Svæðalokanir

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:03:29 (1736)

[18:03]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og sumir e.t.v. muna, þá fór fram verulega mikil umræða á sl. sumri um þá umdeilanlegu ákvörðun hæstv. sjútvrh. að loka stórum veiðisvæðum fyrir vestan, norðan og austan land. Þessi lokun var ákveðin eftir allmikla umræðu og byggðist að sögn á mælingum Hafrannsóknastofnunar og eftirlitsmanna á stærð fiskjar sem hafði fengist við athuganir. Ég segi að þetta hafi verið mjög umdeilanlegt vegna þess að hér var auðvitað um að ræða mjög stóra ákvörðun sem fól það í sér að lokað var helstu og mestu veiðisvæðum okkar m.a. fyrir vestan land.
    Það liggur fyrir að á þeim tíma sem í hönd hefði farið hefði aðalveiðisvæði togaranna væntanlega verið á þessari slóð og þess vegna setti þessi ákvörðun hæstv. sjútvrh. mjög stórt strik í reikninginn. Þetta kom greinilega fram í viðbrögðum útvegsmanna og sjómanna á þessum tíma sem vöruðu mjög eindregið við þessari ákvörðun. Þess ber að geta að ákvörun hæstv. sjútvrh. fól í sér mun minni lokanir en lagt var til í upphafi og því ber vissulega að fagna. Engu að síður hafði þetta mikil áhrif á möguleika togaranna til að stunda hefðbundnar veiðar einkanlega fyrir vestan land.
    Ég get nefnt sem dæmi í þessu sambandi að framkvæmdastjóri Skagstrendings hf., Sveinn Ingólfsson, sagði að afleiðing þessarar ákvörðunar hefði verið sú að flotinn hefði verið í reiðileysi og magnið sem fór ofan í lest hefði verið um þriðjungur af því sem menn eyða í olíu hvað þyngd varðar. Í viðtali við Morgunblaðið sagði hann, með leyfi hæstv. forseta: ,,Við neyðumst til þess að sigla skipunum í land og hætta þessu því að það er ekkert vit í því að allur afraksturinn fari í olíu, þá er eftir að borga mannskapnum og annan kostnað.``
    Það sem er kannski dálítið athyglisvert við þessa ákvörðun er það að í raun og veru er hér verið að stjórna í senn með kvóta og með sóknarstýringu vegna þess að það er ekki bara þannig að verið sé að úthluta kvóta á skip heldur er líka verið að beina sókn skipanna með sérstökum hætti eins og þessar lokanir á veiðisvæðunum sýna.
    Frá því að ég lagði fram þessa fsp. hefur það hins vegar gerst að hæstv. sjútvrh. afnumið að hluta til þessa reglugerð og opnað nokkur hólf sem áður voru lokuð og vil ég láta í ljósi mikla ánægju með þessa ákvörun hæstv. ráðherra þótt ég telji að það mætti ganga lengra í því að opna þessi hólf. Árangurinn hefur hins vegar ekki látið á sér standa. Það hefur komið upp mikil veiði fyrir vestan land, mjög góður afli, allt að 15 tonn á togtíma í upphafi þegar hólfin voru opnuð af stórum og góðum fiski. Engu að síður er ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra eins og hér er gert á þskj. 237: Hvers vegna var ákveðið að loka með reglugerð stórum veiðisvæðum fyrir vestan, austan og norðan land frá og með 23. júlí sl.? Og í öðru lagi: Hyggst ráðherra endurskoða þessa ákvörðun?