Erindi til samkeppnisráðs

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:15:54 (1714)


[17:15]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrri spurningin hljóðar svo:
    ,,Hversu mörg erindi hafa borist samkeppnisráði og Samkeppnisstofnun til úrlausnar frá því að stofnunin tók til starfa?`` Svarið er á þessa lund: Frá því að samkeppnislög tóku gildi 1. mars sl. hafa samkeppnisyfirvöldum borist yfir 60 erindi er varða athugasemdir, kvartanir og kærur er lúta að samkeppnishindrun í einu eða öðru formi. Á sama tíma hafa Samkeppnisstofnun borist um 30 erindi sem tengjast eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum. Fjölmargar verðkannanir hafa verið gerðar af hálfu Samkeppnisstofnunar frá þeim tíma er hún tók til starfa í því skyni að auka gagnsæi markaðarins og efla virka samkeppni.
    Enn fremur hefur Samkeppnisstofnun með höndum eftirlit með greiðslukortastarfsemi og eftirlit með upplýsingamiðlun varðandi neytendalán en lög þar að lútandi tóku gildi nú í haust. Með samkeppnislögum tóku nýjar reglur gildi um auglýsingar og sett var á fót auglýsinganefnd sem er ráðgjafaraðili samkeppnisráðs. Verðlagning á vöru og þjónustu hefur að mestu leyti verið felld undan ákvæðum stjórnvalda. Samkeppnisráð afnam verðlagsákvæði á nokkrum þjónustugreinum sl. vor og er nú einungis verðlagning á sementi, leigubifreiðatöxtum og nokkrum landbúnaðarvörum háð ákvörðun ráðsins.
    Loks hefur Samkeppnisstofnun ásamt eftirlitsstofnun EFTA verið falið að aðstoða við undirbúning að framkvæmd samkeppnisreglna, reglna um neytendavernd og reglna um ríkisstyrki sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

    Í öðru lagi er spurt: ,,Er um fjölgun að ræða í samanburði við þann fjölda erinda sem bárust verðlagsráði og Verðlagsstofnun?`` Svarið er á þessa lund: Verksvið samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar er ólíkt því sem er hjá verðlagsráði og Verðlagsstofnun sem starfaði eftir lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.
    Samkeppnislögin fela í sér þá meginbreytingu að áhersla er lögð á að efla virka samkeppni í viðskiptum en bein afskipti stjórnvalda af verðlagi heyra til undantekninga. Hert er á banni við þeim tegundum samkeppnishindrana sem taldar eru skaðlegastar og aukið eftirlit með öðrum til að koma í veg fyrir misbeitingu þeirra. Enn fremur eru ákvæði í samkeppnislögum sem mörkuðu tímamót, en það eru ákvæði um eftirlit með opinberum samkeppnishindrunum og samkeppnishindrunum í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi.
    Þau mál sem borist hafa samkeppnisyfirvöldin frá því að samkeppnislögin tóku gildi eru mun fleiri og flóknari en þau mál sem verðlagsráð og Verðlagsstofnun unnu að á svipuðu tímabili árið 1992. Það eru ekki síst mál sem tengjast opinberum samkeppnishindrunum eða samkeppnishindrunum í skjóli lögboðinnar verndar sem hafa komið til kasta Samkeppnisstofnunar.