Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 19:00:16 (1644)

[19:00]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég sé að hv. 3. þm. Reykv., formaður utanrmn., tók sína tösku og gekk út eftir að hann hafði lokið máli sínu, en ég hafði ætlað mér að gera örfáar athugasemdir við það sem hann ræddi um samstarf við þingið í þessu máli. En eflaust hefur hann haft gildar ástæður fyrir því að hverfa af vettvangi.
    Hv. þm. sagði að það hefði verið haft allt það samráð og samstarf við nefndir þingsins sem nauðsynlegt hefði verið, nefndi í því sambandi að í þessari viku hefði málið verið rætt tvisvar á fundum landbn. Öllu má nú nafn gefa. Fyrra tilfellið var þannig að á þriðjudagsmorgni þegar við mættum á fund landbn. lásum við í morgunblöðunum þær upplýsingar sem hafðar voru eftir, að við komumst að seinna, hæstv. utanrrh., sem hann hafði látið blaðamönnum í té á óformlegum blaðamannafundi deginum áður, á mánudeginum, áður en málið hafði verið orðað við landbn. þingsins. Þá gerðum við stjórnarandstæðingar þá kröfu, þar sem svo vildi til að aðstoðarmaður landbrh. ætlaði að koma á fundinn hjá okkur út af öðru máli, að hann á fundinum greindi okkur frá því sem væri að gerast í þessu máli og komum þeim skilaboðum upp í ráðuneyti áður en hann kom á okkar fund.
    Nú vil ég taka það fram að ég hef aldrei staðið þann mann að öðru en vönduðum vinnubrögðum og viljað veita allar þær upplýsingar sem hann getur. Hann var hins vegar ekki í stakk búinn til þess að láta okkur hafa nokkuð á blaði um þessi mál. Svo var einnig í hádeginu á miðvikudeginum þegar landbn. er kölluð aftur saman út af þessu máli þá fáum við ekki stafkrók í upphafi í hendurnar til þess að byggja á. Það er ekki fyrr en seinni partinn í dag sem landbúnaðarnefndarmenn fá þessi gögn í hendurnar.
    Það gefur auga leið að hér er ekki um neitt samráð eða samvinnu að ræða. Hér er eingöngu um að ræða hina einföldustu og sjálfsögðustu tilkynningaskyldu eftir á. Kannski hefði maður skilið þetta að einhverju leyti ef hlutirnir væru svo sem hér var sagt í ræðustóli í dag að meðan málið væri til umfjöllunar í ríkisstjórninni og ekki leyst þar, væri ágreiningsmál þar, þá fengju þingmenn engin gögn í hendurnar og ekki frekari upplýsingar. En þegar það er vitað að á þessu ferli á mánudaginn var kallar hæstv. utanrrh. til sín blaðamenn og skýrir þeim þar frá stöðu mála, þá finnst manni að ekki sé gert mikið úr virðingu Alþingis og virðingu fyrir upplýsingaskyldu við Alþingi. Og þetta finnst mér vera kannski það alvarlegasta í þessu ferli varðandi upplýsingar til Alþingis.
    En hvað með það. Okkur er sagt að hér sé komið á heiðursmannasamkomulag milli hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh. sem ráðherrarnir innsigluðu með handabandi og brosi á vör á ráðherrabekknum fyrr í dag. Það er kannski sá hlutur sem ég óttast mest í þessu máli, þetta heiðursmannasamkomulag og þá stöðu að eins og nú er komið málum gengur ekki hnífurinn á milli hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. í þessu máli. En það hefur nú einmitt verið þar sem hæstv. landbrh. hefur tekist að skapa sér eilitla sérstöðu í þessari ríkisstjórn, það hefur verið nokkuð hörð barátta við hæstv. utanrrh. sem út af fyrir sig hefur að mínu mati ekki verið gott fyrir íslenskan landbúnað því að meðan sú staða er uppi þá hefur hæstv. landbrh. nánast engu brýnu hagsmunamáli í landbúnaði komið í gegnum Alþingi eins og sýndi sig best á vordögum þegar hér var öruggur þingmeirihluti fyrir breytingu á búvörulögum, breytingu sem hefði komið í veg fyrir allan hamaganginn um gúrkurnar nú fyrir nokkrum vikum. Þess vegna spyr ég hæstv. landbrh.: Í þessu heiðursmannasamkomulagi sem nú hefur verið innsiglað milli hæstv. ráðherra, var þá í leiðinni gert samkomulag um þá lagabreytingu og var þá í leiðinni gert samkomulag um það hvernig háttað verði forræði fyrir heimildum til innflutnings samkvæmt þeim samningum sem við erum aðilar að? Eigum við von á að fá það frv. aftur inn í þingið og við getum unnið það? Ég er ekki búinn að sjá að það linni uppákomunum og meðan Alþingi og ríkisstjórnin getur ekki mannað sig upp í að ná stjórnarflokkunum saman um nauðsynlegar breytingar á búvörulögunum til þess að hægt sé að standa við alþjóðlega samninga, þá verður þetta hernaðarástand uppi sem að mínu mati er afar skaðlegt fyrir hagsmuni íslensks landbúnaðar, sá slagur og sú umræða sem í kringum það spinnst. Við eigum náttúrlega að vera menn til þess að ná að breyta lögum þannig að við getum unnið eftir þeim samningum sem við erum aðilar að, en það hefur hæstv. ríkisstjórn ekki tekist að gera og hæstv. landbrh. ekki tekist að koma því máli í gegn.
    Ég vil taka fram til þess að forðast allan misskilning og ég hef reyndar gert það áður í Alþingi að ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að vera aðilar að GATT-samkomulaginu. Okkar hagsmunir eru það miklir varðandi útflutning og sem eru tengdir þessum samningum að að sjálfsögðu hljótum við að vera aðilar að GATT. Ég hef hins vegar einnig úr þessum ræðustól margoft lýst því yfir að það hvernig hagsmunum okkar framleiðsluatvinnuvega reiðir af ræðst ekki í samningum hvorki um GATT né EES sem gerðir eru á erlendri grund. Þeir ráðst fyrst og fremst af því hvernig íslensk stjórnvöld kjósa að framfylgja viðkomandi samningum og á hvern hátt þau kjósa að standa á okkar rétti. Minn ótti í þessu máli snýr ekki að samningnum sem slíkum. Hann snýr að því hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn ætlar að standa á okkar rétti gagnvart okkar samningum og þar höfum við dæmin fyrir okkur að einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni víla ekki fyrir sér að ganga erinda þeirra aðila sem eru að flytja inn og ganga meira að segja svo langt að hvetja til lögsóknar á hendur ríkisstjórnar í því sambandi. Ég hef ekki séð að hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. hafi breytt um skoðun í þessu máli, eða fólst það einnig í heiðursmannssamkomulagi landbrh. og utanrrh.?

    Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég aðeins að koma að umhverfisþætti þessara mála allra. Ég mun ekki taka nema örfá orð í það. Ég held að það sé afar brýnt fyrir landbúnað, ekki bara hér á Íslandi heldur alls staðar í heiminum að umhverfissjónarmið fái meiri vigt í þeim samningum sem gerðir eru og það þurfi í raun að gera sáttmála, alþjóðlegan sáttmála sem horfist í augu við þær skuldbindingar sem verður að gera við landið og framtíðina þegar horft er á framleiðslu búvara. Það gerum við hins vegar ekki með því að hverfa til baka. Við verðum að gera það með því að nota á hverjum tíma nýjustu tækni og með því að gefa umgengninni við landið ákveðið markaðslegt vægi þannig að menn verði að borga fyrir ef sýnt er að menn gangi þar nær auðlindum jarðar en skynsamlegt er.