Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 13:45:46 (1748)

[13:45]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. félmrh. er þetta frv. um tekjustofna sveitarfélaga komið fram til að ákveða tekjustofna til frambúðar móti aðstöðugjaldinu sem var fellt niður á síðasta ári. Tilgangurinn með niðurfellingu aðstöðugjaldsins var sá að samræma álagningu þessara gjalda, þ.e. gjalda á atvinnurekstur, við það sem gerist hjá nágrannaþjóðunum. Aðstöðugjaldið er veltuskattur og var ekki talinn réttlátur og er ekki lagður á hjá okkar samkeppnisaðilum í nágrannalöndunum.
    Í öðru lagi var niðurfelling aðstöðugjaldsins kynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar sem stuðningur við atvinnulífið í landinu. Þessi aðgerð var raunar ein af helstu skrautfjöðrum ríkisstjórnarinnar á síðasta ári að dómi Stjórnartíðinda.
    Í þriðja lagi, eins og kom reyndar fram í máli hæstv. ráðherra hér á undan, þá mismunaði þessi skattur sveitarfélögum í raun vegna þess að hann var lagður á veltu og þjónustu sem kom náttúrlega í miklu ríkara mæli til hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem meiri velta og þjónusta er sem þjónar öllu landinu. Nú liggur það sem sagt fyrir að ákveða tekjustofna til frambúðar í stað þessa aðstöðugjalds sem ákveðið er nú að leggja af.
    Það vekur athygli í frv. að í 2. gr. þess er gert ráð fyrir að leggja hluta af þessum gjöldum á atvinnulífið aftur, um 600 millj. kr. eins og kemur fram í frv. og er kveðið á um í 2. gr.
    Það vekur einnig athygli að búið er að hnýta inn í frv. vandræðabarni, óhreinu barni sem hefur verið á þvælingi hér í þinginu undanfarin ár og hefur sérstaklega verið þingmönnum Sjálfstfl. nokkur þyrnir í augum og þeir hafa tekið út fyrir að samþykkja það mál hér, en það er skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þetta minnir mig reyndar á mann sem hafði dálæti á börnunum sínum þangað til þurfti að skipta á þeim. Þá henti hann þeim í konuna sína. Nú ætlar hann að henda þessum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði í sveitarfélögin til þess að losna við þann kross að samþykkja þetta mál á hverju ári hér í Alþingi. Það er minna áberandi að samþykkja þetta mál í frv. um tekjustofna sveitarfélaga. En reiknað er með því að sérstakur viðbótarskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði komi inn í þetta frv. þetta ár. Hvað verður þá næst? Og mér er þá spurn: Er ekki verið að ákveða hér tekjustofna til frambúðar? Til hvers er þá verið að hnýta einhverjum bráðabirgðatekjustofnum inn þetta frv.? Ég sé ekki ástæðuna fyrir því nema þá að það sé verið að losa þingmenn Sjálfstfl. við þann kross að samþykkja þetta frv. eitt og stakt á hverju ári, eins og undanfarin ár. Ég sé enga ástæðu til að blanda þessu saman, það ætti að samþykkja þennan skatt bara sér meðan á að leggja hann á og ég geri fyrirvara við þetta atriði.
    Manni verður auðvitað spurn í sambandi við þær 600 millj. sem nú á að leggja á atvinnureksturinn aftur í fasteignagjöldum á húsnæði, hvernig atvinnureksturinn er tilbúinn til þess að taka við þessu. Það er til umræðu á Alþingi og er von á frv. um málið ef ríkisstjórnin kemur sér saman um það mál. En að hér komi frv. um þróunarsjóð til að úrelda húsnæði í stórum stíl, t.d. í fiskvinnslu víðs vegar um landið, það frv. er að vísu ekki komið því ríkisstjórnin eða stjórnarliðar koma sér ekki saman um margt þessa dagana eins og umræður sýna. En með annarri hendinni erum við að leggja aukna fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, í hinu orðinu á að stofna úreldingarsjóð til að loka þessu húsnæði. Ég held að það væri betra að ræða þessi mál í samhengi og reyna að gera sér grein fyrir því hvernig atvinnureksturinn í landinu er í stakk búinn til að standa undir þeim útgjöldum sem hér er gert ráð fyrir. Þar með er ég ekki að segja að það sé sjálfsagt mál að færa alla þessa skattbyrði yfir á einstaklinga eins og gert er ráð fyrir í frv., að útsvarið sé hækkað upp í 9,2%. Alla þessa skattheimtu verður auðvitað að skoða í samhengi við þau skattafrumvörp sem væntanlega eru hér á Alþingi fyrir jól. Þau eru ekki komin fram. Mér er spurn --- það er verst að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu því það er kannski varla hægt að ætlast til að hæstv. félmrh. svari því hvenær eru þau skattafrv. væntanleg, til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir skattheimtunni í samhengi? Því auðvitað verða þessi mál ekki sundurskilin.
    Eins og ég kom inn á áðan þá var aðstöðugjaldið fellt niður til þess að jafna aðstöðu sveitarfélaga. Það er auðvitað ein ástæða fyrir því að þessi skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er kominn hér inn, að verið er að koma því þannig fyrir að það dragi sundur með sveitarfélögunum aftur í tekjustofnum vegna þess að um 90% af þessu gjaldi fellur til í Reykjavík, ef ég man rétt, þó ég hafi ekki tölur um það við höndina, en það hefur komið fram hér í umræðum á Alþingi. Auðvitað er þetta ákvæði í og með til þess að styrkja stöðu þess svæðis á ný og það veitir sjálfsagt ekki af því mér skilst að hagur borgarinnar fari hríðversnandi og sé ekki sá sami og áður var, enda hefur komið ítrekað fram í umræðum það fjárfestingarbruðl sem hefur verið á undanförnum árum og ætla ég ekki að rekja það frekar í þessari umræðu.
    Það hefði auðvitað komið til greina að einfalda þessi mál og ríkið hefði með höndum álagningu á atvinnureksturinn í landinu og útsvarsprósentan hefði verið hækkuð sem þessu aðstöðugjaldi nemur. Það hefur þann annmarka að þá er skattbyrðin færð yfir á einstaklinga að öllu leyti, nema ríkið gefi þá eftir á móti. En það hefði verið leið til þess að einfalda þessi mál og það er rétt að félmn. sem fær frv. til meðferðar taki þetta atriði sérstaklega til skoðunar.
    Það kom fram hjá hæstv. félmrh. að frv. er seint fram komið. Það eru svo sem engin tíðindi því það er einkennandi fyrir þetta þing sem við sitjum í haust að það hefur nær eingöngu þingmannamál, þingmannafrumvörp og þingmannatillögur til umfjöllunar. Það er góðra gjalda vert og ég er ekki að hallmæla því að þau séu tekin fyrir, en það sem vekur athygli er að hér eru afar fá mál frá ríkisstjórninni til umræðu. Það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin hafi allt sitt á hreinu, heldur er bara ósamkomulagið svo mikið að það

koma engin frv. fram. Á ég þá við frv. t.d. um skattamálin, sem algjör óvissa er um, hvað þarf að innheimta miklar tekjur í ríkissjóð, því hver ákvörðunin eftir aðra um sparnað í fjárlögum fellur um sjálfa sig. Aðgerðir sem áttu að spara hitt og spara þetta eru svo illa undirbúnar að þær eru dregnar til baka daginn eftir að þær eru ákveðnar vegna lélegs undirbúnings. Ég þarf ekkert að telja það upp en vil þó nefna ákvörðunina um dagheimili, heilsukort, sýslumenn o.s.frv. sem allt er í uppnámi, m.a. vegna ósamkomulags innan stjórnarliðsins og ónógs undirbúnings. Það er því allsendis óvíst hver heildarskattheimtan í þjóðfélaginu þarf að vera. Það bætist við þá óvissu sem er hjá sveitarfélögunum núna sem hefur orðið til þess að það þarf auðvitað að setja ákvæði í þessi lög, lengja þá fresti sem sveitarfélögin hafa til þess að tilkynna félmrn. útsvarsálagningu sína. Það er í samræmi við þann glundroða sem ríkir á stjórnarheimilinu hvað þetta frv. kemur seint fram.
    Ef ég vík aðeins að lokum að afstöðu Framsfl. í þessu máli, þá studdum við niðurfellingu aðstöðugjaldsins á sínum tíma og við munum leita leiða til þess að festa tekjustofna í sessi til frambúðar í staðinn fyrir aðstöðugjaldið. Við munum auðvitað greiða fyrir því að þetta frv. fái sem vandaðasta meðferð, eftir því sem í okkar valdi stendur, og þeir fulltrúar flokksins sem sæti eiga í félmn. munu að sjálfsögðu gera það. En ég hef um efni þess almennan fyrirvara þangað til eftir nánari skoðun í nefndinni. Það er nauðsynlegt að eyða óvissu um marga hluti, ekki síst það hvað ríkisstjórnin ætlar sér að innheimta í tekjur af almenningi í landinu á þessu ári, sem er alls óljóst, og hvaða útgjöld hún ætlar að hafa á móti. Þessi mikilvægu mál eru bara öll í uppnámi þessa dagana.
    Eins og ég kom að áðan þá er þetta þing afar sérkennilegt að því leyti að ríkisstjórnin er ekki tilbúin með neitt af þeim málum sem nauðsynlegt er að afgreiða fyrir jól. Þó að þetta frv. sé allt of seint á ferðinni og þurfi að krækja aftan í það bráðabirgðaákvæði til að uppfylla lög og reglur um tilkynningaskyldu sveitarfélaganna til félmrn. þá er þetta þó miklu fyrr á ferðinni heldur en nokkurt annað tekjustofnamál og hæstv. félmrh. er fyrstur til að leggja fram frv. um þessi efni, þó það sé allt of seint.
    En við fulltrúar Framsfl. í félmn. höfum tækifæri til að fara yfir þessi mál í nefndinni og munum greiða fyrir því að þessi tekjustofnamál sveitarfélaganna komist í fast form til frambúðar.