Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 12:42:50 (1563)

[12:42]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Já, það kann að vera ástæða til þess að fara betur yfir þetta mál og einstaka efnisþætti þess, en hitt er staðreynd og henni verður ekki hnekkt að hv. þm. sem ráðherra var fyrsti ráðherrann sem ekki fór að áliti umboðsmanns Alþingis og það reyndi á þetta fyrir dómstólum og málið tapaðist. Þetta er staðreynd hvað sem síðan gert var varðandi lagabreytingar. Þetta sneri að starfsréttindum leigubílstjóra og við vitum síðan hver sú saga öll er þannig að það þarf kannski ekki að rekja það og hvernig það mál hefur síðan farið fyrir Mannréttindadómstólnum og annars staðar. En þetta er staðreynd og þess vegna vakti ég máls á þessu og vakti ég athygli á þeim sinnaskiptum sem mér þóttu hafa orðið hjá þingmanninum varðandi störf og álit umboðsmanns og ég fagnaði því og finnst ástæða til þess að ítreka það að mér finnst það fagnaðarefni miðað við forsögu þessa máls sem ég hef hér gert að umtalsefni.