalds í stöðuna. Loks gerði umboðsmaður grein fyrir þeirri skoðun sinni að í lögum ætti að vera víðtækari heimild en nú væri til að bæta miska þegar stjórnvöld hefðu brotið rétt á mönnum við stöðuveitingar og vakti athygli Alþingis og fjármálaráðherra á því sem ,,meinbugum`` á lögum.``
    Ég verð að segja það að mér finnst umboðsmaður Alþingis láta hér uppi ansi afdráttarlaust álit og ég vil vekja athygli Alþingis á þessum orðum sérstaklega. Umboðsmaður Alþingis segir að veiting þessarar stöðu, eins og að henni var staðið, hafi verið ótæk og í veigamiklum atriðum brotið í bága við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Eftir svona álitsgerð sé ég ekki --- og mér er ekki kunnugt um að hæstv. utanrrh. hafi reynt að klóra yfir þau mistök sem þarna hafa verið gerð --- en eftir að slík álitsgerð hefur verið látin uppi frá þvílíkri stofnun sem umboðsmanni Alþingis sé ég ekki að Alþingi geti látið þetta kyrrt liggja.