Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 18:54:27 (1643)

[18:54]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Örfá orð. Ég tel að utanrmn. þurfi að fylgjast með þessu máli efnislega, ekki bara formlega heldur þurfi hún að fylgjast með því efnislega og taka það til umræðu og vera ríkisstjórninni til ráðuneytis eins og henni ber að gera við framhald málsins og þær vendingar sem það kann að taka.
    Hv. 3. þm. Austurl. var að gera því skóna að núv. ríkisstjórn sæti til frambúðar. Ég ætla svo sannarlega að vona að svo fari ekki, en hvernig færi nú ef hæstv. núv. ríkisstjórn sæti og landbúnaðarþáttur GATT yrði að veruleika? Ég er ansi hræddur um það að hv. 3. þm. Austurl. þyrfti oft að fara í gegnum sjálfan sig ef svo færi. Hæstv. viðskrh. hefur haft Hagfræðistofnun háskólans í þeirri vinnu undafarin dægur að reikna fyrir sig og hann hefur búið henni í hendur rangar tölur og þá fær hún auðvitað rangar niðurstöður. Og það er einmitt þessi ráðherra sem kemur til með að ákveða innflutningsmagn. Það er ekki eins og ef þetta yrði að samkomulagi að viðskrh. sé einhvers staðar úti í bæ þó að landbrh. hafi kallað hann hér áðan ,,mann úti í bæ``. Hann er í ráðuneytinu og það er ráðherrann sem kemur til með að veita innflutningsleyfin. Það gerir hann sem viðskrh. Og það er hann sem ákveður lágmarksmagnið. Það er hann sem ákveður og útdeilir innflutningsleyfunum á þessum landbúnaðarvörum, bæði hve mikið verður flutt inn og eins hverjir fá að flytja það inn.
    Hæstv. landbrh. var að gera því skóna að það yrði farið að skammta, það yrðu einhverjir skömmtunarseðlar gefnir út á innflutninginn. En ég hygg að það sé nú ekki samræmanlegt frjálsum viðskiptum og mér sýnist að það sé haftastefna. Ég á von á því að þegar farið verður að gauka innflutningsleyfunum þá verði þar uppi hin svæsnasta einkavinavæðing. Ég á von á því að það verði aldeilis þrýst á. Við höfum séð hvernig þessi fyrirtæki haga sér, Hagkaup, Bónus, Mata, forráðamenn þeirra, hvernig þeir hafa hagað sér nú í sumar. Og ekki minnkar ásóknin þegar þetta verður orðið frjálst og það verður orðið viðskrh. eins að ákveða hve mikið þeir fá að flytja inn.
    Hæstv. utanrrh. kemur náttúrlega líka að málinu. Hann hefur ekki vílað fyrir sér að brjóta lög um skinku, ekki vílað fyrir sér að brjóta lög um kalkúnalappir og ég er ekkert að minnast á svínsbóga. Landbrh. lenti í stælum út af gúrkum um daginn og þrjóskaðist við í nokkra klukkutíma að heimila afgreiðslu á gúrkum. Svo tók hann auðvitað það ráð að éta gúrkurnar upp á einni nóttu svo að það voru engar gúrkur til í landinu meira. Ég veit ekki hvort hv. formaður landbn. hefur hjálpað honum eitthvað við þetta, en gúrkurnar kláruðust skyndilega og þá var allt í lagi að flytja inn gúrkur. Við höfðum einu sinni mikinn og ráðagóðan þingskörung með okkur, Lúðvík Jósepsson. Hann talaði um að éta vandann og sannarlega var það gert í þessari ,,krísu`` í ríkisstjórninni út af gúrkunum.
    Auðvitað verður landbrh. svínbeygður í þessu kompaníi eins og gert hefur verið. Hann vílaði ekki fyrir sér að svipta 180 bændur atvinnunni með einu pennastriki í sumar með ákvörðun um greiðslumark í sauðfjárafurðum og hann á eftir að taka þá fleiri.
    Hvernig hafa gildandi lög haldið? Það er ekki bara hæstv. utanrrh. sem hefur brotið þau með innflutningi landbúnaðarvara. Því er haldið fram fullum fetum að hér hafi verið seld í sumar 17 tonn af tómötum þegar tómatainnflutningur átti að vera bannaður. Svona mætti lengi telja.
    Ég rifja það upp fyrir hv. 3. þm. Austurl. að það verður fjmrh. sem ákveður tollígildin. Það verður hans ákvörðun hvað þau verða há. Og ég er hræddur um að það verði margir kollhnísar sem bíða hv. 3. þm. Austurl. í framtíðinni ef núv. ríkisstjórn situr og mér finnst að hv. 3. þm. Austurl. ætti að biðja guð þess lengstra orða að núv. ríkisstjórn sitji ekki til frambúðar.
    Meinið í öllu þessu máli er það að sú landbúnaðarstefna sem við fylgjum hér á Íslandi rímar ekki við landbúnaðarstefnu umheimsins og út af því skapast margt af þessum vandamálum. Menn hafa mótað hér landbúnaðarstefnu sem er ekki í samræmi við landbúnaðarstefnu þeirra landa sem við erum að semja við. Þau eru með útflutningsbætur, niðurgreiðslur og allra handa styrki sem við erum hættir við og þess vegna lendum við í þessum auknu vandræðum.