Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 14:20:40 (1754)


[14:20]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það var vissulega tími til þess kominn að það kæmi fram fyrsta frv. um breytingar á skattalögum sem við þurfum að byggja fjárlög næsta árs á og má kannski segja að það sé nokkuð táknrænt að að skuli vera eina konan í ríkisstjórninni sem fyrst kemur með frv. um þessi mál. En það breytir ekki því að samt sem áður kemur það of seint.
    Ég vil koma þeirri gagnrýni á framfæri að mér finnst það mjög óeðlilegt hvernig yfirleitt er staðið að breytingum á skattalögum á hinu háa Alþingi. Ég tel að það þurfi miklu lengri fyrirvara heldur en að koma með þetta í nóvember eða jafnvel síðustu dagana í desember og síðan er bæði fyrirtækjum, einstaklingum og atvinnurekstri yfirleitt, öllum þeim sem fara með skattamál fyrirtækja ætlað að vinna eftir þessu á næsta ári og jafnvel löngu fyrir þann tíma að gera áætlanir um t.d. reksturinn á næsta ári. Rekstur þeirra byggist yfirleitt á ákvæðum skattalaga að ég tala nú ekki um þá einstaklinga sem geta átt von á því að skattaprósenturnar séu hækkaðar von úr viti bara með einu pennastriki.
    Það voru allir sammála því hér á síðasta þingi að það þyrfti að breyta aðstöðugjaldinu, þ.e. að aðstöðugjaldið væri óréttlátur skattstofn sem þyrfti að finna annan farveg. En menn létu það yfir sig ganga á síðasta ári að þetta var sett inn í staðgreiðsluna, einmitt vegna þess að einstaklingar og þjóðin öll held ég gerir sér grein fyrir því að það eru vissir erfiðleikar í efnahagsmálum og menn sættu sig við þetta til eins árs. En eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þá var engan veginn fyrir ári síðan verið að ræða um það að þetta yrði svo að segja alfarið sett yfir í staðgreiðslu einstaklinga, yfir í skatt á einstaklinga.
    Það hefur einnig verið gagnrýnt hér að á sama tíma er tekjuskattur fyrirtækja lækkaður. Þó að það komi ekki beinlínis því máli við að verið er að afnema aðstöðugjaldið þá er það svolítið sérkennileg staða að frá því að staðgreiðslan var sett í gagnið 1988, þá var tekjuskattur á einstaklinga að mig minnir 34,5% eða innan við 35% en er í dag með þessum breytingum 41,3%. Á þeim tíma var tekjuskattur á fyrirtæki 50% en 35% á einstaklinga. Nú hefur hann verið lækkaður niður í 37% eða 38% og jafnvel talað um að lækka hann niður í 33%. En á sama tíma er staðgreiðsla einstaklinga, tekjuskattur einstaklinga 41,3%. Þetta hefur sem sagt farið allt á þann veg að það er verið að lækka hlutfall skatta á fyrirtækjum og hækka það sem því nemur og ríflega það á einstaklingum.
    Þar sem með þessu frv. er verið að afnema aðstöðugjaldið og fella algerlega út þann kafla í lögum um tekjustofna sveitarfélaga --- það er algerlega verið að afnema kaflann um aðstöðugjald --- þá vil ég nú spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig verður þá farið með þau gjöld og þá tekjustofna annarra ríkisstofnana sem byggja sínar tekjur á aðstöðugjaldinu? T.d. eru tekjur Útflutningsráðs byggðar á aðstöðugjaldinu og gjald til kirkjugarða er að einhverju leyti líka byggt á aðstöðugjaldinu, ég man nú ekki eftir fleirum í bili, en alla vega kemur þetta hvort tveggja að nokkru leyti við þeim lögum sem hafa gilt um aðstöðugjaldið.
    Hér á áfram að vera eins og áður hefur komið fram í máli manna hér á undan, það verður áfram skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. En í þetta skipti er það ekki ríkið sem á að innheimta það svo að þeir sem hér greiddu atkvæði í fyrra með hangandi hendi með þessum skatti í trausti þess að það yrði aldrei aftur, eins og einn ónefndur þingmaður sagði um leið og hann greiddi atkvæði, þurfa þess þá líklega ekki lengur þar sem nú eru það sveitarfélögin sem eiga að innheimta þennan skatt.
    Í sambandi við það að sveitarfélög hafa tekjur af fasteignum innan sveitarfélagsins þá finnst mér rétt að koma því einnig á framfæri að ég tel að sveitarfélögin hafi í

gegnum tíðina haft allt of hátt hluttfall af sínum tekjum af fasteignasköttum yfirleitt. Og það má benda á það að á öðrum Norðurlöndunum hafa sveitarfélögin ekki jafnmikla hlutdeild sinna tekna af fasteignasköttum. Þau hafa það frekar af tekjum eða á annan hátt en skattleggja fasteignir íbúanna. En þessu er sem sagt þannig varið hér á landi að sveitarfélögin byggja stóran hlut sinna tekna á tekjum af fasteignum íbúanna. Það hefur oft verið rætt um það hversu óréttlát sú skattlagning getur verið, t.d. þegar maki deyr og annað hjóna situr þá eftir í húsnæði sem skattlagt er að fullu og getur reynst því mjög erfitt. Og ég efast ekki um að hv. alþm. Sjálfstfl. þekkja þá umræðu.
    Eins og ég sagði áðan þá er hér fyrst og fremst verið að koma á fastari skipan með breytingu á aðstöðugjaldi sem tekjur fyrir sveitarfélögin. En ég hygg þó að sveitarfélögunum verði ekki bætt þetta alveg með þeim hætti. Þetta gerðist öðruvísi á yfirstandandi ári þar sem skattprósentan var hækkuð um það sem þurfti til þess að ná inn þeim tekjum sem aðstöðugjaldið hafði gefið og sveitarfélögunum var síðan bættur skaðinn með ákveðnu hlutfalli af aðstöðugjaldi sem þau höfðu haft í tekjum árið á undan. Þetta gerist aftur á móti ekki núna. Og það held ég að menn þurfi líka að gera sér grein fyrir. Nú er ekki miðað við þær tekjur sem sveitarfélögin hafa haft af aðstöðugjaldi. Nú fá þau tekjur af einstaklingunum sem greiða hærra útsvar en verið hefur og ég veit ekki hvort sú athugun hefur farið fram og er rétt að spyrja hæstv. félmrh. að því, hvernig það muni þá koma út fyrir þau sveitarfélög sem hafa innan sinna marka íbúa með frekar lágar tekjur. Ef tekjur almennt eru lágar í viðkomandi sveitarfélagi, þá segir það sig sjálft að það þýðir ekkert að bæta þetta upp bara með því að hækka prósentuna. Það getur verið að þetta eigi að koma inn með einhverjum jöfnunaraðgerðum og e.t.v. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en það væri forvitnilegt að fá að heyra það hér frá hæstv. félmrh.
    Þetta er það sem ég vildi helst koma á framfæri, en að lokum vil ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að ég tel að hæstv. ríkisstjórn og raunar allar ríkisstjórnir á hvaða tíma sem er þurfi að setja sér það markmið að breytingar á skattalögum séu ekki alltaf samþykktar rétt fyrir áramót og eigi að taka gildi 1. janúar á eftir. Það er með öllu óviðunandi fyrir borgara þessa lands hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir að þurfa að una því að vita aldrei um það hvaða skattalagabreytingar koma eftir nokkra daga og eftir hverju á að vinna á næsta ári. Ég tel að það þurfi svona um það bil eins árs aðlögun og lágmark sex mánuði áður en skattalagabreytimgar sem samþykktar eru eiga að koma til framkvæmda.