Veiting ótakmarkaðs dvalarleyfis

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:28:20 (1745)


[18:28]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Reglur um dvalarleyfi byggjast á lögum um eftirlit með útlendingum og reglugerð um sama efni, hvort tveggja frá árinu 1965. Meginreglan er sú að útlendingar þurfa leyfi til dvalar hér á landi. Almenn undanþága frá þessari reglu varðar danska, finnska, norska og sænska ríkisborgara sem mega dvelja hér án dvalarleyfis. Auk þess segir svo í 25. gr. reglugerðarinnar, eins og hún hljóðar frá 1989:
    ,,Útlendingar sem eiga íslenskan maka og útlendingar sem fæddir eru íslenskir ríkisborgarar þurfa ekki sérstakt dvalarleyfi ef þeir hafa haft fasta búsetu hér á landi um tveggja ára skeið og búa hér enn. Gildir þetta meðan hlutaðeigandi útlendingur hefur hér búsetu.``
    Þeir sem undir þessa reglu falla geta fengið yfirlýsingu frá Útlendingaeftirlitinu um dvalarrétt sinn. Önnur ákvæði eru ekki í gildi um ótakmarkað dvalarleyfi. Hvorki lögin um eftirlit með útlendingum né reglugerðin um sama efni takmarka þó slíka útgáfu. Hins vegar er vinnureglan sú að dvalarleyfi er látið gilda til sama tíma og atvinnuleyfi, þau leyfi eru jafnan gefin út til takmarkaðs tíma. Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga frá 1982 er það meginregla að útlendingar þurfa leyfi til að vinna hér á landi. Lögin heimila ekki útgáfu almenns atvinnuleyfis til lengri tíma en eins árs. Þessi leyfi eru bundin við ákveðið starf og ákveðinn tíma. Svokallað sjálfstætt atvinnuleyfi sem bundið er við ákveðna starfsgrein má

þó eftir fimm ára búsetu gefa út til ótiltekins tíma.