Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 15:01:41 (1586)

[15:01]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst: Það er algjörlega úr lausu lofti gripið hjá hv. þm. að ég hafi í ræðu minni hér áðan lýst einhverri skoðun á umsækjendum, að ég hafi talið A ómögulegan. Það gerði ég ekki. Ég hef enga sérstaka skoðun á því. Ég hins vegar las upp í ræðu minni umsögn yfirmanns Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli og hún byggist einfaldlega á því að það er mat yfirmanns á störfum tveggja lausráðinna manna. Í annan stað var leiðrétt það sem fram kom í áliti umboðsmanns að B hefði fullnægt ýtrustu kröfum en það var upplýst með vottorði frá skólastjóra tollskólans að hann hefði fallið á prófi og ekki hirt um endurtöku. Þannig að það breytist ekkert að því leyti að við vorum að fjalla um umsækjendur sem um gilti að enginn fullnægði ýtrustu kröfum en síðan kom upp álitamál um hinar almennu kröfur.
    Hv. þm. bendir á að sýslumaður hafi engu að síður mælt sterklega með einum þeirra og það er rétt en það breytir ekki því að sýslumaðurinn hefur ekki veitingavaldið, hann hefur meðmælavald og að þessu leyti bar þeim ekki saman, annars vegar sýslumanninum og hins vegar yfirmanni Tollgæslunnar sem hafði starfað með þessu mönnum.
    Um hitt efni ræðu hv. þm. er náttúrlega ljóst að ég þarf ekki að hafa um það mörg orð, þar er öll gagnrýni hans fallin um sjálfa sig vegna þess að hann segir ósköp einfaldlega: Ég gagnrýni ekki embættaveitingar fyrrverandi stjórnmálamanna í stöðu seðlabankastjóra, í stöðu landsbankastjóra, eða í stöðu sýslumanna, ef sjálfstæðismenn eiga í hlut. Þá talar hann ekkert um flokksskírteini. Það hvarflar ekki að honum og tekur undir með mér að stjórnmálamenn, þrátt fyrir allt, hljóti að koma til greina ef þeir eru á annað borð hæfir. Ef þeir eru alþýðuflokksmenn þá er það hins vegar pólitísk spilling og þá á allt annað við. Þetta heitir tvöfeldni og ræðumaður sem heldur þannig á málum fyrir hönd síns flokks er búinn að gera fyrri ræðu sína að marklausum áróðri.