Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:23:28 (1631)

[18:23]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Betur að satt væri og það mætti rætast sem hæstv. utanrrh. er að nefna hér. Ég held hins vegar að hindranirnar þarna séu meiri en gefið er í skyn. Ég bendi á það að mikið af möguleikum og hráefnaauðlindum þessara landa er komið í hendur hinna fjölþjóðlegu fyrirtækja. Það er ekki aðeins að þau séu að kaupa upp réttindin, þ.e. að eigna sér lífverur sem notaðar eru í landbúnaði, útsæði og annað þess háttar, sem þarf að borga fyrir með afarkjörum, heldur stýra þau í raun einnig framleiðslunni þar sem þau hafa náð undirtökunum. Ég hef undir höndum ummæli ýmissa aðila, m.a. indverskra hagfræðinga og manna sem hafa verið að skoða þetta með tilliti til Indlands. Þar er dómurinn, í ummælum sem ég hef hér fyrir framan mig, efnislega sá að með GATT-samkomulaginu og viðlíka samningum sé í raun verið að færa Indland aftur til nýlendutímans. Ég hef ekki aðstöðu til þess nú að rökstyðja það nánar né

heldur þekkingu til þess, en þetta eru ummæli sem ég tel ástæðu til að taka mark á. Það er mjög margt einmitt í viðskiptum þróunarlanda og hinna ríku iðnaðarríkja undanfarin 20--25 ár sem ber vott um að þar eru ekki nein jafnræðisskipti nema síður væri. Þar fara þróunarríkin stöðugt meira og meira halloka. Þegar þau reyndu að knýja það fram að GATT-samningur færi undir stjórn Sameinuðu þjóðanna 1981 og voru þróunarríkin búin að knýja fram viðræðufund um þau efni við iðnríkin þá var því algerlega hafnað. Bandaríkin vildu ekki sjá það að GATT-samningurinn yrði færður í það horf.