Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:15:22 (1688)



[16:15]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. kom hér í pontu áðan og sagði að þetta væri einfalt mál, þetta snerist bara um það að færa verkefnið, sem væri lögum samkvæmt skyldur sveitarfélaganna, færa það þangað. Það snerist þetta mál um. Gott og vel. Ég skal ekkert hafa á móti því að verkefni sé flutt til sveitarfélagsins. Almennt er ég þeirrar skoðunar að sveitarfélög eigi að reka leikskóla. En gerið þið það þá með samningum. Þið getið ekki ákveðið einhliða að flytja þetta yfir til Reykjavíkurborgar. Þið geti ekki gert það og sett allt upp í loft. Það er ekki . . .  ( GunnS: Alþingi hefur ákveðið það með lögum.) Virðulegur þm., viltu koma hér í pontu ef þú hefur eitthvað að segja, þín er saknað í pontunni. Skæklatog ríkis og sveitarfélaga má ekki koma niður á þeim sem síst skyldi, í þessu tilviki foreldrum og börnum á leikskólunum.
    Ráðherra svaraði hér áðan eða svaraði reyndar ekki spurningum mínum og ég verð að segja það að ég er mjög ósátt við það hvernig ráðherra tók hér á málum. Hann svaraði þessu í engu þrátt fyrir það að ég hafi í morgun sent honum allar þessar fimm spurningar svo hann gæti áttað sig betur á þeim og svarað þeim ,,komplet`` hér í ræðustól. Það gerði hann ekki. Hann meira að segja snýr út úr spurningunum og segir að mín spurning hafi hljóðað á þann veg: Hvernig getur ráðherra tryggt óbreyttan rekstur leikskóla

til frambúðar? Þannig spurði ég alls ekki, virðulegur ráðherra. Ég sagði: Hvernig getur ráðherra tryggt framtíðarstöðu þeirra? Það er allt annar hlutur. Ég talaði ekkert um óbreyttan rekstur. Mér finnt það mjög miður að svona nýbakaður ráðherra skuli sýna þingmönnum þessa lítilsvirðingu að svara ekki einu sinni spurningum þeirra sem hann hefur þó haft hálfan dag til þess að lesa og kynna sér.
    Hann sagði hér að nú væri bara tími kominn til að hnýta hina síðustu hnúta og binda síðustu enda. Þetta er bara orðskrúð og segir ekki neitt, virðulegur ráðherra.
    Ég heyrði hins vegar hér í þeim sem töluðu. Hér komu upp 5 nefndarmenn í heilbr.- og trn. þingsins og töluðu og lýstu yfir að þeir væru mjög ósáttir við það hvernig ráðherra hefði staðið að þessum málum. og ég sé ekki betur en það sé kominn grunnur fyrir því að heilbr.- og trn. beiti sér hreinlega í þessu máli. Það sé meiri hluti til þess í nefndinni.
    En að lokum þó að mér hafi hitnað hér í hamsi þá vil ég ekki fara héðan úr pontu án þess í fullri vinsemd að beina þeim eindregnu tilmælum til ráðherra að fara sér hægt í þessu máli og reyna með öllum tiltækum ráðum að tryggja rekstur þessara stofnana. Ég segi þetta í fullri vinsemd við ráðherra.