Greiðsluaðlögun

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:23:25 (1718)


[17:23]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við þessari fsp. þá hefur verið skipuð nefnd til að meta gagnsemi þess að koma á fót sérstakri greiðsluaðlögun vegna greiðsluerfiðleika. Nefndinni er falið að kanna reynsluna af löggjöf á Norðurlöndum um greiðsluaðlögun til að aðstoða fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum og undirbúa frv. ef þurfa þykir. Í nefndinni eru fulltrúar frá félmrn., dómsmrn., Húsnæðisstofnun og húsnæðismálastjórn. Nefndinni er ætlað, samkvæmt skipunarbréfi, að hafa samráð við Neytendasamtökin, verkalýðshreyfinguna og fjármálastofnanir.
    Nefndin vinnur nú að gagnaöflun hér á landi um greiðsluvanda heimilanna með það að markmiði að reyna að greina vandann nánar, fá upplýsingar um umfang og ástæður. Samráðsfundur með fulltrúa frá Neytendasamtökunum hefur verið haldinn og fleiri fundir eru í bígerð.
    Mikilvægt er að vanda allan undirbúning og leita nánari upplýsinga um orsök og afleiðingar. Einnig og ekki síður er mikilvægt, tel ég, að treysta þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem nú eru fyrir hendi í greiðslumati og fræðslu þannig að hægt sé að forða óþarfa greiðsluvanda í framtíðinni.
    Ég vil einnig nefna að á vormánuðum var sett á laggirnar norræn rannsóknarnefnd á vegum norræns samstarfs á sviði húsnæðismála sem fékk það verkefni m.a. að bera saman aðgerðir vegna greiðsluvanda og árangur þeirra. Félmrn. hefur tekið þátt í þessu verkefni og hefur í tengslum við það aflað upplýsinga um þær aðgerðir sem nefndar hafa verið um greiðsluaðlögun. Danir voru fyrstir til að koma á slíku fyrirkomulagi en í byrjun þessa árs tóku gildi lög í Noregi um greiðsluaðlögun og um mitt þetta ár tóku Finnar upp svipað fyrirkomulag.
    Í Svíþjóð er tilbúið frv. um greiðsluaðlögun en það hefur enn ekki verið lagt fram. Þeir vilja hinkra við og sjá m.a. hvernig þetta reynist hjá Norðmönnum og Finnum.
    Það sem hægt er að segja núna um þróunina í Noregi er að miklar væntingar voru í upphafi bundnar við þessar aðgerðir, að hægt væri að leysa vanda fjölmargra, en sú er ekki raunin. Þessi aðgerð er flókin í framkvæmd og hentar tiltölulega fáum. Á miðju þessu ári höfðu um 2.000 sótt um greiðsluaðlögun í Noregi og aðeins höfðu verið gefin um 200 jákvæð svör. Því er þetta nefnt að ekki er ráðlegt að gefa of miklar væntingar um að greiðsluaðlögun, þótt hún komist til framkvæmda hér á landi, dugi nema til að leysa vanda þeirra sem allra verst eru staddir.