Mat vegna umönnunarbóta

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:32:41 (1695)


[16:32]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Til mín hefur verið beint fsp. varðandi framkvæmd mats vegna umönnunarbóta.
    1. Hvernig er varið framkvæmd mats vegna greiðslu umönnunarbóta og umönnunarstyrks eftir að ákvæði um greiðslu þessara bóta voru tekin upp í lög um almannatryggingar?
    Framkvæmd matsins er þannig að læknir viðkomandi barns ritar læknisvottorð. Ætlast er til að fram fari ráðgjöf og gagnkvæmar upplýsingar milli læknis og foreldris eða forráðamanns og ef því er að skipta svæðisskrifstofu fatlaðra. Læknisvottorð er síðan sent tryggingayfirlækni og foreldri eða framfærandi ritar umsókn á þar til gert eyðublað. Umsóknir varðandi fötluð börn eru sendar til viðkomandi svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og svæðisskrifstofan fullbýr svo umsóknina, gerir tillögur um greiðslur og vottar þjónustu og sendir síðan umsóknina áfram til tryggingayfirlæknis ásamt fylgigögnum.
    Umsókn foreldris eða framfæranda fyrir sjúk börn er send beint til tryggingayfirlæknis ásamt fylgigögnum. Lækni, sem ritar vottorð fyrir sjúk börn er ætlað að skrá upplýsingar um þjónustu utan heimilis.
    Í öðru lagi er spurt: Eru matsreglur samræmdar þannig að ekki sé um misræmi að ræða í greiðslum vegna sömu eða svipaðra aðstæðna?
    Matsreglur eru í samræmi við leiðbeiningar í reglugerð nr. 150 frá 1992, sem er allítarleg, og verða þannig að teljast samræmdar þannig að ekki sé um misræmi að ræða í greiðslunni vegna sömu eða svipaðra aðstæðna. Sé um eitthvert misræmi að ræða að áliti foreldra sem óhjákvæmilega bera sig saman getur verið að um mismunandi mat vottorðsgefandi lækna sé að ræða án þess að unnt sé að fullyrða neitt um það.

    Í þriðja lagi er spurt: Eru dæmi þess að bótagreiðslur til foreldra hafi lækkað vegna sömu eða svipaðra sjúkdómstilfella eða fötlunar barna eftir að ákvæði um þessar bótagreiðslur var fellt inn í lög um almannatryggingar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er erfitt að svara þessu svo óyggjandi sé án undangenginnar rannsóknar. En ekki er hægt að útiloka að um eitthvert slíkt tilvik sé að ræða. Á hinn bóginn munu athugasemdir í þá veru verðra sjálfstætt kannaðar ef efni og ástæður verða til.