Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 13:42:23 (1568)

[13:42]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að víkja hér að þremur málum sem gerð hafa verið að umtalsefni í tilefni af þeirri skýrslu umboðsmanns Alþingis sem hér er á dagskrá. Fyrsta málið varðar verktöku við sorphirðu og sorpurðun á Keflavíkurflugvelli. Það mál er reyndar þannig vaxið að um það er ekki stafkrók að finna í skýrslu umboðsmanns. Engu að síður kaus hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, að gera það að umtalsefni í umvöndunartón. Þetta á heima undir umræðum um næstu skýrslu umboðsmanns eins og hann hefur boðað. Engu að síður er óhjákvæmilegt af þessu tilefni að svara nokkru til.
    Árið 1985 veitti utanrrn. Suðurvirki hf., einu íslenskra fyrirtækja og án þess að útboð færi fram, heimild til að semja um sorpförgun við varnarliðið. Suðurvirki hf. hafði því setið eitt að þessum samningi í sjö ár þegar samningur þess rann út 30. júní 1992, en fyrir lá að því hafði aldrei verið lofað neinu um áframhaldandi samning.
    Í áliti sínu kýs umboðsmaður að líta fram hjá niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í hæstaréttardómi árið 1991 nr. 359. Það mál fjallaði um Byggi hf. gegn utanrrh. fyrir hönd utanrrn. og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og gagnsök. Mál þetta er alger hliðstæða við Suðurvirkismálið. Byggir var verktakafyrirtæki sem með leyfi utanrrn. annaðist viðhaldsvinnu fyrir varnarliðið. Utanrrn. afturkallaði síðan heimildina og veitti Keflavíkurverktökum, þeim einum, heimild til að annast viðhaldsvinnu fyrir varnarliðið. Af hálfu þess ráðherra sem þá gegndi starfi var sú skýring fram borin að ástæðan væri bágt atvinnuástand á Suðurnesjum og því vilji til að veita Suðurnesjamönnum forgang að þessari vinnu. Byggir fór í mál og taldi ólöglegt af utanrrn. að banna Byggi að semja við varnarliðið. Byggir tapaði þessu máli, bæði í undirrétti og í Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar sagði, með leyfi forseta:
    ,,Starfsráðningar varnarliðsins fara, að því er tekur til íslenskra aðila, ekki fram á frjálsum vinnumarkaði heldur eru þær bundnar ákvörðunum íslenskra stjórnvalda m.a. um það hverjum sé heimilt að takast á hendur framkvæmdir í þágu varnarliðsins. Þessi ákvæði varnarsamningsins hafa lagagildi, brjóta ekki í bága við 69. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, atvinnufrelsisákvæðið. Og þar sem utanrrn., sem fer með þessi mál að lögum, fór ekki út yfir valdmörk sín er það svipti aðaláfrýjanda, Byggi ltd., framangreindri heimild ber að staðfesta ákvæði héraðsdóms um sýknu.``
    Þetta er svar í algjörlega hliðstæðu máli við ásökun um valdníðslu.
    Síðan er því við að bæta að ástæðan fyrir því að Njarðtaki hf. var úthlutað þessari vinnu var nákvæmlega sú hin sama og þáv. utanrrh. bar við á sínum tíma árið 1961, óvenju bágt ástand á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið var orðið tvöfalt á við það sem var að landsmeðaltali. En Njarðtak er fyrirtæki sem hafði 11 fastráðna menn í störfum en 40 manns á launaskrá þegar mest var og hafði samninga um sorphirðu við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Að svo mæltu læt ég útrætt um það mál.
    Virðulegi forseti. Því næst vil ég gera hér að umtalsefni fjögur meginatriði sem umboðsmaður Alþingis tekur fyrir í skýrslu sinni og telur ámælisverð í meðferð utanrrn. á máli sem varðar veitingu tollvarðarstöðu á Keflavíkurflugvelli árið 1991. Ég vil taka það fram að formleg málsmeðferð, auglýsing og umfjöllun var í höndum sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, þá lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli. Hann sá um að auglýsa stöðuna, hann sá um að ganga frá gögnum og biðja um nauðsynleg gögn. Eftir að staðan hafði verið veitt gaf hann svör til þeirra sem sóttu um starfið en fengu ekki.
    Staðan var auglýst á vegum lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli sem sá um auglýsinguna að öllu leyti. Í samtali við sýslumann segir hann að það sé ekki hefð hjá því embætti að auglýsa stöður í Lögbirtingi, en það var athugasemdin. Oft sé Morgunblaðið eitt látið duga en í þetta skipti hafi staðan verið auglýst í fjórum dagblöðum. Sé hér um annmarka að ræða þá hefur sá annmarki viðgengist mjög lengi án þess að að því hafi verið fundið fram að þessu. Ráðuneytið hefur hins vegar nú í framhaldi af þessu máli bent öllum stofnunum á varnarsvæðinu sem undir það heyra á ákvæði laga um auglýsingaskyldu í Lögbirtingarblaði þegar auglýsa þarf stöður hjá embættunum.
    Örfá orð um málsmeðferðina. Ráðuneytið hafði ekki afskipti af málsmeðferð sýslumanns, þáv. lögreglustjóra. Sýslumaður segir að það hafi oft verið vanhöld á því í gegnum árin að öll ýtrustu gögn hafi fylgt umsóknum en yfirleitt hafi ekki verið að því fundið. Þá hafi það ekki verið sérstök venja að kalla menn í viðtöl út af veitingu starfs. Í báðum þeim tilvikum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni var farið eftir venjubundinni framkvæmd og hefð embættisins. Ráðuneytið hefur í framhaldi af þessu brýnt fyrir embættum sem undir það heyra að fylgja settum kröfum um málsmeðferð til hins ýtrasta þannig að framvegis verði ekki fundið að formgöllum á málum sem þessum.
    Eins og fram kemur í áliti umboðsmanns með tilvitnun í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er það skilyrði sett fyrir fastri stöðuveitingu að umsækjandi hafi almenna menntun og þar að auki þá sérmenntun sem lögum samkvæmt er krafist til óaðfinnanlegrar rækslu starfsins. Í þessu tilviki að umsækjandi hafi lokið grunnskóla og fjölbrautarskóla, menntaskóla eða sérskóla, samkvæmt reglugerð Tollskóla ríkisins. Af þeim þremur umsækjendum sem helst voru taldir koma til greina uppfylltu tveir þessi almennu skilyrði um almenna menntun, en sá þriðji ekki.
    Það kemur fram í áliti umboðsmanns að heimild sé samkvæmt lögum að víkja frá einstökum skilyrðum þeirrar málsgreinar sem um lágmarksskilyrði fjallar ef sérstakar ástæður mæla með því. Ég mun síðar víkja að þessum sérstöku ástæðum.
    Hvað snertir ákvörðun um sérmenntun tollvarða þá segir í reglugerð nr. 85/1985 ,,að eigi skuli ráða eða skipa í fastar tollstöður aðra en þá sem staðist hafa próf frá Tollskólanum.``
    Enginn umsækjenda uppfyllti þetta skilyrði. Það var því ljóst að enginn umsækjenda uppfyllti öll þau skilyrði sem sett voru fyrir fastri veitingu í starfið.
    Af þeim þremur umsækjendum, sem fyrr er að vikið, höfðu tveir unnið áður hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli, þ.e. þeir tveir sem ekki fengu starfið eftir þessa auglýsingu. Í bréfi sem deildarstjóri Tollgæslunnar hefur ritað um starfslega og persónulega eiginleika hvers umsækjanda fyrir sig, segir eftirfarandi:
    ,,Umsækjandi A hóf sumarafleysingastörf við Tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli sumarið 1983. Starfaði síðan nokkur sumur sem afleysingamaður. Það var því komin reynsla á það hvort hann væri heppilegur starfsmaður við þessi störf. Það var álit flestra starfsmanna Tollgæslunnar að hann væri ekki heppilegur við þessi störf og framkoma hans gagnvart ýmsum embættisafgreiðslum var þannig að hann hafði ekki samráð við yfirmenn sína vegna ákvarðana sem þurfti að taka, ákvarðana sem byggðust á hans eigin mati. Hann mun ekki hafa fengið formlega áminningu frá sínum yfirmönnum, en eins og fram kemur í umsögn lögreglustjórans á hann að hafa getið sér gott orð hjá yfirmönnum sínum sem þó eru ekki tilgreindir í þeirri umsögn. Mér er kunnugt um að A hefur starfað á nokkrum vinnustöðum síðan hann starfaði hér.

    Umsækjandi B hóf störf sem afleysingamaður sumarið 1988 og var síðan fastráðinn 1. okt. sama ár. Hann fór síðan í launalaust leyfi 1. ágúst 1989 til að starfa hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og sagði síðan upp störfum. Hann sækir síðan um afleysingarstarf sumarið 1990 og er ráðinn frá 1. júní til 30. sept.``
    B hafði verið fastráðinn við Tollgæsluna, stundað nám í fyrri hluta Tollskólans, en ekki náð tilskildum árangri og ekki sinnt rétti til endurtöku prófa sem honum stóð til boða og síðan fengið leyfi frá störfum til að reyna fyrir sér í öðru starfi.
    B sækir síðan aftur um fastráðningu þegar umrædd staða er auglýst og lögreglustjóri mælir með honum sem hæfustum til starfsins. En það sem fram kemur í umfjöllun umboðsmanns Alþingis að hann hafi lokið fyrri hluta Tollskólans er rangt. Vegna fyrri starfsferils B hjá Tollgæslunni álitu samstarfsmenn að lítið væri að byggja á slíkum starfsmanni til frambúðar.
    Umsækjandi C var ráðinn til starfsins og það er álit flestra starfsmanna Tollgæslunnar sem nú geta gert samanburð að sú ákvörðun ráðuneytisins að ráða C hafi verið skásti kosturinn. C hafði ágæta menntun m.a. frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja, hann er búinn að ljúka námi frá Tollskóla Íslands og hefur reynst mjög góður starfsmaður.
    Að framansögðu er ljóst að reynsla Tollgæslunnar af störfum A og B var ekki þess eðlis að hún mælti með fastráðningu þeirra við störf á Keflavíkurflugvelli í tollgæslunni, jafnvel þótt þeir hafi haft almennar menntunarforsendur til þess að gegna þessum störfum. Þess vegna varð að ráði að nýta það heimildarákvæði laga sem vikið var að hér að framan um frávik frá ýtrustu almennum menntunarskilyrðum.
    Þegar þannig háttar til að meta þurfi umsækjendur út frá persónulegum eiginleikum er vissulega engum greiði ger með því að auglýsa það. Ráðuneytið taldi það öllum fyrir bestu að hafa þetta ekki í hávegum og greindi ekki frá þessu mati yfirmanns Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli á sínum tíma.
    Virðulegi forseti. Umboðsmaður finnur að því að umsækjendur hafi ekki fengið skrifleg svör við umsóknum sínum og bætir því við að gera hefði átt grein fyrir því bréflega hvað hefði ráðið vali stjórnvalda í stöðuna. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um lagaskyldu sem knýr á um það að þannig eigi að meðhöndla umsókn sem hafnað hefur verið. Leitað hefur verið til þekktra hæstaréttarlögmanna sem gefa þau skýru svör að þetta sé ekki lagaleg skylda. Fyrir þessu er ekki hefð hjá embættinu nema hvað sums staðar mun tíðkast að greina skriflega frá því að viðkomandi hafi ekki fengið umrædda stöðu. Sýslumaður segir að menn hringi þegar stöður eru auglýstar og fái svör símleiðis við niðurstöðum umsókna þeirra. Það hafi í gegnum tíðina verið látið duga.
    Utanrrn. telur því að þessi síðasta athugasemd umboðsmanns eigi ekki við efnisleg eða lagaleg rök að styðjast. Hvort hægt sé að krefjast þess að þannig ætti að meðhöndla umsóknir sem hefur verið hafnað er annað mál.
    Virðulegi forseti. Að framansögðu má ráða að ráðuneytið getur ekki fallist á að brotin hafi verið lög á umsækjendum í þessu máli. Vissulega, og það tek ég undir og undirstrika, má setja út á þá formgalla sem bent er á, svo sem að auglýsa ekki í Lögbirtingi. Það er hins vegar að mínu mati álitamál hvort um veigamikla athugasemd er að ræða. Hins vegar má segja að formleg málsmeðferð hjá embættinu í Keflavík hafi ekki verið með þeim hætti sem ákjósanlegust var, en eins og þegar hefur komið fram hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að það endurtaki sig ekki. Þá skal undir það tekið að dráttur á svari til umboðsmanns frá embættismönnum er aðfinnsluverður og að svör þeirra hefðu mátt vera ítarlegri en raun er vitni.
    Ráðuneytið fellst hins vegar ekki á að við þessa embættisveitingu hafi verið brotin lög. Enginn umsækjenda var hæfur samkvæmt ýtrustu kröfum. Starfsreynsla var fyrir hendi hjá tveimur af þremur umsækjendum. Sú starfsreynsla var ekki þess eðlis að starfsfólk og yfirmenn Tollgæslunnar teldu ráðlegt að fastráða þessa tvo menn. Niðurstaðan var að þriðji maður var ráðinn. Sú ráðning hefur í alla staði sýnt sig að hafi verið farsæl. Þrátt fyrir að hafa ekki fullnægt ýtrustu kröfum hefur umsækjandinn sem ráðinn var bætt úr því síðan, m.a. lokið prófi frá Tollskóla og þar með fullnægt ekki einungis hinum almennu menntunarskilyrðum heldur einnig hinum sérstöku kröfum. Hann hefur að mati yfirboðara síns reynst mjög farsæll maður í starfi.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið að flytja svör ráðuneytisins við aðfinnslum umboðsmanns Alþingis að því er þetta einstaka mál varðar. Nú er það svo að einn hv. þm., hv. 3. þm. Reykn., notaði tækifærið í sinni ræðu til þess að veitast almennt að Alþfl. fyrir meinta spillingu í stöðuveitingum og notaði þau orð að þau mál vörpuðu skugga á embættis- eða starfsferil utanrrh. Með þessum orðum hefur hv. þm. skipað sér í sveit með þeim hv. þm. Páli Péturssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni og ég óska honum út af fyrir sig til hamingju með það. En ég sé ástæðu til þess að ræða við hann að gefnu tilefni um þessi mál.
    Ég var á sínum tíma sakaður um pólitíska spillingu fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að skipa Kjartan Jóhannsson fastafulltrúa Íslands við sendinefnd okkar í Genf. Það var talað um að þarna væri verið að veita afdönkuðum pólitíkus embætti og sniðgengnir væru sérfræðingar utanrrn. Þremur árum síðar, að fenginni reynslu, verður það sameiginleg niðurstaða fastafulltrúa og ráðherra allra samstarfsþjóða okkar í EFTA þegar leita þurfti að nýjum framkvæmdastjóra samtakanna að fastafulltrúinn íslenski, sem dæmdur var hér í umræðunni sem afdankaður pólitíkus og þiggjandi spilltrar stöðuveitingar, væri manna hæfastur --- manna hæfastur af öllum þeim sem til álita komu hjá þessum sjö þjóðum til þess að gegna þessu starfi.

    Það má geta þess að þessi umræddi fastafulltrúi, fyrrv. stjórnmálamaður, hafði forustu um það af hálfu EFTA-þjóðanna allra að semja við Evrópubandalagið og innbyrðis milli EFTA-þjóðanna um kostnaðarhlutdeild okkar, bæði vegna þróunarsjóðs og vegna nýrra stofnana bandalagsins. Ég fullyrði að árangur hans í þeim samningum var með þeim hætti að hann hefur sparað íslenskum skattgreiðenum tugi milljóna króna og það var borið á hann sérstakt lof fyrir framgöngu hans og hæfni í því efni.
    Virðulegi forseti. Tíma mínum er lokið að sinni en ég hyggst taka upp þessar ásakanir hv. þm. og svara þeim rækilega í seinni ræðutíma mínum.