Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 17:33:44 (1616)

[17:33]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú skammt um liðið frá því að lögð voru fram gögn vegna GATT-tilboðs ríkisstjórnarinnar. Áður hafði reyndar landbn. Alþingis fengið greinargóðar upplýsingar, munnlegar, á tveim fundum sínum og reyndar liggur ljóst fyrir að við þessar aðstæður er ekki sérstaklega auðvelt að ræða jafnyfirgripsmikið mál og hér um ræðir og raunar hefur umræðan borið þess nokkurt vitni.
    Ég hef ekki séð eða heyrt að í máli þeirra sem hófu þessa umræðu hafi komið fram mikilvægar röksemdir til andsvara gegn því samkomulagi sem hefur verið sent til GATT og það er vissulega af hinu verra að menn skuli ekki hafa átt þess kost að fara yfir málið nákvæmlega, að menn skuli ekki hafa átt þess kost að kynna sér það áður en umræða af þessum toga sé hafin hér á Alþingi. Mér sýnist að fyrir þessu sé afskaplega einföld skýring og hún er sú að menn eru hér í pólitík til þess að vekja tortryggni og til þess að styrkja pólitíska stöðu sína í viðkvæmu máli.
    Það er svo annað mál að stjórnarandstöðunni er kannski nokkur vorkunn í þeim efnum því að ráðherrarnir sjálfir hafa ekki talað af neitt sérstaklega mikilli nákvæmni. Ég stend við það sem ég sagði við fréttamann fyrir fáum dögum að þeir ættu að taka upp aðra siði í þeim efnum ef þeir ætla að hafa heimilisfesti með sama hætti og nú er í þessum ráðuneytum því að engum gera þeir meiri bölvun en sjálfum sér með því að vekja tortryggni á eigin störfum. Lengst hefur þetta gengið að því er varðar blaðafréttir frá því í gærmorgun og sjónvarpsfréttir í gærkvöldi sem ég hef fengið útskrift af þar sem Hagfræðistofnun háskólans er að bera saman GATT-tilboð ríkisstjórnarinnar með ýmsum hætti og satt að segja á mjög ótrúverðugan hátt. Mér hefur hins vegar ekki tekist að fá frumgögn frá háskólanum í þessum efnum og sætir það nokkurri furðu.
    Ef menn fjalla um málið af þessu tilefni eins og stjórnarandstaðan hefur auðvitað gert og notfært sér, þá er vel skiljanlegt að menn leggi af stað í pólitískan leik og þá varðar menn auðvitað ekki alltaf um staðreyndir mála eins og hér hefur komið fram.
    Eins og ég sagði áðan hef ég reynt að leggja ofurlítið mat á þetta tilboð, borið það saman við bókunina frá 10. jan. árið 1992 og reyndar ýmis önnur gögn í þeim efnum. Nú má kannski minna á það að búvörusamningurinn sem í gildi er, og skal ég þá alveg sleppa honum efnislega að öðru leyti, tók býsna mikið mið af áformuðu GATT-samkomulagi. Yfir honum hvílir náttúrlega sú staðreynd. Og það er athyglisvert að í bókun 2 í þessum samningi segir um verðlagningu:
    ,,Aðilar eru sammála um að stefna beri að því að raunverð dilkakjöts lækki í áföngum um 20% á næstu 5--6 árum.``
    Það er líka eftirtektarvert að í svari Þjóðhagsstofnunar við bréfi landbrh. og landbn. eru þessi markmið lögð til grundvallar. Hér segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Sé gengið út frá því að markmið búvörusamningsins um lækkun raunverðs á sauðfjárafurðum náist og svipuð markmið varðandi aðrar búvörur virðast GATT-samningsdrögin ekki fela í sér verulega röskun í landbúnaði um það sem ella hefði orðið á næstu árum. Þetta stafar af því að stefnt er að meiri raunlækkun á verði landbúnaðarafurða í búvörusamningnum en GATT-drögin leiða af sér.``
    Bændum eru með öðrum orðum settir samkvæmt þessum búvörusamningi harðari kostir heldur en GATT-drögin, eins og þau voru og lágu fyrir árið 1992, gáfu tilefni til. Þegar þessar staðreyndir eru metnar og þetta borið saman við tollígildin sem nú eru sett fram, þá sýnist mér augljóst að hlutur landbúnaðarins sé miklu betur tryggður og varinn heldur en var í þeim drögum sem voru til meðferðar þegar umræðan og deilurnar fóru fram hér á landi. Mér sýnist að í þessum efnum hafi náðst umtalsverður árangur, að ekki sé fastar að orði kveðið. Og þegar því er nú lýst yfir af stjórnarandstæðingum í þessari umræðu að það sé grundvallaratriði í þessum samningi hvernig haldið sé til haga rétti til álagningar tollígilda, þá held ég að það sé alveg óvefengjanlegt að í þessum efnum liggur fyrir niðurstaða sem ver landbúnaðinn með ótvíræðari hætti heldur en áður. Og þá hafa menn fengið að frétta af árangri.
    Ég hef einnig farið yfir þær áherslur sem voru í bókun ríkisstjórnarinnar. Ég minni á að utanrrn. á enn eftir að svara bréfi mínu frá 20. okt. og þá kemst ráðuneytið náttúrlega ekki hjá því að túlka með nákvæmari hætti það sem felst í þessari samningsgerð. Þar af leiðandi ætla ég að þessu sinni og af þessu tilefni ekki að fjalla nákvæmlega um þessi atriði hvert fyrir sig.
    Ég tek eftir því t.d. að því er varðar 4. liðinn sem er um útflutningbætur að þar hafa menn áskilið sér nýja viðmiðun, þ.e. ef þær kröfur sem felast í 4. liðnum verða ekki virtar, þá verði heimilt að taka upp kröfu að nýju um útflutningsbætur. Og það er afar mikilvægt m.a. vegna þess að nauðsynlegt er að halda öllu því til haga sem gæti styrkt okkur í næstu samningsgjörð. Jafnvel þótt við nýttum ekki þessar heimildir þá er afar þýðingarmikið að halda þeim til haga.
    Að því er varðar a-lið 4. gr., þá hefur hvergi verið horfið frá kröfunni um magntakmarkanir. Ég hef ekki séð það. En það eins og annað verður væntanlega skilgreint nánar í svari utanrrn. til landbn. Alþingis.
    Eftir þá yfirferð sem ég hef farið yfir þennan samning á þessu stutta tíma, sem að sjálfsögðu byggist nú að verulegu leyti á því hvað kom fram á fundum landbn., sérstaklega á hádegisfundinum í gær þar sem skýr svör voru gefin við þeim spurningum sem við lögðum fram, þá sýnist mér það vera alveg ótvírætt að þetta mál er í annarri stöðu nú heldur en það var í árið 1992 og að miklu traustari heimildir eru fyrir hendi til varnar íslenskum landbúnaði heldur en þá voru.
    Ég veitti því athygli þegar ég hlýddi á ræðu málshefjanda hér áðan að hann talaði æðimikið um framhaldið og það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það því að niðurstaðan ræðst náttúrlega af þeim samningum sem fram fara á grundvelli þessa tilboðs. Þetta er auðvitað ekki annað en tilboð og samningarnir sem slíkir eru fram undan. Í þessu sambandi langar mig að vitna hér í álitsgerð Þórðar Friðjónssonar. Þar segir:
    ,,Ef GATT-samningsdrögin verða samþykkt virðist því að öllu samanlögðu mögulegt að útfæra landbúnaðarstefnuna innan þeirra bæði landbúnaði og neytendum til hagsbóta. Þetta er hins vegar vandasamt verk sem gerir miklar kröfur til stjórnvalda, hagsmunaaðila og annarra sem munu leggja hönd á plóginn við mótun stefnunnar í landbúnaðarmálum.`` Þetta er auðvitað grundvallaratriði í þessari umræðu. Það er grundvallaratriði hvernig unnið verður að þessum málum, hvaða rétt menn nýta sér sem menn kunna að fá í þessum samningum og hvernig útfærslurnar verða á þeim hér innan lands.
    Ég vil í þessu sambandi, af því að við erum að tala um GATT og menn tala núna mikið um landbúnaðinn í þessum efnum, endurtaka það sem ég sagði áðan að í samningum sem bændur hafa sjálfir gert, í samningum sem voru gerðir af fyrrv. ríkisstjórn eru vissulega mikil hættumerki á ferðinni, miklu meiri en þau sem af því kann að leiða að við gerumst aðilar að nýju GATT-samkomulagi.