Flokkun stera

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:46:59 (1701)


[16:46]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Svarið við spurningu hv. þm. Guðrúnar J. Halldórsdóttur er neitandi. Ekki eru uppi áform um það að breyta flokkun steralyfja á þann veg að þau teljist til eiturefna. Flokkun eiturefna fer eftir lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988 en í 1. gr. þeirra laga segir:
    ,,Eiturefni eru samkvæmt lögum þessum efni sem skráð eru á lista yfir eiturefni, sbr. 2. gr., svo og sérhver efnasamsetning og varningur er hefur að geyma slík efni í því formi og magni að venjuleg notkun þeirra felur í sér hættu á eitrunum í mönnum og dýrum samkvæmt mati ráðherra að fenginni umsögn eiturefnanefndar.``
    Svokölluð steralyf, og er með því átt við vefjaaukandi lyf, andrógen og jafnvel önnur lyf sem bannað er að nota innan íþróttahreyfingarinnar í þeim tilgangi að auka afreksgetu, eru flokkuð sem lyf og sem slík notuð í læknisfræðilegum tilgangi. Flokkun lyfja hér á landi er eins og á öðrum Norðurlöndum gerð samkvæmt svokölluðu ATC flokkunarkerfi sem unnið er á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO. Flokkun ávana- og fíkniefna fer eftir alþjóðasamningum um ávana- og fíkniefni frá 30. mars 1961 og frá 19. febr. 1971 ásamt viðaukum.
    Á hinn bóginn hefur ekki síst fyrir tilverknað Íþróttasambands Íslands verið brugðist við ábendingum og tillögum þess þar sem reynt hefur verið að koma í veg fyrir misnotkun þessara lyfja og sérstaklega flutning þeirra með ólögmætum hætti hingað til lands. Í því samhengi var gerð breyting á reglugerð nr. 251/1992 um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum, einkasölugjald og fleira. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Lyf. Þó er farmanni eða ferðamanni heimilt að taka með í farangri sínum lyf til eigin nota í magni sem miðast mest við 100 daga notkun, enda sé ljóst á leiðbeiningum á umbúðum lyfs eða öðrum fullnægjandi gögnum, sem ferðamaður skal framvísa, hvert það magn sé. Ekki er þó heimilt að flytja inn karlkynshormónalyf af flokki anabólískra stera og hliðstæðra efna samkvæmt c-lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar eða peptíð hormón og hliðstæð efni samkvæmt f-lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar yfir lyf sem bönnuð eru í íþróttum umfram það magn sem farmaður eða ferðamaður þarf að nota til mest 30 daga. Tollverðir geta krafist þess að viðkomandi farmaður eða ferðamaður færi fullnægjandi sönnur á að honum sé nauðsyn á töku ofangreindra lyfja í því magni sem tilgreint er, t.d. með vottorði læknis.``
    Að mati heilbrrn. ætti ofangreind reglugerð að loka þeirri leið sem áður var opin án þess að það komi þeim
sjúklingum illa sem á þessum lyfjum þurfa að halda að læknisráði.