Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 17:52:08 (1621)

[17:52]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra að hv. 3. þm. Austurl. hefur nú eytt úr huga sér öllum efasemdum um heimilisfesti þeirra landbrh. og utanrrh. í Stjórnarráðinu því að hann gerir ráð fyrir því að ríkisstjórnin verði við völd til að sjá um framkvæmd GATT-samkomulagsins og mæli hann manna heilastur.
    Það er ástæða til í framhaldi af ræðu hv. þm. að taka af tvímæli að því er varðar útflutningsbætur. Þannig er mál með vexti að fyrrv. ríkisstjórn á heiðurinn af því að hafa gert samning, búvörusamning, sem hafði það til síns ágætis þótt hann hefði aðra galla að afnema útflutningbætur. Í því er fólginn umtalsverður sparnaður í ríkisfjármálum því að af stuðningsaðgerðum við landbúnað eru útflutningsbætur óskynsamlegastar.
    Hvert er svo samhengið milli útflutningsbóta og Úrúgvæ-lotu GATT eða landbúnaðarþáttar þeirra samninga? Þessir samningar afnema ekki útflutningbætur en lækka þær hlutfallslega. Stjórnvöldum á Íslandi væri út af fyrir sig einfalt --- það er bara þeirra mál --- að taka aftur upp útflutningsbætur. Líkurnar á því eru að vísu ekki miklar að nokkur ríkisstjórn á Íslandi verði svo vitlaus að gera það. En eitt er þó alveg ljóst að það mundi kalla á að spretta upp búvörusamningnum og efna til nýrra samninga. En það er alveg ljóst, GATT-samningurinn kveður einungis á um lækkun útflutningsbóta. Stjórnvöld á Íslandi gætu tekið aftur upp útflutningsbætur að því marki þótt það sé einfaldlega innlend, pólitísk ákvörðun. En það hefur þau tengsl við búvörusamninginn að þá yrði að spretta honum upp.