Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:49:47 (1583)

[14:49]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þar kom að því að hv. þm. Páll Pétursson sagðist nú þrátt fyrir allt vera sammála mér um þá grundvallarskoðun að stjórnmálamaður hefði ekki endilega unnið sér til óhelgis eða unnið til þess dóms að vera óalandi og óferjandi til starfa á öðrum vettvangi og það er fagnaðarefni að við erum samála um það. Ég tók eftir því sérstaklega að hann sagðist hafa farið viðurkenningarorðum um a.m.k. þrjá af fjórum þeirra sem ég nefndi til umræðunnar eftir ásakanir hv. þm. Árna Mathiesens. Þess vegna er rétt að skýra frá því úr þessum ræðustól að ekki einasta hefur þessi fjórði maður sem hv. þm. mun eiga við hafa verið valinn umfram 50 hæfustu bankamenn Norðurlanda til þess að stýra stærsta lánardrottni Íslands og öflugasta banka Norðurlanda, heldur hefur nú framkvæmdastjórn OECD, helstu efnahagssamvinnustofnunar Evrópu og iðnríkjanna, farið þess á leit sérstaklega að mega tilnefna þennan mann sem var undanskilinn lofi hv. þm. í hópi fimm hinna vitrustu manna til þess að endurskipuleggja þá stofnun frá rótum. ( ÓÞÞ: Er von um meiri útflutning?)