Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:19:24 (1574)

[14:19]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég var kominn þar í minni ræðu um þessa skýrslu að víkja að þeim ábendingum er komu varðandi lagasetningu Alþingis. Það er vissulega svo að í skýrslunni kemur fram að nokkuð vantar á að Alþingi gæti sín við lagasetningu. Það er eins og kom fram í ræðu framsögumanns, hv. þm. Björns Bjarnasonar, grundvallaratriði að fógetavaldið sé á einum stað. Og þangað verði allir aðilar að leita ef þeim finnst um brot að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að eftirlit með framkvæmd laga þurfi að vera. En það þarf að vera á þann hátt að þeir sem framkvæma eftirlitið hafi til að bera nægan skilning á lögum til að vera dómbærir á það hvenær sé verið að brjóta þau og hvenær ekki. Þess vegna hefur sú krafa verið gerð til

þeirra sem fara með fógetavald að þeir séu lögfræðingar. Mér hefur fundist að Alþingi hafi farið ansi frjálslega í það á seinni árum að samþykkja ýmsar eftirlitsstofnanir sem í reynd hafa fógetavald, þ.e. þær framkvæma hluti sem einstaklingar verða að leita til dómstólanna með ef þeir vilja fá leiðréttingu mála sinna.
    Í tveimur frv. sem liggja fyrir Alþingi í dag má segja að stofnunum sé ætlað gífurlegt vald. Í frv. til laga um dýravernd er gert ráð fyrir því að dýraverndarnefndir, héraðslæknir, héraðsdýralæknir eða dýraverndarráð geti farið inn í hvaða hús sem er í eigu bænda nema íbúðarhúsið, valsað þar um hvenær sem þeim sýnist og hvenær sem þeir telja tilefni til. Maður spyr sjálfan sig þegar frv. sem þessi koma fram: Hvers vegna er það ekki áskilið að menn fái leitarheimild og réttra laga sé gætt í þeim efnum að fógeti úrskurði hvort eðlilegt sé að til þessara aðgerða sé gripið? Í frv. til laga um fuglafriðun eru uppi hugmyndir um að Náttúrufræðistofnun Íslands megi senda veiðimenn hvert sem er til að skjóta þau veiðidýr sem þeir hafa áhuga á fyrir stofnunina. Það er svona að því vikið, ef svo mætti komast að orði, að þeir geri grein fyrir sér ef hægt sé að koma því við en það þurfi að láta menn vita fyrir fram að þetta standi til. Ég verð líka að segja í þessu sambandi að þarna finnst mér að við séum að ganga allt of langt þó ekki sé meira sagt í að ryðjast inn á viss svið eignarréttar.
    Ég hef stundum vikið að stofnunum eins og Hollustuvernd ríkisins og Vinnueftirlitinu og ég fer ekki dult með þá skoðun að báðar þessar stofnanir eru að mínu viti komnar með nánast fógetavald í sínum afskiptum. Ég held að það sé mjög þarft að Alþingi Íslendinga annað tveggja fái þá starfsmöguleika að geta sent lög til umsagnar lögfræðinga sem hefðu það hlutverk eitt að meta ekki gæði laganna nema út frá einu sjónarhorni, þ.e. stenst uppbygging laganna eðlilega stjórnsýsluhætti? Virða þessi lög eðlileg mannréttindi og eru þau á þann veg að þau standist stjórnarskrána? Mér finnst að Alþingi þurfi raunverulega fyrir fram að geta gengið frá því að lög standist hvað þetta snertir. Hitt er svo pólitískt mat hvaða lög séu góð og hvaða lög séu slæm. Það kemur þessu máli ekkert við.
    Ég veit að í Finnlandi er sá háttur hafður á að áður en lög eru samþykkt þá er gengið úr skugga um það með því að fela ákveðnu ráði eða nefnd að fjalla um þann þátt einan hvort lögin standist stjórnarskrána. Hugsanlegt væri að lagadeild Háskóla Íslands fengi þetta verkefni og fengi greiðslu fyrir ef þessi háttur yrði upp tekinn. En það er mikil nauðsyn að mínu viti að vanda lagasmíðina og ég held að það verði ekki hægt að ætlast til þess með þeirri aðferð sem ráðuneytin hafa við að undirbúa mál að skipa nefnd, gjarnan manna sem hafa mikla þekkingu á viðkomandi sviði, en enga þekkingu á sviði stjórnsýslu, að semja frv. og svo sé þetta keyrt inn í þingið og raunverulega fari hvergi fram aðgæsla svo viðunandi sé á þessum þáttum sem ég minntist á hér áðan.
    Ég ætla þá að víkja að einu atriði sem snertir hæstv. utanrrh. og það er veiting tollvarðarembættisins í Keflavík. Hæstv. utanrrh. sveiflar stundum frá rökrænni hugsun yfir á það sem maður mundi e.t.v. kalla ,,praktískar`` lausnir. Það er góðra gjalda vert að umræddur tollvörður skuli hafa lokið tollvarðaskólanum. En ef hæstv. utanrrh. hefði nú ráðið sér bílstjóra sem ekki hefði haft próf til að keyra bíl og verið tekinn af lögreglunni, neitað að láta bílstjórann af hendi en sent hann í skóla og látið hann taka próf, vafalaust hefði nemandinn náð prófinu svona tveimur mánuðum seinna og þá hefði hann sagt: Ég braut ekkert af mér ég tók fullt tillit til þess sem lögreglan fór fram á, það er búið að tryggja það að maðurinn stenst þær kröfur sem farið er fram á. Það er nefnilega svo að í þessu máli skiptir tíminn nokkru. Það skiptir nefnilega dálitlu máli við veitingu þessa embættis að þegar það var veitt þá hafði umræddur einstaklingur alls ekki lokið þessu prófi og alls ekki farið í skólann yfirhöfuð. Og að mínu viti breytir það engu þótt hæstv. utanrrh. veifi í dag einhverri umsögn frá tollstjóraembættinu í Keflavík. Þetta er ekki spurningin um það hvort menn fái afgreiðslu eins og sagt er á himnum að þeir bjargist fyrir náð undir það síðasta. Þetta er náttúrlega spurning um það hvort þeir hafa gætt eðlilegra formsatriða þegar atburðurinn átti sér stað.
    Mér þótti aftur á móti og það skal viðurkennt --- að varnarræða hæstv. utanrrh. fyrir embættisveitingu þegar fyrrv. formaður Alþfl. var heiðraður af utanrrh. með því að veita honum embætti í útlöndum, að sú varnarræða skyldi vera flutt á þessum degi --- mér finnst að hæstv. utanrrh. sé búinn að byrgja lengi inni sína röksemdafærslu í þessu máli og dálítið merkilegt að hún skuli brjótast út núna á haustdögum þegar flest blóm eru nú frekar að byrgja inni og allur gróður en ekki að springa út. Hitt er aftur á móti líka umhugsunarefni ef hann hyggur að þeir sem hér eru hafi gleymt því að það var að sjálfsögðu ekki fyrir tilstilli Páls Péturssonar sem atkvæðagreiðsla hjá Alþfl. fór á þann veg að þar urðu formannsskipti. Ég hygg að það verði ekki deila á milli mín og hæstv. utanrrh. um að það voru ekki framsóknarmenn sem greiddu atkvæði. Þar var sama regla og Grímur Thomsen talar um að notuð hafi verið á Glæsivöllum, ,,í góðsemi vegur þar hver annan.`` Ég efa það ekki að hæstv. utanrrh. kannast við kvæðið þar sem talað er um ,,hina köldu á`` en niðurstaðan varð nú sú að ,,kaldar und rifjum er konungsmönnum hjá, kalinn á hjarta þaðan slapp ég.`` Það er ekki víst að þessar gömlu væringar innan Alþfl. sem áttu sér stað séu öllum gleymdar þótt hæstv. utanrrh. hafi látið það bíða til þessa dags að flytja sína varnarræðu fyrir þessari embættisveitingu. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri varnarræðu. Hún var e.t.v. staðfesting á því að þeir sem á sínum tíma kusu Kjartan Jóhannsson sem formann Alþfl. hafa fengið það staðfest af hæstv. utanrrh. að hann telji að þeir hafi haft nokkra mannþekkingu.