Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:01:46 (1627)

[18:01]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hér utan dagskrár um tilboð ríkisstjórnarinnar inn í GATT-samninga hefur verið mjög athyglisverð og á það bæði við um það sem fram hefur komið hjá málshefjanda sem og í svörum ráðherra og ekki síst í því sem fram hefur komið hér frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar og sérstökum ábyrgðarmanni þar í formennsku landbn., hv. þm. Agli Jónssyni.
    Ég ætla í þeim tíma sem ég hef til umráða aðeins að minnast á stöðuna varðandi þetta tilboð að því er varðar stöðu okkar Íslendinga. En sérstaklega ætla ég að ræða um stefnuna almennt varðandi GATT-samninga og áhrif þeirrar stefnu, sem ríkt hefur og er verið að herða á með GATT-samningunum, að opna fyrir alþjóðaviðskipti án tillits til víðtækra áhrifa til lengri tíma litið á umhverfi jarðar og á stöðu þróunarríkja. Það er kannski einn stærsti þáttur þessa máls sem við, smáþjóðin Íslendingar, hljótum að horfa á, ber að horfa á og mér finnst að það hafi allt of lítið farið fyrir þeim þætti málsins í umræðu til þessa. Varðandi stöðuna eftir að það tilboð er komið fram sem ríkisstjórnin hefur verið að kynna á þessum sólarhring þá er það alveg ljóst að staðan er önnur, veikari og verri, langtum veikari og verri en þegar gengið var frá bókun um þessi mál vegna þrýstings stjórnarandstöðu og víðtækra umræðna víða um land 10. jan. 1992.
    Það liggur nú m.a. fyrir varðandi landbúnaðarafurðir að við höfum ekkert fast í hendi að því er varðar möguleika á því að koma við tryggingum í staðinn fyrir útflutningsuppbætur sem við höfðum fellt niður. Allt það sem hér hefur verið nefnt eru hálmstrá, veikar vonir, einhverjar vísbendingar sem ráðherrarnir þó segja fullum fetum bæði í þingnefndum og hér í þingsal að ekki séu líkur á að verði ofan á í GATT-samningunum í framhaldi af þessu tilboði. Það á alveg sérstaklega við um hinar svonefndu magntakmarkanir því við erum búin að heyra utanrrh., gott ef ekki landbrh. líka, lýsa þeirri skoðun að möguleikarnir á því að fá þær fram í reynd séu sáralitlir. Hvar sér hv. þm. Egill Jónsson glætuna í þessu tilboði, hvað þá að hér sé um að ræða eitthvert betra tilboð og betri stöðu en 10. jan. 1992? Það þarf mikið hugmyndaflug til að setja slíkt fram og mikið dálæti á eigin ríkisstjórn og traust á ráðherrum, þar á meðal utanrrh. í sambandi við þetta mál.
    Ég verð að segja að það er orðið heldur lágt risið á hv. formanni landbn. sem reyndi hér með heiðarlegum og myndarlegum hætti á síðasta degi þings sl. vor að fylkja liði til viðnáms eins og staðan var þá en að vísu lyppaðist niður áður en þingið var sent heim af hæstv. forsrh. og dró í land. Og nú er hv. þm. hér bljúgur og auðmjúkur og treystir einna helst á hæstv. landbrh. í þessu máli, og hæstv. landbrh. getur ekki á sér setið að koma hér upp í ræðustólinn til þess að gera gys að hv. þm. Ég verð nú að segja að það er heldur illa að verið að gera það.
    Ég tel þetta mjög mikið alvörumál vegna þess að ég efast ekki eitt augnablik um það að hv. þm. Egill Jónsson vill spyrna við fótum að því er varðar hagsmuni sveitafólks í landinu, að því er varðar íslenskan landbúnað og stöðu hans og hefur haft tilburði uppi um það en það gerist ekki með því að gefa sér alrangar forsendur. Og að vera að bera það saman að í þessu tilboði felist nánast skárri staða heldur en felst í núverandi búvörusamningi! Ja, það má margt segja. Það má marga vísuna kveða þegar slíku er haldið fram og með einhverjum hætti er lagt að jöfnu samningur milli íslenskra stjórnvalda og stéttarsamtaka bænda og alþjóðasamningur af því tagi sem hér um ræðir þar sem framhaldið og málsmeðferðin er auðvitað ekki nema að afar litlu leyti í höndum Íslendinga. En við höfum það þó væntanlega í okkar hendi, íslensk stjórnvöld og íslenskir bændur, hvernig þeir semja innbyrðis. Þetta er auðvitað slíkur blekkingavaðall að það er ekki hægt undir því að sitja þegjandi.
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé ekki þörf á því í rauninni af minni hálfu að fara hér ofan í saumana á þeirri útlistun sem ráðherrarnir hafa haft uppi. Það hefur verið gert hér af þingmönnum, hv. 3. þm. Norðurl. v. og það hefur verið gert af málshefjanda, hv. þm. Jóni Helgasyni, og fleirum sem hér hafa tekið þátt í umræðunni að sýna hversu holt er undir málflutningi hæstv. ráðherra í þessu máli. Auðvitað vekur það athygli hvernig á málinu hefur verið haldið, sú aðferð að grafa þetta mál á bak við múra ráðuneyta þangað til að búið er loksins eins og það heitir að ,,jafna ágreininginn innan ríkisstjórnarinnar``. Eru þetta lýðræðisleg vinnubrögð? Eru það lýðræðislegir stjórnarhættir í stóru máli sem varðar grundvallarhagsmuni Íslendinga í einum þýðingarmesta atvinnuvegi okkar að halda á máli með þessum hætti? Og koma svo hingað og segja eins og hæstv. forsrh. raunar gerði hér fyrir fáum dögum ,,allt er þetta reist á grundvellinum frá 10. jan. 1992.``
    Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að ræða þennan samning í nokkuð víðara samhengi vegna þess að eins og ég gat um er á því mikil þörf að reyna að varpa ljósi á hvaða götu við erum hér að feta --- og þegar ég segi við þá á ég við heimsbyggðina því að það er í rauninni hún sem er þátttakandi í þessari vegferð, þessari GATT-vegferð.

    Saga þessara GATT-samninga er orðin um fjögurra áratuga gömul. Þeir hafa hins vegar verið að breyta mjög verulega um inntak á þessu tímabili. Jafnhliða því sem hert hefur verið á frjálsræði í viðskiptum eins og það er kallað þá hafa þessir samningar og það sem tengist GATT fengið nýtt inntak. Þessi umræðulota sem nú stendur yfir er í rauninni, ef hún gengur upp, að breyta eðli þessa samnings í grundvallaratriðum, alveg sérstaklega ef sú alþjóðaviðskiptastofnun verður að veruleika sem samningurinn gerir ráð fyrir og sem mér er sagt að líkurnar á að fylgi sem niðurstaða hafi vaxið nú að undanförnu.
    Hugmyndir um þessa alþjóðaviðskiptastofnun er að finna í viðauka 4 við GATT-samninginn. Þar er í rauninni verið að breyta algerlega um eðli þessa samnings frá því sem verið hefur eins og að hann lá fyrir eftir viðskiptaloturnar fyrir Úrúgvæ-lotuna. Þar eru m.a. uppi hugmyndir um það að beitt verði meiri hluta atkvæða við afgreiðslu ákveðinna mála. Hvað getur hæstv. landbrh. upplýst okkur um stöðuna að þessu leyti? Hver er staðan varðandi viðauka 4 í GATT-samningunum að því er varðar hina alþjóðlegu viðskiptastofnun MTO, sem er hluti af þessum samningaviðræðum? Þessi viðskiptastofnun heitir á ensku Multilateral Trade Organisation, skammstafað MTO.
    Hæstv. utanrrh. leyfði sér að nefna það hér sem einn þátt þessara samninga að þar væri fjallað um umhverfismál. En hann eyddi auðvitað ekki orði að því með hvaða hætti það væri gert. (Gripið fram í.) Sannleikurinn er sá að í þessum samningum er ekkert bitastætt að finna að því er varðar umhverfisvernd og tryggingar fyrir því að staðið verði í ístaðinu á grundvelli þessa samkomulags um umhverfisvernd, hvað þá að inn í samninginn séu byggð nokkur skuldbindandi ákvæði um sjálfbæra þróun sem þó 118 þjóðhöfðingjar tóku undir á fundi sínum í Rio de Janeiro í fyrra. Ekki nokkurt einasta skuldbindandi atriði. Ekkert um öryggiskröfuna, um varúðarreglurnar svonefndu í umhverfismálum, ekkert slíkt að finna. Það litla sem þarna má lesa er í formálsorðum, óskuldbindandi formálsorðum í sambandi við þennan samning.
    Það er alveg ljóst að núverandi keyrsla á fríverslun, á opna fríverslun í heiminum, gengur í berhögg við sjónarmið umhverfisverndar eins og reynt er að reisa þau, m.a. í yfirlýsingum ráðstefnunnar í Ríó. Hún verður til þess að gengið verður hraðar og harðar gegn auðlindum jarðar þannig að þær eyðast. Lækkun á vöruverði kann að þykja góð latína og gott að hampa því framan í íslenska kjósendur, svokallaða neytendur á stundum, en menn ættu aðeins að huga að því hvað liggur að baki kröfunni um sífellt meiri og meiri hagræðingu, meiri lækkun, ódýrari auðlindir, harðari aðgang að auðlindum. Niðurstaðan af þessum samningum og opnun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir mun að sjálfsögðu leiða til þess hér á Íslandi og annars staðar á norðurslóðum, í Noregi þar á meðal og annars staðar í Skandinavíu, að jarðnæði fer í eyði í stórum stíl, að jörð sem yrkt hefur verið um aldir verður ónotuð en álagið á matvælaframleiðslu annars staðar, þar sem hægt er að hagræða, hafa uppi stórframleiðslu í sem allra mestum mæli, mun aukast með viðeigandi áhrifum á búskaparhætti, á jarðveg, með aukinni notkun á áburði, gerviefnum og aukefnum í framleiðslu til þess að geta komið vörunni óskemmdri á milli heimshorna, með tilheyrandi kostnaði, m.a. í orku, við að flytja þennan varning heimshorna á milli. Ég bið ykkur, góðir þingmenn, að staldra við og íhuga þessa þætti máls.
    Ég vil jafnframt nefna það, virðulegur forseti, að stundum er verið að reyna að hampa GATT-samningnum sem einhverjum kosti fyrir þróunarlöndin sem við köllum svo, hin fátækari ríki jarðar, og það má e.t.v. finna þess stað að einstaka þeirra hafi burði til þess að nýta sér til skamms tíma litið ákvæði þessa samnings til þess eitthvað að bæta sína stöðu varðandi útflutning á landbúnaðarafurðum. En þau eru tiltölulega fá. Þorri þessara ríkja og þau sem verst standa munu fara halloka vegna þessa samnings ef hann verður að veruleika að því er varðar landbúnaðarafurðir og það kemur bæði inn í bein viðskipti með afurðir en ekki síður það sem varðar hugverkaþátt þessa máls, sem svo er kallaður, eða hugverkarétt sem ekki aðeins tekur til kvikmynda eins og flaug hér fyrir. Hann tekur vissulega til kvikmynda, rétt er það en meginatriðið eru einkaleyfin, einkaleyfi á lífverum, einkaleyfi á lífverum í landbúnaði, einkaleyfi á útsæði sem bændur þurfa að greiða þeim sem eignast þessi leyfi. Í dag eru það fjölþjóðafyrirtækin sem að yfirgnæfandi meiri hluta eru eigendur þeirra og munu sölsa þau undir sig í enn meiri mæli. Og það er í þennan sjóð sem bændur víða um heim og í hinum fátæku löndum munu þurfa að borga blóðtollinn fyrir þessa stefnu.
    Virðulegur forseti. Ég neita því ekki að eftir að hafa athugað þetta mál þá vænti ég þess, þá vona ég það að þessi samningur eins og hann liggur fyrir, eins og við þekkjum hann nú, fari forgörðum. Það er kannski ekki mikil ástæða til þess að ætla að svo verði, ég vil ekki leggja mat á það, en þó eru augun að opnast víða, víðar en áður, á hinum gífurlegu annmörkum óheftra viðskipta, m.a. fyrir auðlindir jarðar og varðandi misskiptingu heimsins gæða.