Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:41:37 (1676)



[15:41]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil rifja það upp í lok þessarar umræðu að margar hafa þær skýrslurnar birst með ýmsum hætti af hálfu ráðherra fyrr og síðar þar sem þær hafa verið birtar hagsmunaaðilum áður en virðulegur þingheimur hefur séð þær. Það breytir því ekki að ég mun bæta úr ábendingum um kynningu gagnvart hv. þingmönnum.
    Ég hegg hins vegar eftir því í þessari umræðu að gagnrýnin er tvenns konar. Annars vegar að þessar tillögur skuli yfirleitt vera til, það skuli yfirleitt vera til hópur embættismanna sem láti sér til hugar koma að safna saman þessum upplýsingum og hvað þá að reyna að draga af þeim ályktanir. Þessu er ég ósammála. Ég hygg að okkur sé brýn nauðsyn á því frá einum tíma til annars að ráðast í umræðuna, hversu sársaukafull sem hún kann stundum að vera en hlaupast ekki undan henni. Það hygg ég að sé styrkur þeirra tillagna sem hér eru fram komnar.
    Ég sagði hér í upphafi: Þetta eru tillögur til heilbr.- og trmrh. Hann hefur ekki tekið afstöð til einstakra tillaga sem hér er að finna. Hins vegar verður ekki fram hjá því horft að í hinum tölulega grunni sem fyrir liggur kemur í ljós sú staðreynd, hvort sem hv. þm. líkar það betur eða verr, að í allt of mörgum tilfellum virðast heimamenn fara yfir lækinn til að sækja vatnið. Með öðrum orðum, fara fram hjá sínu heimasjúkrahúsi sem býður upp á viðkomandi þjónustu og hingað til Reykjavíkur. Það er slæmt. En ég hygg meginatriðið vera, og það er fagnaðarefni, að hv. þingmenn munu væntanlega taka virkan þátt í þeirri umræðu sem fram fer á landinu öllu um einstök atriði sem í þessari skýrslu og þessum tillögum er að finna. Ég hygg að í þessu sem og svo mörgu öðru sé umræðan sá mikilvægi og stóri þáttur sem leiðir okkur þó þrátt fyrir allt fram á veg.