Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 15:03:41 (1587)

[15:03]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rangt sem hæstv. ráðherra heldur fram að umsækjandi B hafi fallið á prófi í tollskólanum. Það kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis að hann hafi ekki tekið prófið vegna veikinda og hafi átt rétt á endurtöku þess vegna. ( Utanrrh.: Þetta er rétt.) Hvað varðar það sem ég sagði um embættaveitingar alþýðuflokksmanna og sjálfstæðismanna sem út af fyrir sig er ekki verið að bera saman í þessu tilfelli þá er ég sammála ráðherranum í því að stjórnmálamenn eiga fullt embættisgengi og reynsla þeirra getur verið mjög mikilvæg. Ég var ekki að gagnrýna hvert einstakt tilfelli heldur var ég að gagnrýna þessa leikfléttu, þessa pólitísku leikfléttu, sem var í gangi mestallan fyrripart þessa árs. Ef svipuð leikflétta hefði verið í gangi hjá Sjálfstfl. þá hefðu átta til níu þingmenn flokksins sem nú sitja á hv. Alþingi verið settir inn í embættismannakerfið og ég er alveg sannfærður um að ég hefði gagnrýnt það ef það hefði gerst og hæstv. ráðherra hefði tekið undir með mér þá.