Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 15:04:57 (1588)

[15:04]

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn tekur hv. þm. undir áróður stjórnarandstæðinga og segist nú vera að gagnrýna einhverja leikfléttu. Staðreyndin er sú að fyrrv. viðskrh. hafði einfaldlega tekið um það ákvörðun að hætta og leita fyrir sér um starf á öðrum vettvangi. Það leiddi til ákveðinna breytinga að því er varðar mannaskipan og verkaskiptingu í okkar þingflokki. Það er engin undirstaða fyrir neina sérstaka gagnrýni. Hv. þm. hefur einfaldlega sagt: Ef minn flokkur á í hlut þá er það ekki gagnrýnivert. En hann verður að reyna að finna einhverja ástæðu. Nú heitir það leikflétta ef samstarfsflokkurinn á í hlut.
    Og tvennt annað, virðulegi forseti: Ég leiðrétti það sem hv. þm. sagði að flokksráðsmenn Alþfl. hefðu gagnrýnt þessar stöðuveitingar. Það gerðu þeir ekki. Hv. þm. þarf að taka eftir. Þeir gagnrýndu það að þessi óhróður sem reynt hefur verið að bera á Alþfl. af hálfu stjórnarandstæðinga, þar á meðal út af þessum málum, hefði skaðað Alþfl. í skoðanakönnunum. (Forseti hringir.) Og annað: Ég ætla að biðja hv. þm. að minnast þess þegar hæstv. forsrh. var borinn hér hvað alvarlegustum sökum í sambandi við mannaráðningar fyrr á þessum vetri þá var ólíku saman að jafna hvernig ég, formaður Alþfl., brást við honum til varnar.