Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 17:06:27 (1607)

[17:06]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Nú finnst mér skortur á ráðherrum hér í salnum og vildi gjarnan að ég gæti fengið tækifæri til að eiga orðastað við þá. En meðan við bíðum eftir þeim, þá hefur útflutningsleið Alþb. borist í tal. Ég ætla ekki að ræða hana í þessari umræðu enda er hún til annars ætluð þó að hér hafi orðið nokkur umræða um hana áðan á milli hv. 3. þm. Norðurl. v. og hæstv. utanrrh. Ég geymi mér það en hlakka hins vegar til að fá tækifæri til að ræða hana og sérstaklega landbúnaðarkafla hennar við hv. 3. þm. Norðurl. v. þegar við komum heim í kjördæmi okkar.
    Hér er um að ræða umræðu um ákaflega afdrifaríkt mál, þ.e. tilboð eða landbúnaðarkafla GATT-viðræðnanna. Þá er fyrst að velta því fyrir sér hvort Úrúgvæ-lotunni lýkur með einhverjum hætti, hvort niðurstaða fæst í henni. Það liggur að sjálfsögðu ekki fyrir enn þá og kannski minni líkur en meiri til þess að henni ljúki með niðurstöðu. En ríkisstjórn Íslands er búin að senda tilboð út til Genfar. Það er verra að vinda ofan af þessu máli eftir það. Í þessu tilboði eru dregnar lokur frá hurðum með þeim hætti að það verða ekki settir slagbrandar fyrir héðan af.
    Menn hafa verið að ræða um neytendasjónarmið og framleiðendasjónarmið og þóst vera að koma fram fyrir hönd annars hvors þessa sjónarmiðs. Auðvitað eru þessi sjónarmið í langflestum tilfellum samræmanleg vegna þess að í fyrsta lagi eru framleiðendur neytendur líka og í öðru lagi ef við ætlum að lifa áfram og búa áfram í landinu þá verðum við náttúrlega að samræma þessi sjónarmið og þau eru ákaflega auðveldlega samræmanleg. Ef íslensk landbúnaðarframleiðsla væri lögð í rúst þá dragast að sjálfsögðu þjóðartekjur saman með tilheyrandi atvinnuleysi sem auðvitað kemur beint niður á neytendum þessa lands. Jafnvel þó þeir fengju ódýrar kjúklingalappir til þess að éta nokkrum sinnum í viku ( Gripið fram í: Kalkúnalappir.) eða kalkúnalappir, já, kalkún heitir víst helvískur fuglinn, þá dregur það þó ekki langt þegar þarf að fara að skattleggja fyrir atvinnuleysisbótunum. Okkur ber að hafa í huga þjóðarhag, ekki þrengstu og skammsýnustu neytendasjónarmið eða þrengstu framleiðendasjónarmið.
    Þetta tilboð ríkisstjórnarinnar hefur verið sent. Hæstv. utanrrh. talaði um gagnkvæmni í þessum samskiptum. Gagnkvæmnin í þessu máli hefur verið á þá leið eins og hæstv. ráðherra hefur meðhöndlað það að hann vill flytja út fisk og flytja út sem mestan fisk og það er gott svo langt sem það nær. Og í því skyni að reyna að komast að sem bestum kjörum með fiskinn, þá hefur hann á hinn bóginn fórnað hagsmunum landbúnaðarins. Það er hægt að rekja mörg dæmi úr öllu þessu samningaferli, bæði EES-samningaferlinu og eins GATT-samningaferlinu um þetta hefur verið gert og það án þess að ná verulegum árangri í tollfríðindum fyrir fiskinn. Þegar við lögðum af stað í EES-samningana, þá ætluðum við að reyna að ná fríverslun með fisk. EES-samningurinn er ekki um fríverslun með fisk. En hagsmunum landbúnaðarins hefur verið hvað eftir annað fórnað. Einu sinni man ég eftir að starfsmaður utanrrn. var spurður að því í utanrmn. af hverju ekki hefði verið haldið til haga sérstökum hagsmunum íslensks landbúnaðar. Hann svaraði því hreinskilnislega, blessaður maðurinn, að ,,það þótti ekki taktískt``. Embættismannasamkomulagið frá því í vor markast af þessu o.s.frv. og þetta GATT-tilboð markast af þessu líka.
    Hér hefur verið til umræðu að þessu máli hefur verið haldið frá Alþingi og það er að vissu leyti rétt. Ég get að vísu tekið á mig nokkra sök þar á þar sem ég bað ekki um fund í utanrmn. fyrr en í gær og sá fundur var haldinn í morgun og er ég mjög þakklátur fyrir það að formaður nefndarinnar skyldi bregðast við og boða til fundar og þeim mönnum sem þangað komu til þess að ræða málið.
    Ég átti satt að segja von á því að um svo mikilsvert mál mundi forsrh. gefa yfirlýsingu þegar tilboðið var sent. Það gerði hann ekki. Ég átti von á því að landbn., sem hafði verið árvökul yfir þessu máli og ég vissi að hafði verið boðuð til fundar, mundi fá gögn í hendur sem gæfu manni tækifæri til þess að fara ofan í málið. Ég átti von á því að hún næði árangri en hún náði ekki árangri. Það var haldinn þar fundur í gær án þess að afhenda þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að fara yfir málin með nokkurri nákvæmni. Alþingi var hunsað. Hins vegar hafði hæstv. utanrrh. tíma til þess, þó að hann mætti ekki vera að því að boða utanrmn. til fundar, þá hafði hann tíma til þess að halda leynifund með blaðamönnum í varnarmáladeild utanrrn. þar sem safnað var saman blaðamönnum sem skrifuðu síðan upp eftir honum túlkun hans á þessu samkomulagi en þeir máttu samt ekki vitna beint í hann. Ég hefði nú talið heppilegri og eðlilegri vinnubrögð að hann hefði byrjað á því að hafa fund með utanrmn. til þess að ræða þetta mál.
    Það er að vísu rétt að það eru fordæmi fyrir blaðamannafundum og formaður Alþb., hv. 8. þm. Reykn., boðar til blaðamannafunda í tíma og ótíma. Honum er hins vegar mjög í mun að höfð sé eftir honum bein ræða af þessum fundum.
    Hagfræðistofnun Háskóla Íslands virðist hafa haft þessi gögn á undan okkur alþingismönnum því að a.m.k. töldu þeir sig þess umkomna í gærkvöldi að senda frá sér yfirlýsingar um málið. Mér er kunnugt um að ekki var haft samráð við framleiðsluráð landbúnaðarins, hvorki við undirbúning þessa máls í síðustu lotu né heldur að framleiðsluráðinu væri kynnt þetta tilboð. Ég tel að þau átök sem talað hefur verið um undanfarna daga á milli hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. hafi verið sviðsett. Það lítur svo út sem málamiðlun hafi verið fundin eða það er látið heita svo, en þessi málamiðlun er á einn veg að hæstv. utanrrh. hefur fengið allt sitt fram og hæstv. landbrh. hefur lotið í gras þannig að ég held að það hafi aldrei

verið nein alvara í þessum átökum.
    Það var líka ekkert óeðlilegt þó að hæstv. utanrrh. væri ánægður hér í ræðustólnum áðan. Hann hefur komið í ræðustólinn oft í dag og hann hefur verið ansi mikið spenntari fyrr í dag og það lá mikið betur á honum núna þegar hann var að hrósa sigrinum yfir landbrh. heldur en meðan hann lá hér undir ágjöf vegna skýrslu umboðsmanns Alþingis.
    Það voru einkum þrjú ágreiningsatriði sem upp úr stóðu eftir blaðafregnum sem hæstv. utanrrh. túlkaði fyrir blaðamönnum, vildarvinum sínum sem hann kallaði á í varnarmáladeildina. Það var í fyrsta lagi um magntakmarkanirnar. Þar var í orði kveðnu fallist á opinberan málflutning hæstv. landbrh. en undan skilið að hér sé um marklausa kröfu að ræða eins og hæstv. utanrrh. orðaði það við blaðamenn sína og þeir rekja það í löngu máli að þetta sé algerlega þýðingarlaust þó að þarna hafi verið látið eftir til þess að reyna að bjarga andlitinu á hæstv. landbrh. vegna þess að hæstv. utanrrh. hafi það í hendi sinni að snúa hann niður erlendis, hann geti unnið sigur erlendis og krafan sé marklaus.
    Í öðru lagi var ágreiningsefnið um tollígildin á vörum sem fluttar hafa verið til landsins með engum tollum. Jú, jú, þetta er textað svolítið í tilboðinu. En síðan segir hæstv. utanrrh. á títtnefndum fundi að hann og hæstv. landbrh. hafi gert um það heiðursmannasamkomulag og maður er nú orðinn dálítið leiður á þessum heiðursmannasamkomulögum sem þeir eru að gera í ríkisstjórninni en utanrrh. telur að landbrh. hafi svarið það að beita aldrei þeim heimildum sem hann hefði svo að þar var hæstv. utanrrh. búinn að vinna fullan sigur ef þetta er rétt sem utanrrh. segir blaðamönnum.
    Í þriðja lagi var komist að samkomulagi um það að herma eftir Noregi og að tilboð Íslands væri sniðið eftir tilboði Noregs. Nú vill svo til að ég þekki pínulítið til í Noregi og ég veit það að kratastjórnin í Noregi gengur sannarlega ekki erinda norsks landbúnaðar í samskiptum sínum við Evrópu eða við umheiminn. Þó eru þeir náttúrlega ekki, kratarnir í Noregi sem eru ábyrgir fyrir þessu tilboði sem þaðan fór, nándar nærri eins ófyrirleitnir í krossferð sinni gegn landbúnaði yfirleitt og íslensku kratarnir, enda eru það mjög siðaðir menn og þar mundi það ekki líðast hjá ráðherra að brjóta lög.
    Í stuttu máli, frú forseti, þá er niðurstaða þessa tilboðs að heimilt er að flytja inn allar landbúnaðarvörur nema hrátt kjöt, óunna mjólk og hrá egg. Þar eru sjúkdómavarnir. Heimildin er sem sagt fyrir hendi á innflutningi af öllu þessu. Við berum fyrir okkur sjúkdómavarnir en aðstoðarmaður landbrh. upplýsti á fundi utanrmn. í morgun, og ég skrifaði orðrétt eftir honum: ,,Það er ekkert hægt að fullyrða um að við getum haldið uppi innflutningsbanni á hráu kjöti til frambúðar.`` Ekkert tryggt að við getum haldið því uppi til frambúðar. Og þá höfum við það. Það haldreipi er veikt líka. Við verðum að geta sannað það að dýr séu heilbrigð hér og meira að segja þetta, sem okkur finnst þó eðlilegasti hlutur í heimi, getur reynst okkur erfitt að halda til haga í framtíðinni.
    Það er hér talað um lágmarksinnflutning og við lofum lágmarksinnflutningi og við tölum um hámarkstolla og hámarkstollígildi. En ég vek athygli alþingismanna á því að hér er verið að tala um heimildarákvæði. Það er hægt, það er lafhægt af ófyrirleitnum ráðherrum sem væru í krossferð gegn landbúnaði að opna allar gáttir fyrirvaralítið. Þetta mál heyrir ekki bara undir landbrh. (Forseti hringir.) Frú forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Þetta eru ákvarðanir sem heyra undir a.m.k. fjmrh., viðskrh., utanrrh. auk landbrh. Umþóttunartíminn þarf ekki einu sinni að vera eins langur og tekið er fram í tilboðinu. Það skiptir máli hverjir sitja í ráðuneytunum og ofsafenginn þrýstingur innflytjenda getur líka haft hér um að segja.