Friðunaraðgerðir á karfa

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:22:29 (1742)


[18:22]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans svör. Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að ráðuneytið hefur þegar brugðist við með ýmsum hætti þeim áhyggjum sem einkanlega sjómenn hafa sýnt varðandi þetta mál. Ég vil vekja athygli á í þessu sambandi að ég tel að frumkvæðið í þessum efnum hafi einkanlega komið frá sjómönnunum sjálfum sem hafa verið að láta í ljósi miklar áhyggjur með stöðu karfastofnsins. Ég hlýt að velta því mjög fyrir mér hvernig á því standi að einmitt þetta frumkvæði skuli þurfa að koma frá sjómönnum en ekki frá þeim ágætu vísindamönnum okkar sem eiga að leggja fyrst og fremst á ráðin með fiskveiðiráðgjöfina.
    Það er rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði að það er kvótaskipting á þessum afla eins og ýmsum öðrum og þess vegna út af fyrir sig kann það að vera rétt að ekki sé ástæða til þess að grípa til annarra ráðstafana eins og þeirra að banna flottrollsveiðar. Ég er ekki sérstakur talsmaður þess að banna flottrollsveiðar, sú umræða varðandi flottrollið almennt var fyrir nokkrum árum og þá var ég mjög á móti því að grípa til þess óyndisúrræðis vegna þess að ég er alveg sammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að það er mjög óskynsamlegt að banna tiltekið veiðarfæri sem búið er að þróa og búið er að leggja kostnað í og hefur sýnt margvíslegan árangur.
    Það háttar hins vegar sérstaklega til um karfann eins og menn þekkja og þess vegna kann að vera

að ástæða sé til að fylgjast sérstaklega með þessum flottrollsveiðum á tilteknum árstímum og ég hvet hæstv. sjútvrh. til að beita sér fyrir því að eftirlit sé aukið, a.m.k. með þessum veiðum sem eru nýjar hér við land að miklu leyti og hafa haft verulega mikil áhrif.
    Ég fagna því líka að verið sé að reyna að þróa veiðarfærin í þessu sambandi, þróa þau með þeim hætti að þau verði til þess að við afstýrum rányrkju. Ég hef mikla trú á því að þróun í veiðarfærum geti að sumu leyti komið í staðinn fyrir svæðalokanir og skyndilokanir og þess vegna er ástæða til þess að fagna því að verið sé að reyna að þróa þessa hluti og efna til aðgerða sem fremur feli það í sér að þróa veiðarfærin en að grípa til svæðislokana, skyndilokana og banns við notkun á tilteknum veiðarfærum.