Samkeppnisstaða einkarekinna garðplöntustöðva

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:10:51 (1711)


[17:10]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tók það þannig að hæstv. ráðherra ætlaði að svara báðum fyrirspurnunum núna, einnig með fjölda erinda sem borist hafa til Samkeppnisstofnunar. Ef hæstv. ráðherra ætlar að koma hér aftur og gera grein fyrir því, hafi hann gert það í þessari ræðu, þá fór það fram hjá mér.
    Ég fagna því að það á að flýta því að afgreiða erindi sem garðplöntuframleiðendur sendu inn í mars. Það eru komnir 8 mánuðir og ekki hafa borist svör enn en upphaf þess var þó það að garðplöntuframleiðendur fóru á fund Samkeppnisstofnunar og töluðu þar við lögfræðinga, gerðu grein fyrir sínum málum og að mati sérfræðinga stofnunarinnar þá var sagt að samkeppnislög væru greinilega þverbrotin. Þess vegna var í beinu framhaldi af því send inn greinargerð frá Félagi garðplöntuframleiðenda til stofnunarinnar til úrlausnar en svör hafa ekki borist enn. Og ég mundi nú vilja beina því til hæstv. ráðherra ef hann hefði tök á að hvetja þá til þess að garðplöntuframleiðendum verði svarað hið fyrsta.
    Það kemur m.a. fram í greinargerð sem þeir sendu með beiðni sinni að garðplöntuframleiðsla hjá ríkisreknum eða ríkisstyrktum fyrirtækjum var engin árið 1962, en 1990 voru framleiddar 145.201 planta og hefur aukist verulega síðan á þessum tveimur árum. Þá er einnig bent á að þrátt fyrir að hæstv. landbrh. hafi skipað nefnd til þess að gera tillögur um nýtt rekstrarform á gróðrarstöðvum í eigu ríkisins þá telja garðplöntuframleiðendur að nokkrir þeirra nefndarmanna sem hafa verið tilnefndir séu vanhæfir þar sem þeir eigi jafnframt sæti í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur. Ég tel því fulla ástæðu til þess að þetta erindi fái afgreiðslu hið fyrsta.