Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 14:56:49 (1757)


[14:56]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að ræða þetta frv. pínulítið strax við þessa umræðu, m.a. með hliðsjón af hinni almennu stöðu í skattamálunum og málefnum sveitarfélaganna. Ég vil fyrst láta það koma fram, út af frammíkalli mínu áðan, að það sem mun hafa verið samþykkt í borgarráði Reykjavíkur er gamla skattprósentan, þ.e. 6,7%, sem mig minnir að hafi verið notuð hjá Reykjavík lengi. En það leiðir þá af sjálfu að borgarráð Reykjavíkur og/eða borgarstjórn verða væntanlega að taka þá samþykkt upp ef þetta verður að lögum sem hér er gert ráð fyrir. Reykjavíkurborg hefur, eins og kunnugt er, haft tiltölulega lága útsvarsprósentu miðað við aðra af því að Reykjavík hefur haft svo miklar tekjur af aðstöðugjaldinu, tiltölulega mjög miklar tekjur af aðstöðugjaldinu. Þess vegna er við því að búast að hlutfallshækkun útsvarsins verði síst minni, jafnvel meiri í Reykjavík heldur en víða annars staðar. Ég held að það sé nauðsynlegt, ekki síst vegna þess að það eru fram undan bæjar- og sveitarstjórnarkosningar á fyrri hluta næsta árs, að

við áttum okkur á því að hér er verið að gera tillögu um allsherjarskattahækkanir á vegum sveitarfélaganna í landinu á einstaklingana um 3,8 milljarða kr. Þetta er auðvitað þeim mun hrikalegra þegar þess er gætt að þegar skattbreytingin var gerð í fyrra þá ræddi enginn um það að þetta ætti að vera varanleg skattahækkun á einstaklinga og það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að þetta muna fáir. Enn færri muna kannski hvað stjórnarflokkarnir sögðu fyrir síðustu kosningar, en það er kannski ástæða til að rifja það upp, bæði t.d. fyrir alþingiskosningar og líka fyrir sveitarstjórnarkosningar. Kannski má benda á það til glöggvunar að það væri sniðugt fyrir hv. þm., a.m.k. fyrir þá sem eru fulltrúar Reykvíkinga, að fletta upp í fyrirheitabókum Davíðs Oddssonar frá því fyrr á öldinni þegar hann var að stýra borginni Reykjavík.
    Hér er augljóslega um það að ræða að bæði Alþfl. og Sjálfstfl. eru að ganga á bak loforða sinna, þeirra fyrirheita sem þeir gáfu kjósendum, bæði fyrir borgarstjórnarkosningarnar eða sveitarstjórnarkosningarnar og líka fyrir alþingiskosningarnar. Hér er verið að hækka skatta á einstaklinga um nærri 4 milljarða kr., nærri 4.000 millj. kr.
    Ég vil alveg taka undir það sem hér hefur komið fram og ég hef reyndar sagt það á opinberum vettvangi áður, að ég tel að það hafi orkað mjög tvímælis að létta að öllu leyti aðstöðugjaldinu af eins og gert var í fyrra. Ég tel t.d. að sú lækkun skatta sem í því fólst af fjölda verslunar- og þjónustufyrirtækja á Reykjavíkursvæðinu, hafi verið stórkostlega hæpið mál í raun og veru. Ég tel að það hafi í sjálfu sér verið eðlilegt að fella niður eða lækka skatta á framleiðslufyrirtækjum af margvíslegu tagi, ekki síst í sjávarútveginum og iðnaðinum. En þegar kemur að ýmsum öðrum fyrirtækjum sem er aragrúi af hér á svæðinu þá er alveg ljóst að þessi fyrirtæki borguðu enga aðra skatta en þetta aðstöðugjald. Og þó að það hafi verið lagt á út af fyrir sig með býsna ósanngjörnum hætti, að menn töldu, þá var þetta eina framlag þessara fyrirtækja til hins almenna rekstrar borgarinnar á sínum tíma. Þessir skattar sem þessi fyrirtæki borguðu í Reykjavík voru svo fluttir yfir á einstaklingana í fyrsta áfanga í ár og í næsta áfanga og endanlega virðist vera á næsta ári, ef þetta frv. verður að lögum. Það er auðvitað stórkostlega alvarlegt umhugsunarefni m.a. fyrir samtök launafólks í landinu, vegna þess að það eru þau sem áttu ásamt öllum öðrum og m.a. okkur í stjórnarandstöðunni aðild að því að flytja skattabyrðina til, flytja skattabyrðina af fyrirtækjum og yfir á launafólk, m.a. láglaunafólk hér á þessu svæði, vegna þess að niðurstaðan af þessu öllu saman er sú, eins og menn þekkja, að skattleysismörkin eru núna miklu neðar en þau hafa áður verið og miklu neðar en stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir síðustu kosningar og miklu neðar en reiknað var með þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp í öndverðu, en þá var talað um að þessi mörk ættu að vera í kringum 75.000 kr., nú hafa þau hrapað langt niður fyrir þessa tölu.
    Í þessu sambandi er kannski rétt að rifja það upp að á þessu ári ætlar ríkissjóður að iðka mjög sérkennilegar bókhaldsæfingar með þetta aðstöðugjaldsígildi sem er í gangi. Það er ekki fært í gegnum ríkisreikning og fjárlög, eins og auðvitað væri eðlilegt, heldur mun þetta vera tekið með einhverjum hætti fram hjá því kerfi öllu saman. Það hlýtur að verða heilmikil lota í þessari virðulegu stofnun þegar við ræðum um ríkisreikninginn fyrir árið 1993, að þarna hafi undarlega verið að hlutunum staðið á því ári 1993 þegar félmrh. og fylgismenn hennar í ríkisstjórninni sveifluðu fram hjá ríkisreikningnum 4.000 millj. kr. eins og að drekka vatn. Auðvitað hljóta menn að ræða það mjög rækilega þegar ríkisreikningurinn fyrir árið 1993 kemur til meðferðar.
    Það er síðan, fyrir utan þetta, þar sem verið er að hækka hámarksútsvarið um 21% --- þetta er ekki 1,5% hækkun á útsvari, þetta er 21% hækkun á útsvari --- þá er auðvitað fróðlegt að bera það saman við það sem verið er að gera við fyrirtækin. Fyrirtækin, eins og hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir benti á áðan, fara úr 50 í 33% á meðan einstaklingarnir fara úr 35 í 41%.
    En það er svo líka beinlínis grátbroslegt að sjá þarna 10. gr. frv. sem fjallar um afar gamlan kunningja og merkilegt umræðuefni hér á hv. Alþingi sem Sjálfstfl. hefur sett á langar ræður um um árabil, eða um 15 ára skeið, síðan við fundum upp þennan snilldarskatt sem heitir ,,skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði`` og var afskaplega traustur og

góður skattstofn og skilaði þó nokkrum hundruðum millj. kr. í ríkissjóð, 500 millj. kr. að óbreyttu í ríkissjóð, og kom sér vel fyrir land og þjóð. Sjálfstfl. hefur grenjað undan þessum skatti á hverju einasta ári alltaf síðan og hæstv. núv. fjmrh., sem er sem betur fer fjarverandi svo hann þarf ekki að hlusta á þessi ósköp, hefur haldið lengri ræður samanlagt en nokkur annar maður í Íslandssögunni á móti þessum skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og er þá langt til jafnað og hafður í huga gjörvallur þingflokkur Sjálfstfl. og ekki síst hv. þm. Ingi Björn Albertsson --- sem líka er farinn í dag. ( ÓÞÞ: Hvar er fjmrh.?) Ja, hvar er fjmrh., segir hv. 2. þm. Vestf. og spyr í öngum sínum, má segja, hæstv. forseti. Hvar er fjmrh. og saknar vinar í stað og ég skil það vel ( ÓÞÞ: Er hann með fjarvistarleyfi?) og spyr hvort hann sé með fjarvistarleyfi. Á forseti að svara því eða ég? Ég veit ekkert um það. ( Forseti: Eftir því sem upplýsingar hafa borist um hefur hæstv. fjmrh. ekki óskað eftir fjarvistarleyfi en á skjá sé ég að hann mun ekki vera í húsinu.) Þetta er athyglisvert, hann er alla vega ekki í salnum er upplýst og ekki í húsinu samkvæmt skjánum. En hans er saknað, skal nú verða endurtekið til þess að það verði bókfært í þingtíðindi alveg trekk í trekk, að einskis manns er saknað eins átakanlega á Alþingi Íslendinga í dag eins og einmitt hæstv. ráðherra, Friðriks Sophussonar. Þessi hæstv. ráðherra, sem hélt þessar löngu ræður yfir þingheimi öllum og fyrir kjósendur Sjálfstfl. um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, er fjarverandi en hann hefur fundið þarna eina leið, dálítið sniðuga. Ég sé ekki betur en með þessu losi hann sig við að flytja frv. um að framlengja skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Áður var þetta hlutverk fjmrh., en nú er búið að færa þetta inn í lögin um tekjustofna sveitarfélaga. Þannig að næst þegar hæstv. fjmrh. biður sjálfstæðismenn í Reykjavík um að kjósa sig á framboðslistann þá getur hann sagt: Ég hef ekki talað fyrir þessu í tvö ár. --- Hver hefur talað fyrir þessu? --- Það er hún Jóhanna, hæstv. félmrh., kratarnir bera ábyrgð á þessu svínaríi sem er þessi skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég vil láta það koma fram fyrir mitt leyti að ég er alveg tilbúinn til þess að styðja hæstv. félmrh. í þessu eina ákvæði frv. og greiða því atkvæði alveg miskunnarlaust þegar þar að kemur og jafnvel væri ég til í að flytja tillögu um að hækka hann pínulítið því mér finnst óþarfi að vera að lækka þennan skatt. Ég bendi hæstv. félmrh. á það, af því að það er þröngt í búi hjá henni víða, m.a. í málefnum fatlaðra, málefnum hins félagslega íbúðarhúsnæðis o.fl., að hún haldi sig bara við gömlu regluna og næli sér þar með í 165 millj. kr. í viðbót með því að hafa skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði bara eins og hann hefur alltaf verið.
    Satt að segja er ótrúlegt hvernig Sjálfstfl. ætlar að reyna að vinda sig frá því að bera ábyrgð á þessu máli og ég vil bara að því sé alveg slegið föstu að það er tekið eftir því að varaformaður Sjálfstfl. er hlaupinn á dyr þegar verið er að ræða þennan fína skatt, skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Því það var ekki nóg með að þeir héldu ræður hér, þessir snillingar, í þessum stól, heldur héldu þeir heilu ráðstefnurnar á vegum verslunarráðanna og félaga stórkaupmanna og guð veit hvað þau heita öll þessi félög sem þeir eru með á sínum vegum þessir aðilar, endalausar fínar ráðstefnur, morgunverðar-, hádegisverðar-, kvöldverðar-, helgarráðstefnur og guð veit hvað, um þennan hryllilega skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem vinstri menn höfðu lagt á í landinu. Svo koma þessir aumingjar inn í ríkisstjórn og áður en við er litið þá framlengja þeir skattinn, (Forseti hringir.) lýsa því jafnframt yfir að þeir ætli sér ekki að framlengja hann oftar. Það var sagt í hér í fyrra og hittiðfyrra. Þetta verður í síðasta sinn sem ég geri það, sagði hæstv. fjmrh., að framlengja skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. --- Hvað gerist þá? Hann fær hæstv. félmrh. í skítverkin fyrir sig. ( ÓÞÞ: Hann stendur við loforðið.) Og hæstv. fjmrh. formlega séð stendur við loforð sitt um skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði af því að hæstv. félmrh. hleypur í verkið fyrir hann.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast það að það skuli enginn maður úr þingliði Sjálfstfl. taka til máls við þessa umræður þegar verið er að framlengja þennan mikla óvin verslunarfrelsisins í landinu sem er skatturinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég sakna vinar í stað hér úr þessum stól, þar sem er hv. þm. Ingi Björn Albertsson, sem flutti gríðarlega miklar ræður um þetta mál en þó styttri en fjmrh. þegar málið

var í gangi á sínum tíma í síðustu ríkisstjórn. Það er kannski þess vegna sem hann varð ekki fjmrh. heldur hv. þm. Friðrik Sophusson. ( ÓÞÞ: En hann flýr ekki.) En hann flýr ekki, hann kom aftur. Ég skora á hv. þm. að láta í sér heyra, hvað hann segir um þennan ofboðslega skatt, skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem hæstv. félmrh. leggur til að verði framlengdur.
    Nei, hér er auðvitað ekki um neitt annað að ræða en það að verið er að gera tillögur um skattahækkanir á einstaklinga í landinu upp á nærri 4.000 millj. kr. Og það á auðvitað að stimpla það rækilega inn að það eru Alþfl. og Sjálfstfl. sem gera þessa tillögu. Núna á næstu vikum og mánuðum munu sveitarstjórnirnar hver á fætur annarri, ef þetta verður að lögum, þurfa að breyta sínum samþykktum um útsvarsprósentu --- í Reykjavík, á Akranesi, á Egilsstöðum, á Siglufirði, á Akureyri, á Selfossi, alls staðar --- af því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa sveitarfélögunum að hækka skatta á einstaklingana í landinu en fella þá niður af fyrirtækjunum með þeim hætti sem menn eru hér að tala um.