Erindi til samkeppnisráðs

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:19:27 (1716)


[17:19]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það eru miklar breytingar á störfum Samkeppnisstofnunar frá þeirri starfsemi sem var hjá Verðlagsstofnun. Til frekari upplýsinga get ég skýrt frá því að stofnunin er nú að vinna sér starfsreglur í samráði við viðskrn. um hvernig hún skuli standa að starfsemi sinni þannig að hún nýtist sem best. Ég vil jafnframt vekja athygli á því að þarna er ekki um að ræða viðbætur við þá starfsemi sem var hjá Verðlagsráði því að ýmsir þeir þættir sem Verðlagsráð sinnti áður falla nú alfarið niður þannig að það má ekki líta svo á að Samkeppnisstofnun sé viðbót við Verðlagsstofnun eins og hún var, heldur er hér um alveg nýja stofnun að ræða sem sinnir nýjum verkefnum og má ekki líta svo á að þarna sé um hreinar viðbætur að ræða við þau verkefnum sem Verðlagsstofnun sinnti.