Flokkun stera

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:49:47 (1702)


[16:49]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans. Það fer mjög misjöfnum sögum af neyslu stera hér á landi. Vaxtarræktarfólk og íþróttafólk segir að hún sé harla lítil en til eru þeir í þeim hópi sem telja hana sjálfsagða, en segja þó að neysla áfengis og stera fari ekki saman.

    Fréttir hafa borist erlendis frá um morð sem álitin eru að eigi rætur að rekja til ofneyslu stera og skemmst er að minnast þess að slíkar fréttir komu frá Svíþjóð fyrir stuttu. Það er einnig vitað að tveir Íslendingar sitja í fangelsi í Flórída fyrir smygl á sterum, svo litið er mjög alvarlegum augum á neyslu þeirra þar í landi. Það er því ánægjulegt að heyra að reglur um innflutning og meðferð stera hér á landi hafa verið hertar. En ég tel að betur megi ef duga skal og hæstv. heilbr.- og trmrh. þurfi að taka málin enn þá fastari tökum og sjá til þess að viðurlög við dreifingu og misnotkun þessara stera sé enn þá sterkari en nú er.