Framtíðarskipulag á Laugarvatni

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:27:52 (1693)


[16:27]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hafði vissulega gert mér vonir um að samningum væri lokið því þó það megi e.t.v. færa rök fyrir því að formlegar samningaviðræður hafi ekki hafist fyrr en fyrir ári síðan þá er töluvert lengra síðan samningaumleitanir hófust án þess að vera formlegar því það hefur skapast þarna aftur og aftur hálfgert vandræðaástand og örugglega ekki síður fyrir skólann en sveitarstjórnina að ekki skuli vera hreinni verkaskipti en raun ber vitni.
    Hvað þýðir nægjanlegt landrými fyrir skólana? Mér hefur stundum fundist eftir því sem ég hef kynnt mér málin á Laugarvatni að þar væru skólarnir að fara fram á töluvert meira landrými en hægt væri að færa rök fyrir að skólastarfsemin þyrfti. Og varðandi orkumálin þá er nú eðlilegt að þarna sé rekin ein orkuveita fyrir bæði sveitarfélagið og skólana, að það verði ekki um aðskilin orkusölufyrirtæki að ræða eins og hefur heyrst. En ég vil lýsa ánægju minni með það að ráðherra skuli lýsa því yfir að þessum hjónum sem ég nefndi með garðyrkjustöðina verði bættur allur kostnaður ef þau þurfa að flytja stöðina því mér hefur heyrst á þeim og þeim bréfum sem ég hef lesið að það væri óljóst.