Mat vegna umönnunarbóta

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:34:59 (1696)

[16:34]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og mér er kunnugt um að til ráðuneytisins hefur verið leitað. Bæði hafa bréf verið send og viðtöl farið þar fram vegna þess misræmis sem aðstandendur sjúkra barna telja að hafi komið upp við þessa breytingu. Ég veit að hjá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna og einnig hjá Öryrkjabandalaginu hefur þetta mál verið skoðað mjög vel og þar er fullyrt að þarna sé um verulegt misræmi að ræða sem sé full þörf að taka á. Ég minni enn og aftur á þessa 4. gr. sem er í frv. um félagsþjónustu sem nú er til umfjöllunar hjá heilbr.- og trn., en greinin er samhljóða þeirri grein sem nú er í lögum um almannatryggingar. Þar þarf að samræma lög og reglugerð. Það þarf að koma inn í lagatexta hverjir það eru sem skuli fara með mat á umönnunarstyrk eða umönnunarbótum vegna sjúkra barna, það er ekki gert. En þetta þyrfti að laga og hafa samband við þá aðila sem eiga hlut að máli og hafa bæði sent erindi og heimsótt ráðuneytið. Það er í raun og veru orðin full ástæða til að taka þessi mál upp og skoða.