Veiting ótakmarkaðs dvalarleyfis

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:30:01 (1746)


[18:30]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir upplýsingar þær sem hann hefur gefið. Ég hef heimildir fyrir því að eftir tveggja ára dvöl sé afar auðvelt að fá framlengt dvalarleyfi hér á Íslandi og þekki raunar dæmi um slíkar langdvalir erlendra ríkisborgara hér á landi. Hæstv. ráðherra hefur sagt frá hvaða reglur gilda um þá sem giftir eru íslenskum ríkisborgurum.
    Ég tel að hæstv. ráðherra sem þessi mál heyra undir ætti að setja reglur um lágmarksíslenskukunnáttu og lágmarksþekkingu á íslenskum lögum og réttindum sem fólk þurfi að þekkja til að fá framlengt dvalarleyfi endalaust eða endalítið hér á landi, hvort sem um er að ræða fólk sem er gift Íslendingum eða ekki. Kannski er það enn þá mikilvægara að þeir sem giftir eru íslenskum ríkisborgurum en sækja ekki um ríkisborgararétt þurfi að kynnast þeim réttindum og þeim skyldum sem þeir bera og sem þjóðin ber gagnvart þeim. Ég hef ríka ástæðu til að hafa þessa skoðun. Allir sem flytja á milli landa bera í farteski sínu siði, viðhorf og menningu lands síns, aðra trú og allt önnur viðmið en þau sem fyrir eru í landinu. Á það einkum og sér í lagi við um þá sem koma langt að. Um Norðurlandabúa gildir náttúrlega þó nokkuð öðru máli því að þeir eru á mjög svo sama menningarsvæði og við. En ef fólkið sem um ræðir á ekki að verða utangarðsfólk eða undirmálsfólk í hinu nýja samfélagi verður það að hafa þá þekkingu sem ég var að telja upp og okkur ber skylda til að sjá svo um að fólkið fái hana, hvort sem það verður ríkisborgarar hér á landi eða einungis fær dvalarleyfi um langan tíma og kannski alla ævi. Þessi fræðsla þarf að vera í boði víðs vegar um landið, t.d. í öllum farskólum landsins og í fjarkennslu bréfaskólans en aðalatriðið er að hún þarf að vera í boði svo fólkið viti rétt sinn og möguleika og skyldur.