Framtíðarskipulag á Laugarvatni

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:24:55 (1692)



[16:24]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er spurt í fyrsta lagi hvort samningar hafi tekist milli menntamálaráðuneytis og héraðsnefndar Árnessýslu um framtíðarskipan mála að Laugarvatni hvað varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélagsins.
    Svar mitt er þetta: Samningum um þessi mál er ekki lokið en það má segja að farið sé að sjá fyrir endann á þeim. Viðræður aðila um framtíðarskipan mála á Laugarvatni hófust fyrir rúmu ári. En undanfari þeirra viðræðna var sá að ráðuneytið fékk Tryggva Gunnarsson hæstaréttarlögmann til að taka saman álitsgerð um málið. Allnokkrir fundir hafa verið haldnir og eru línur mjög teknar að skýrast.
    Hér er reyndar um nokkuð flókið mál að ræða því ráðuneytið þarf ekki aðeins að ná samkomulagi við héraðsnefndina um skiptingu sameiginlegra eigna heldur einnig við sveitarstjórn Laugardalshrepps um verkaskiptingu á komandi árum og vinnulag í því sambandi.
    Í öðru lagi er spurt hvernig þeir samningar hljóði ef þeim er lokið.
    Eins og ég sagði hér fyrr þá er samningum ekki lokið en rétt er að fram komi að ráðuneytið stefnir að ótvíræðu forræði yfir húseignum skólanna sem og að tryggja skólunum nægilegt landrými og orku. Hins vegar telur ráðuneytið eðlilegt að ráðstöfun á landi fyrir íbúðabyggð og atvinnurekstur verði í höndum heimamanna enda hafi orðið fullt samkomulag um skiptingu og skipulag lands.
    Ég hef óskað eftir því --- það er svar við þriðja liðnum --- fyrir nokkru að þeir hraði störfum sínum eftir megni og ég tel ástæðu til að ætla að niðurstaða samninga um eignaskipti liggi fyrir um næstu áramót.
    Ég vil svo aðeins segja vegna orða hv. fyrirspyrjanda um gróðrastöðina að þar var óskað eftir á síðasta ári að byggingarframkvæmdum sem hafnar voru yrði hætt meðan unnið væri að lausn á hinum ýmsu vafamálum sem þarna hafa verið uppi. En ég tek skýrt fram að ráðuneytið hefur boðist til að bæta allan kostnað sem mundi fylgja því að gróðrastöðin yrði flutt. Hins vegar er þetta mál til sérstakrar athugunar einmitt þessa dagana í ráðuneytinu og ég hef fullan vilja til að reyna að leysa það mál í sem bestu samkomulagi við þá sem þarna eiga hlut að máli.