Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:33:59 (1673)



[15:33]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það hafa orðið miklar framfarir í heilbrigðisþjónustunni hér á undanförnum áratugum m.a. með aukinni tækni Það hafa líka orðið auknar kröfur hjá sjúklingum um meira öryggi í læknismeðferð og við höfum líka orðið vör við miklar framfarir og umbætur í samgöngumálum. Samhliða þessu hafa orðið breytingar á heilbrigðisþjónustu í landinu. Sérhæfð þjónusta hefur vaxið hratt. Hún hefur að langmestu leyti verið veitt á Reykjavíkursvæðinu og á Akureyri.
    Fyrir löngu voru fjölmörg sjúkrahús sem flokkuð voru sem slík notuð sem hjúkrunar- eða dvalarheimili að meira eða minna leyti. Mynstrið hefur því breyst innan heilbrigðisþjónustunnar. Þess vegna er

löngu tímabært að skoða skipulagningu sjúkrahúsþjónustu í landinu með það fyrir augum að tryggja öllum landsmönnum bestu, öruggustu og ódýrustu þjónustu sem völ er á ásamt því að ná fram hagræðingu. Það var því ekki óeðlilegt að ráðherra beitti sér fyrir vinnu af þessu tagi. Hins vegar tel ég afar óheppilegt hvernig að kynningu vinnuhóps um þessi mál var staðið. Svo gat litið út sem niðurstöður skýrslunnar væru pólitískar skoðanir og jafnvel áform ráðherrans en ekki skýrsla nefndar sem eftir er að meta pólitískt og enn fremur skýrsla sem eftir er að fá víðtækari faglega umfjöllun bæði frá sjónarmiði starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og hagræðingar- og stjórnunarlegu sjónarmiði. Og ég vil enn fremur lýsa yfir vonbrigðum mínum yfir því að þegar ég leitaði eftir eintaki af skýrslunni, þá gat ég ekki frekar en aðrir fengið þessa skýrslu. Hún var ekki fáanleg í heilbrrn.
    Ég tel nauðsynlegt að umræða um skipulag heilbrigðisþjónustu fari fram jafnt á Alþingi sem í þjóðfélaginu almennt, ekki síst með tilliti til hagræðingar í þessum málaflokki en sú umræða þarf að byrja á réttum nótum. Hún á ekki að hefjast á misvísandi blaðamannafundi embættismanna þar sem skilja mátti að þeir töluðu í umboði og samkvæmt stefnu heilbrrh.