Reglugerð um vistun barna í sveit

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:50:57 (1731)


[17:50]
     Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin og þingmönnum fyrir þeirra innlegg í umræðuna.
    Í breyttu þjóðfélagi er nauðsynlegt að sífellt sé hugað að því að leita nýrra úrræða á sviði félagslegrar þjónustu. Afar mikilvægt er að hugað sé að forvörnum og að foreldrar geri sér grein fyrir skyldum sínum gagnvart börnum. Það eru fyrst og fremst foreldrar sem bera ábyrgð á börnunum sínum. Það þarf að reyna eftir mætti að sinna forvarnastarfi þannig að ekki sé sífellt verið að berjast við uppsafnaðan vanda á lokastigi. Þá má nefna þar mikilvægi íþrótta og æskulýðsstarfs í því sambandi. Þegar til lengdar lætur er það farsælast og hagkvæmast að hlúa vel að grunneiningunni, þ.e. heimilinu og heilbrigðu fjöldkyldulífi. Barátta fyrir réttindum barna ætti að njóta forgangs í samfélaginu því börnin í dag eru undirstaða okkar í framtíðinni.