Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 15:09:43 (1758)


[15:09]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég óskaði eftir því að kallað yrði á hæstv. fjmrh. og ég vil minna hæstv. forseta á það að það hefur ekki alltaf verið sýnd tillitssemi þegar þurft hefur að ná mönnum hingað í þetta hús og gengið hart eftir að þeir væru sóttir og ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að sækja hæstv. fjmrh. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að verið er að gera ráðstafanir til þess að fá hæstv. fjmrh. hingað.) Ég vil þakka forseta alveg sérstaklega fyrir að hafa brugðist hart við.
    Ég hef aldrei efað það að hæstv. félmrh. hefði hugrekki til að bera en það sem mig undrar þó nokkuð í þessu sambandi er að þær hugmyndir sem hér eru settar fram eru allar miðaðar við að sveitarstjórnarstigið sé óbreytt. Það er búið að boða það í allt haust að það eigi að fela sveitarfélögunum ný verkefni og nýja tekjustofna og ég hélt nú satt best að segja að þetta frv. hlyti að hafa verið prentað áður en úrslit lágu fyrir í seinustu kosningum þar um og þess vegna væri hér borð fyrir báru að lækka álögin ef menn hefðu horfið frá þeirri stefnu. Ég lít aftur á móti svo á að félmrh. þurfi ekki að hverfa frá þeirri stefnu að færa verkefni til sveitarfélaganna, því að það vill svo til að héraðsnefndirnar víðast hvar ná yfir nákvæmlega sama svæðið og hugmyndirnar voru um sameiningu sveitarfélaga og verður þess vegna víða ekki skilið á annan veg en þann að það sé meirihlutavilji fyrir því hjá sveitarstjórnunum að efla þann vettvang til að taka við nýjum verkefnum. Og allt aðkast um það að ekki sé nægilegt lýðræði að héraðsstjórnirnar vinni að þessum verkefnum tel ég að sé rangt vegna þess einfaldlega að það er alveg eins og gert er hér í Reykjavík. Fyrst er kosin bæjarstjórn, svo kýs bæjarstjórnin sér borgarráð, hefur topp. Alveg eins má segja að þarna sé meiri firring frá fólkinu en hún er ekkert meiri firring frá fólkinu varðandi héraðsnefndirnar.
    Ég var aftur á móti, svo að ég víki að þessu frv. efnislega og því sem hér er sett fram, allhissa þegar ég las 10. gr. þar sem eignamönnum þessarar þjóðar er nú gert fyrir um jólin, því að trúlega verður þetta ekki samþykkt fyrr en undir jól, að setjast niður og telja eigur sínar, húseignir sínar og kanna hvort þar fari fram sú starfsemi að þeir eigi að greiða skatta samkvæmt þessum lögum í þessum húseignum. Og þá er það spurning hvort það verður að vera ritvél þar innanborðs, tölva eða penni til þess að það sé skráð sem skrifstofuhúsnæði því að það er eitt af því sem deilt var um mjög á sínum tíma hvernig ætti að skilgreina þetta. Og allt til þessa hefur þetta verið skilgreint af Fasteignamati ríkisins og sveitarfélögunum en hér er, með leyfi forseta, í 10. gr. kveðið svo orði:
    ,,Fyrir árslok 1993 skulu eigendur fasteigna senda Fasteignamati ríkisins eða því sveitarfélagi, sem eign er í, skrá yfir eignir sem falla undir ákvæði þetta ásamt upplýsingum um síðasta heildarfasteignamatsverð þeirra``, þ.e. að senda Fasteignamatinu í bréfi það sem Fasteignamatið hefur talið að eignin væri að verðgildi seinast, maður skyldi nú

ætla að það væri á skrá hjá Fasteignamatinu sjálfu og held ég nú áfram lestrinum með leyfi forseta: ,,eða eftir atvikum kostnaðarverð.`` Maður áttar sig nú ekki á undir hvaða atvikum það á að vera. ,,Enn fremur skal skrá þar upplýsingar um notkun þeirra svo og upplýsingar um rúmmál eigna sem einnig eru notaðar til annars en verslunarreksturs og skrifstofuhalds. Fasteignamat ríkisins skal útbúa viðeigandi eyðublöð í þessu sambandi. Vanræki húseigandi að senda skrá yfir eignir sem ákvæði þetta tekur til er sveitarstjórn heimilt að láta fylla út slíka skrá og nota til viðmiðunar við álagningu þar til húseigandi bætir úr.
    Ákvæði II. kafla laga þessara sem taka til fasteignaskatts skulu jafnframt gilda um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði samkvæmt þessu ákvæði eftir því sem við getur átt.
    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd ákvæðis þessa.`` ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. að hæstv. fjmrh. er væntanlegur á hverri stundu.) Já, það er aldeilis ljómandi.
    Ég vil bæta því við að ef hæstv. fjmrh. gleymdi nú að senda svona skrá inn til Reykjavíkur, þá mundu gerast dálítið skemmtilegir hlutir. Þá mundi borgin að sjálfsögðu leggja á fasteignir ríkisins eins og henni sýndist hér í bænum og hefja svo bara aðför að fjmrh. ef hann ekki borgaði þar til hann hefði komið skránni á framfæri. En það er ansi hörð krafa svo ekki sé meira sagt ef við horfum til einstaklinganna að snúa þessu verklagi gersamlega við. Fasteignamatið hefur starfað í fleiri, fleiri ár til að halda skrár yfir húsnæðið og mér finnst að það sé eðlilegri vettvangur að þar sé þetta unnið og svo eigi einstaklingarnir mótmælarétt þegar sá listi liggur fyrir en ekki að það sé gengið svo langt í þessu dæmi að fyrst sé farið í að leggja á og það sé fyrst eftir að álagningin hefur átt sér stað að mótmælaréttur einstaklinganna kemur inn í framkvæmdina. Ég held eiginlega satt best að segja að lagatæknilega sé þetta hrein vitleysa sem hér stendur.
    Ég hef tekið eftir því að sumir telja að íslensk verslun umfram alla aðra atvinnuvegi eigi að greiða sérstakan skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Nú er það svo að skattar eru ekki lagðir á af einhverri illgirni í garð ákveðinna atvinnuvega. Þeir eru lagðir á til að afla tekna. Út frá því sjónarmiði er það auðvitað ekki órökrænna en hvað annað að leggja skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hins vegar er sú spurning alltaf til staðar hvort við séum með einni skattlagningu að ýta frá okkur öðrum sköttum, að ýta frá okkur öðrum skatttekjum. Í Dagblaðinu þriðjudag 23. nóv. 1993 er dæmi um það hvaða afleiðingar það hefur ef íslensk verslun er ekki samkeppnisfær við verslun í nágrannalöndum okkar að mati þeirra Íslendinga sem ætla að fara að versla. Og með leyfi forseta vil ég lesa hér örstuttar athugasemdir varðandi þetta atriði.
    ,,Um 20 þúsund manns til Írlands og Bretlands. Íslensk verslun missir um 1,5 milljarða kr.`` Í þessari sömu grein er gert ráð fyrir því að tap ríkisins af þessum sökum sé um 300 millj. og þarna er aðeins vikið að Skotlandi, Írlandi og Englandi. Öll verslun sem fer fram á meginlandinu er til viðbótar þannig að tap Íslendinga af því að íslensk verslun er að dómi þessara manna ekki samkeppnisfær er miklu, miklu meira. Það er þess vegna mikil spurning hvort það sé rökrétt að leggja þessa skatta á verslunina sem verið er að tala um. Nú er ég ekki að tala um þetta út frá einhverju góðgerðarsjónarmiði eða neinu slíku, heldur bara út frá þeirri bláköldu staðreynd að það eru hagsmunir ríkisins, verulegir hagsmunir skattalega séð og verulegir hagsmunir atvinnulega séð að þessi verslun sé inni í landinu. Og við þessu verðum við að fá svör frá hæstv. fjmrh. sem hefur eins og hér hefur verið upplýst flutt lengstu ræður um þetta málefni fram og til baka og hyggst nú efna loforð sín varðandi skattlagningu á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á þann veg að þetta verði ekki bráðabirgðaskattur lengur heldur varanlegur skattur inni í skattkerfinu. Ég segi, varanlegur skattur því að þetta frv. félmrh. er unnið á þann veg eins og hæstv. félmrh. var von og vísa að það er ekki sett upp sem hugmynd til þess að setja í gang nú í haust fyrir skattlagningu á næsta ári heldur er þetta hugsað til þess að standa áfram þannig að ef Sjálfstfl. styður þetta ákvæði, þá er hann að efna loforðin um afnám skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á þann veg að það verði varanlegur skattur á næstu árum.

    Ég held að það sé líka rétt að hugleiða það sem kemur fram hér í athugasemdum við 6. gr. í þessu frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Breytingin felur í sér að útsvar sveitarfélaga verður að hámarki 9,2% í stað 7,5% nú. Í þessu sambandi er rétt að fram komi að í nefnd þeirri sem vitnað er til hér að framan kom fram það álit fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga að tekjuskattur ríkisins verði að lækka sem þessu nemur þannig að álagningarhlutfall í staðgreiðslu í heild hækki ekki. Aðrir fulltrúar gerðu hins vegar ráð fyrir að hlutur ríkisins í staðgreiðslu tekjuskatts lækki en töldu ekki rétt að tilgreina nákvæma tölu í því sambandi.``
    Hér er þeim sprengjum varpað inn í umræðuna að það er gersamlega vonlaust að taka afstöðu til þessa máls án þess að það liggi fyrir hvort hæstv. fjmrh. hyggst fara að tillögum fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og lækka þá tekjuskatt ríkisins sem þessu nemur eða hvort það er í reynd verið að láta hæstv. félmrh. flytja tillögu um hækkun á tekjuskattinum í landinu. Það er alveg heimsmet í klókindum ef fjmrh. stendur þannig að verki að hann lætur hæstv. félmrh. flytja tillögu um hækkun á tekjuskatti í landinu. Það sér það hver heilvita maður að það er brot á öllum venjum í þessu sambandi.
    Ég er þeirrar skoðunar að verður sé verkamaður launa sinna og ég fæ ekki séð að það sé skynsamlegt að ganga lengra á þeirri braut að hækka tekjuskatt á einstaklingum. Það er nú einu sinni svo að þessi skattur hefur legið undir miklu ámæli vegna þess að það er viðurkennt að undanskot undan honum eru veruleg og þeir sem búa við þær aðstæður að hafa laun sín frá öðrum þurfa flestir hverjir að greiða þennan tekjuskatt að fullu af sínum tekjum en aftur á móti er það staðreynd að oft og tíðum er það svo með þá sem vinna sjálfum sér að þeir geta skráð sínar raunverulegu tekjur lægri heldur en neysla þeirra ber vitni um að sé. Þetta segi ég hér og nú ekki til að varpa fram neinum nýjum sannindum. En Sjálfstfl. hefur mjög oft haldið því fram að hann ætlaði ekki að leggja á nýja skatta. Hann hefur aftur á móti aldrei lýst því yfir að hann ætlaði að koma í veg fyrir það að Alþfl. legði á nýja skatta. Það er alveg rétt. Það hefur ekki verið orðað svo á landsþingi Sjálfstfl. að hann ætlaði að koma í veg fyrir það að Alþfl. legði á nýja skatta. En hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir að það er Sjálfstfl. sem er það stóra afl sem knýr þessa ríkisstjórn áfram og spurningin er ákaflega einföld. Ætla sjálfstæðismenn á Alþingi Íslendinga að leggja til að tekjuskatturinn verði hækkaður í landinu? Er það það sem þeir eru að leggja til?
    Ég hygg að fjarvera hæstv. fjmrh. sé engin tilviljun. Ég hygg að þetta sé eitt af því sem hann hefur hugsað betur en flest annað sem hann hefur verið að aðhafast að undanförnu að það væri skynsamlegt að vera fjarverandi við þessa umræðu. Auðvitað eru meiri líkur á því að hann sleppi við umræðuna nú í dag með því að vera fjarverandi. En 6. gr. setur boltann beinlínis inn til hæstv. fjmrh. Það eru náttúrlega alveg tvö viðhorf hvort sveitarfélögin líta svo á að með þessari hækkun á útsvarinu sé verið að hækka tekjuskattinn eða hvort með þessari hækkun á útsvarinu sé verið að færa til tekjur á milli ríkisins og sveitarfélaganna.
    Ég hygg að það sé orðin ærin nauðsyn eftir þá vinnu sem hefur verið framkvæmd að setja skattalögin inn rétt fyrir jól og hraðsjóða þau svo í gegnum þingið, þá sé það orðin ærin nauðsyn að menn setjist yfir þetta dæmi í heild sinni. Það eru heilagar kýr í skattkerfinu sem ekkert hafa verið látnar borga. Hvaða fasteignaskatta er Landsvirkjun látin borga af eignum sínum úti á landi? Er hún látin borga eignarskatt af virkjununum? Ég segi nei. Hún er ekki látin borga neinn eignarskatt af virkjununum. Þó eru það fasteignir eins og hvað annað. En af því að skrifstofuhúsnæðið er staðsett hér í Reykjavík, þá á að láta hana borga extragjald af skrifstofuhúsnæðinu. Hún á að hafa tekjur til þess. Væri nú ekki rétt að undanskilja Landsvirkjun líka skattlagningunni á skristofuhúsnæðinu hérna, hafa samræmi í þessu og láta hana þá ekki borga neitt af skrifstofuhúsnæðinu? Auðvitað hljóta menn að spyrja: Á ekki að gilda jafnræði á milli sveitarfélaganna um það að öll sveitarfélögin hafi þá tekjur af þessum fasteignum sem þar eru ef menn eru að tala um að hafa jafnræði á milli?
    Herra forseti. Ég fagnaði mjög þeirri yfirlýsingu hæstv. forseta að fjmrh. væri væntanlegur en ég brýt um það heilann þessa stundina hvaða farartæki hann hafi notað til að komast til þinghússins eða hvort fjarlægðin hafi verið svo mikil að hraðskreiðustu farartæki hafi ekki dugað til að skila honum hér á eðlilegum tíma. Það er nú einu sinni svo að þegar ráðherra biður ekki um fjarvistarleyfi og um er að ræða svið eins og skattamál þá hlýtur maður að gera ráð fyrir því að í þessu tilfelli hæstv. fjmrh. geri sér grein fyrir því að auðvitað verður hann spurður um vissa hluti í þessu sambandi. Ég vil óska eftir því að þessari umræðu verði frestað þar til hæstv. fjmrh. kemur hér og svarar þeim spurningum sem beinlínis hlýtur að hvíla á honum að gera grein fyrir eins og stefnunni með tekjuskattinn. Er verið að standa þannig að málum að hæstv. félmrh. sé látinn flytja frv. um hækkun á tekjuskattinum í landinu? Ég heyri á bak við mig að það eru hugmyndir uppi um það að hæstv. félmrh. taki að sér að gerast málsvari fyrir hæstv. fjmrh., varaformann Sjálfstfl. Það má vel vera að það sé komið svo ástum samlyndra hjóna í þessari ríkisstjórn að það sé sama hvor aðilinn svarar fyrir hinn, en það eru ekki mín tilmæli að leggja það á hæstv. félmrh. að svara þessu.