Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:03:19 (1683)



[16:03]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram frá því í haust og sú meðferð sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur haft á þessu máli síðan þá, er skólabókardæmið um það hvernig opinbert stjórnvald getur ekki komið fram við þegna landsins. Í þessu máli kristallast í raun og veru hringlandahátturinn, flumbrugangurinn og tillitsleysið sem þessi ríkisstjórn sýnir ekki bara þessum hópi heldur á öllum sviðum þar sem hún í raun og veru kemur nærri.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. gaf út tilskipun í lok september, þar sem hann segir: Það á að loka þessum barnaheimilum. Sú tilskipun var ekki gefin út með tillit til þarfa sjúkrahúsanna, til aðstæðna foreldranna eða til aðstæðna barnanna eða til aðstæðna starfsfólksins sem þarna er starfandi. Síður en svo. Það

þarf engum að koma á óvart þó að það sé búið núna að leigja út rekstur barnaheimilis Landakots. Auðvitað hljóta stjórnendur þessara stofnana að taka mark á þeim bréfum sem eru send frá heilbr.- og trmrn. Hæstv. heilbr.- og trmrh. þarf ekkert að koma þetta á óvart nema það sé svo að hæstv. ráðherra ætlist til þess að það sé yfir höfuð alls ekki tekið mark á því sem kemur frá ráðuneytinu og því sem ráðherrann segir.
    Eftir utandagskrárumræðu sem fór fram fyrr í haust kom það skýrt fram og það náðist samkomulag um það að 5. nóv. eftir því sem mönnum sýnist að ráðuneytið og ríkissjóður ætluðu að greiða 14 þús. kr. á hvert barn. Slíkur var flumbrugangurinn við gerð þessa samkomulags að 17. nóv. er því lýst yfir að þetta sé á hvert rými. Þessar upplýsingar koma frá sama ráðuneytinu, frá sama starfsfólkinu sem er að fjalla um málið. Er þetta til að skapa traust á því sem þarna fer fram? Það er kominn tími til þess, hæstv. heilbr.- og trmrh., að starfsfólk sjúkrahúsanna, starfsfólk leikskólanna og þeir sem þessu máli tengjast fái nú vinnufrið fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. eins og hann hefur hagað sér að undanförnu og hann taki ákvörðun í málinu.