Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:10:20 (1686)



[16:10]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Auðvitað verður að fara að lögum, jafnt í Reykjavík sem annars staðar. En það er ekki sama hvernig lögin eru framkvæmd. Það er ekki sama hvort þjösnast er áfram við framkvæmd laga eða farið að því með gætni og þeirri fyrirhyggju sem þarf. Ég fullyrði að það hefur ekki verið viðhöfð nein fyrirhyggja í þeirri ákvarðanatöku sem hér hefur verið framkvæmd og það virðist ekki líta út fyrir að sú fyrirhyggja verði á næstunni.
    Það er óvissa í rekstri sjúkrahúsanna vegna þess að það er ekki víst að hægt sé að fá starfsfólk til starfa þegar á þarf að halda. Kannski eru börnin komin á kaldan klaka einhvers staðar og þörf að annast þau í staðinn fyrir að mæta til vinnu. Það er óvissa inni á heimilunum því að heimilin vita ekkert hvernig aðstaða þeirra verður á næstunni. Það er rýrnun kjara fyrir það starfsfólk sem hefur haft aðstöðu til að fara á barnaheimilin með börnin sín og enn þá einu sinni er þar með vegið að grundvelli samfélagsins sem eru heimilin. Það er auðvitað kjararýrnun ef starfsfólkið á að greiða miklu hærri gjöld fyrir dvöl á barnaheimilunum en áður og það er auðvitað líka kjararýrnun ef stytta á þann tíma sem hvert barn getur verið á heimilinu dag hvern. Þar af leiðandi er allt í óvissu í þessum málum. Starfsfólkið stendur í óvissu og spítalarnir sjálfir standa í óvissu. Þetta er því mjög alvarlegt ástand sem nú hefur skapast.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði áðan að hverjum starfsmanni yrði boðin áframhaldandi ráðning. Þetta væri allt í höfn, allir gætu verið nokkuð öruggir um sinn hag. Þetta er bara alls ekki rétt. Það er örstutt síðan ég talaði við formann starfsmannafélagsins Sóknar sem sagði að þessu væri á allt annan veg farið og fólkið væri mjög óöruggt um sinn hag og sína framtíðarráðningu. Ég vil bara að þetta komi fram.