Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 16:47:51 (1604)

[16:47]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það getur nú vel verið að það hafi farið fyrir fleirum en mér svo að þeim hafi gengið illa að skilja þessa hundalógík sem hv. þm. var boðið hér upp á. Auðvitað er kjarni þessa máls einfaldlega sá að þjóðir heimsins hafa ekki fallist á að fella niður alla tolla eða viðskiptahindranir. Og það hefur einmitt komið fram í þessum umræðum hér að það er ekki hægt að benda á að það hafi náðst neinn sérstakur nýr árangur varðandi lækkun á útfluttum sjávarafurðum eða hvað varðar innflutningstakmarkanir hjá öðrum þjóðum á útflutningi okkar. Þannig að við stöndum sem sagt einfaldlega frammi fyrir því að þetta mál hefur tvær hliðar. Allar þjóðir, ekki bara Íslendingar, heldur allar þjóðir, eru auðvitað að reyna að auka útflutning sinn en allar þjóðir eru líka um leið að reyna að verja sitt. Við erum engin undantekning hvað það varðar. Og þess vegna verðum við að hafa í fyrirsvari menn sem gleyma ekki íslenskum hagsmunum heldur reyna að vernda þá þegar þeir sitja við samningaborð með erlendum aðilum og eru að semja um þessa hluti. Þeir mega ekki bara hugsa um það að nú eigi bara að opna og opna og opna. Þeir verða líka að hafa það í huga að við, eins og allir aðrir, við verðum að vernda okkar hagsmuni. Og því miður hefur hæstv. utanrrh. misfarist í þeim efnum.