Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:28:17 (1671)



[15:28]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég hef kynnt mér þær tillögur sem felast í því plaggi sem hér er til umræðu og get staðfest að þar er um ótrúlega hluti að ræða. Það er greinilega verið að gera algera eðlisbreytingu á þjónustu sjúkrahúsa víðs vegar um land. Það er verið að leggja niður almennan sjúkrahúsrekstur á öllu svæðinu frá Akureyri til Ísafjarðar, svo að dæmi sé nefnt, og á öllu svæðinu frá Akureyri og suður til Reykjavíkur. Það er verið að fækka sjúkrarúmum mjög verulega og t.d. í mínu kjördæmi er gert ráð fyrir því að sjúklingum sé ýmist flogið eða ekið, Skagfirðingum til Akureyrar, Austur-Húnvetningum og Siglfirðingum verði ekið til Reykjavíkur og Vestur-Húnvetningum á Akranes.
    Þetta er dæmi um innihald þessarar skýrslu og það þarf auðvitað ekkert að fjölyrða um þau óþægindi og þær þjáningar sem framkvæmd svona tillagna mun hafa í för með sér.
    En hvernig dettur mönnum slíkt í hug? Jú, það á að spara þessi lifandis ósköp á þessu, 782 millj. segja þeir, á 18 sjúkrahúsum. Ég vil upplýsa það hér strax hvernig sá sparnaður er fenginn því að auðvitað fækkar ekkert sjúklingunum. Það er bara verið að flytja þá, annars vegar til Akureyrar og hins vegar að langmestu leyti til Reykjavíkur. Á bls. 59 í skýrslunni segir nefnilega: ,,Ekki er reiknað með að kostnaður aukist í Reykjavík`` við framkvæmd þessara tillagna.
    Sem sagt, útreikningurinn er fólginn í því að það er reiknað út hvað muni sparast við að flytja um 800 sjúklinga, aðallega til Reykjavíkur. Þannig fá menn 780 millj. kr. en það er líka gengið út frá því að hann muni ekkert kosta til viðbótar á þeim stöðum þar sem sjúklingarnir verða. Þetta er nú öll rökfræðin í þessum tillögum. Þetta er greinilega mjög ómerkileg skrifborðsáætlun.