Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 15:22:58 (1591)

[15:22]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Birni Bjarnasyni að það er ámælisvert að ráðherrar séu ekki almennt við þegar þessi skýrsla er rædd og ég get tekið undir það með honum að það er virðingarvert af hæstv. utanrrh. að vera við. Ég frábið mér aftur á móti algerlega að taka undir það að hæstv. utanrrh. hafi að öðru leyti á nokkurn hátt staðið á virðingarverðan hátt að verki hér í dag. Ég tel að þar hafi eitt og annað komið fram og e.t.v. er eitt af því alvarlega, ef rétt er, að hæstv. utanrrh. hafi verið að verja ráðuneyti sem ekki, þegar það skilaði seint og um síðir svari til umboðsmanns Alþingis, afhenti þá öll gögn um málið heldur hélt eftir gögnum. Það er náttúrlega mjög vítavert.
    Að lokum vildi ég einnig vekja á því athygli að ég efa að það sé í verkahring hæstv. utanrrh. að kveða upp úr um það hverjir séu afdankaðir stjórnmálamenn. En ég er mjög sáttur við eina stöðuveitingu af þeim fjórum sem hér voru tilgreindar og voru ekki á dagskrá og tel að seinustu fréttir undirstriki að það hafi verið til mikillar blessunar fyrir land og lýð.