Sala ríkisins á verðbréfum og spariskírteinum

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 16:51:28 (1703)

[16:51]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. viðskrh. nokkrar spurningar sem varða þá atburði sem urðu föstudaginn 29. okt. sl. þegar, eins og kunnugt er, fréttir bárust af áformum ríkisstjórnarinnar til að ná niður vöxtum. Það vakti nokkra athygli að þann dag stóðu viðskipti með verðbréf opin mestallan daginn og mikið kapphlaup hófst eðlilega um viðskipti og kaup á bréfum því menn þóttust sjá fyrir verulega vaxtalækkun. Af eðlilegum ástæðum reyndu ýmsir að ná sér í pappíra á hærri vöxtum eða betri kjörum, ef svo má að orði komast, heldur en í boði mundu verða eftir að aðgerðirnar hefðu komið til framkvæmda.
    Það vakna ýmsar spurningar í þessu sambandi eins og t.d. hvers vegna viðskipti voru höfð opin þennan dag. Af hverju var ekki valin sú leið, eins og venjulega er nú þegar stjórnvöld tilkynna um breytingar af þessu tagi, að stöðva a.m.k. tímabundið viðskiptin á meðan óróleikinn gengur yfir. Í öðru lagi vakna spurningar um það hvort einhverjir aðilar hafi verið í sérstakri aðstöðu til þess að nýta sér vitneskju sem þeir einir bjuggu yfir en aðrir ekki. Ljóst virðist vera að fréttir af þessum áformum ríkisstjórnarinnar hafi lekið út og verið í höndum tiltekinna aðila sem strax um morguninn, áður en ráðstafanirnar voru kynntar, fóru þá út í umfangsmikil kaup á eftirmarkaði á bréfum.
    Það hlýtur auðvitað líka að koma upp sú spurning hvort hæstv. ríkisstjórn geri þau mistök endurtekið að velja í raun og veru hvorki þá leið að boða aðgerðir sínar með góðum fyrirvara, þannig að menn viti að hverju þeir ganga og reyna með þeim hætti að forðast röskun og ójafnvægi á markaðinum, eða hina leiðina, sem er kannski venjulegri, að halda þeim upplýsingum svo vel hjá sér að þær séu ekki á annarra vitorði fyrr en málið er komið til framkvæmda.
    Óneitanlega verður manni líka hugsað til gengisfellingarinnar sl. vor en ljóst er að upplýsingar um hana láku sömuleiðis út og voru í höndum einstakra aðila sem ástæða er til að ætla að hafi getað nýtt sér þá vitneskju.
    Ég hef því spurt hæstv. viðskrh. og beðið um nokkrar upplýsingar um þetta mál:
    1. Hverju nam heildarsala ríkisins --- réttar væri e.t.v. að orða það Seðlabankans fyrir hönd ríkisins --- á verðbréfum og spariskírteinum föstudaginn 29. október sl.?
    2. Hver ber ábyrgð á því að viðskipti voru leyfð þennan dag?
    3. Hvert má ætla að yrði söluverð sömu bréfa ef ríkisstjórnin nær markmiðum sínum í vaxtamálum?
    4. Voru bankar eða opinberir sjóðir í hópi kaupenda þennan föstudag og ef svo er, hve mikið keyptu þeir?