Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 15:40:40 (1761)


[15:40]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það kom fram í mínu máli að það verður fellt niður 1,5% í tekjuskatti sem var lagt á til bráðabirgða þar til niðurstaða væri fengin í því hvað kæmi í staðinn til sveitarfélaganna sem verður heimild til þeirra til þess að hækka útsvar. Um það verður flutt sérstakt frv. á Alþingi þar sem tekjuskatturinn verður lækkaður.
    Varðandi það hvort þessi skattur á verslunar- og skristofuhúsnæði verði lagður á ríkisstofnanir þá er tekið fram um 10. gr. að það verði farið með þennan skatt að öðru leyti eins og um hann er fjallað í lögum um sérstakan skatt á verslunar- og skristofuhúsnæði og ég veit ekki betur en að ríkisstofnanir séu undanþegnar skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og fjmrh. leiðréttir mig þá ef svo er ekki.
    Varðandi þau sveitarfélög sem hafa haft tekjur af landsútsvari þá sagði ég að niðurfellingin á aðstöðugjaldinu yrði bætt með tvennum hætti, annars vegar með beinu framlagi úr ríkissjóði sem nemur um 500 millj. sem fer þá í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hitt sem upp á vantar sem landsútsvarið hefur gefið, það á að skila sér í hækkun útsvars og fasteignaskatts.