Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:33:48 (1636)

[18:33]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð inn í þessa umræðu.
    Við umræðu um búvörulögin sl. vor rakti ég nokkur atriði úr ferli hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins í samningunum við EES. Þar kom fram hvernig hann reyndi hvarvetna að halla á íslenskan landbúnað. Þessi sjónarmið ítrekaði ég í Morgunblaðsgsrein nýlega að viðbættum tíðindum síðsumarsins og haustsins varðandi innflutning á erlendri skinku og innflutning á frægum löppum sem hvort tveggja var lögbrot. Ekki er þörf að endursegja þessa sögu. Hún er öllum ljós.
    En enn vegur hæstv. ráðherra í sama knérunn. Nú liggur fyrir tilboð ríkisstjórnarinnar til GATT og enn reynir hæstv. ráðherra að setja merki sitt á þá pappíra og honum hefur tekist það að nokkru. En eftir að þetta er komið út til GATT hefur ráðherrann enn betri möguleika einn til að þjóna sinni lund sem er að galopna landið fyrir innflutningi erlendra búvara. Þar er enginn til að halda í höndina á honum, hvorki honum né fulltrúum hans. Ráðherrann virðist ekki gera sér grein fyrir að hann á að þjóna atvinnuvegaráðuneytunum en ekki öfugt. Hann er með samningavaldið erlendis fyrir alla Íslendinga. Það vald hefur hann misnotað. Þess vegna er honum ekki treystandi. Hann virðist vera búinn að gleyma því að hann er Íslendingur.
    Hvernig vinna fulltrúar annarra þjóða? Þeir berjast með kjafti og klóm fyrir sínu landi, fyrir sínum atvinnuvegum, moka milljörðum í niðurgreiðslur heima fyrir, en fulltrúi Íslands vinnur á móti sínu landi, íslenskri atvinnu.
    Hæstv. ráðherra hefur leikið lausum hala í tveimur ríkisstjórnum varðandi samninga við aðrar þjóðir. Nú er nóg komið. Þetta er gert í trássi við meiri hluta þjóðarinnar. Ég fullyrði að sjónarmið Jóns Baldvins er í miklum minni hluta meðal þjóðarinnar. Er það lýðræðislegt að hann hafi umboð til að hnekkja íslenskum atvinnuvegum, íslensku fólki?
    E.t.v. getum við Íslendingar lifað með EES og GATT. Ég segi ef til vill. Ég er þó vantrúaður. Ég held raunar að það sé ekki hægt. En forsenda þess að það sé hægt er að í stól utanrrh. sitji maður sem heldur merki Íslands hverja einustu stund, merki íslenskrar framleiðslu, íslenskrar atvinnu, en vilji ekki galopna landið fyrir ódýrum innflutningi niðurgreiddra, erlendra landbúnaðarafurða með tilheyrandi hormónasulli og sjúkdómum.
    Virðulegi forseti. Ég lýsi vantrausti á hæstv. utanrrh. ( Gripið fram í: En landbrh.?) til að fara með umboð Íslands meira en orðið er í þeim viðkvæmu milliríkjasamningum sem við stöndum í. Í þeim samningum var þó og er nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að minnast þess sem skáldið sagði að muna vel hvað íslenskt er um alla vora tíð.