Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:25:27 (1670)



[15:25]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka það sem ég sagði sl. fimmtudag að vinnubrögð í kynningu á þessari skýrslu eru alveg með fádæmum. Að fjölmiðlar skuli fyrst byrja á að fjalla um hana og greinilega þar með hafa fengið skýrsluna í hendur á meðan henni hefur ekki verið dreift til þingmanna og það var ekki búið núna rétt áðan. Og ekki hafa stjórnendur sjúkrahúsanna úti á landi fengið skýrsluna heldur í hendur. Ég veit að nokkrir þeirra sáu skýrsluna á borði ráðherra fyrir um 10 dögum síðan og var þá sagt að hún yrði send strax næsta dag. Einn framkvæmdastjóri sjúkrahúss á landsbyggðinni hringdi í morgun og bað um skýrsluna en var svarað í ráðuneytinu að hann fengi hana ekki fyrr en búið væri að ákveða fundi út um landið og þetta er allt gert án þess að þingmenn séu nokkuð farnir að skoða eða ekki einu sinni fá þessa skýrslu í hendur. En nú er það sem sagt gefið út að það eigi að halda fundi um efni skýrslunnar með heilbrigðismálayfirvöldum heima fyrir en þeir fá hana ekki til að kynna sér hana með einhverjum fyrirvara.
    Burt séð frá þessum vinnubrögðum var alveg tímabært að gera úttekt á starfsemi sjúkrahúsa, ekki aðeins í dreifbýlinu heldur á öllu landinu. Það á ekki að gera sérstaka úttekt á sjúkrahúsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og síðan á landsbyggðinni eins og þetta séu tvö aðskilin mál eða tvær þjóðir hér er um að ræða. Við höfum hins vegar horft upp á það á sl. tveimur árum að einhverjar málamyndaúttektir er verið að tala um hér á sjúkrahúsrekstri á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
    Við höfum líka orðið vitni að því hvernig farið hefur verið í svokallaðar sparnaðaraðgerðir þar. Þær eru handahófskenndar, illa ígrundaðar, skila engum sparnaði og koma illa við notendur. Nú kemur skýrsla þar sem tekið er fram að ekki séu gerðar tillögur um rekstur sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu heldur aðeins komið með ábendingar um breytingar, eins og segir þar á einum stað. Og hvað segir svo nefndin t.d. um sjúkrahúsmálin hér á höfuðborgarsvæðinu, á bls. 51, með leyfi forseta:
    ,,Einföldun sjúkrahúsþjónustu mundi spara verulega fjármuni. Landakot er þegar rekið við mjög óeðlilegar aðstæður og erfitt að skera niður kostnað þjónustudeilda í samræmi við fækkun legudeilda . . .   Sjúkrahúsið í Hafnarfirði hefur afar óljóst hlutverk . . .   Bráðaþjónusta á Vífilsstaðaspítala á vegum Landspítalans er óhagkvæm`` og fleira og fleira gæti ég talið upp, en því miður, virðulegi forseti, hef ég ekki

tíma til að ljúka þessu öllu, en ég vil bara benda á það að í þessari skýrslu er mörgum spurningum ósvarað og engan veginn tímabært að leggja fram tillögur eins og þar er gert.