Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:12:36 (1771)


[16:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er hægt að kalla þetta svar við andsvarinu, en þetta er út af fyrir sig ágætislíking sem hann fór með. Ég skal viðurkenna það að ég hef talið þennan vinstristjórnarskatt vera mikinn flein í holdi þingsins og hefði gjarnan viljað losna við hann en verð að viðurkenna ósigur minn ár eftir ár í þeim efnum við þessi erfiðu skilyrði sem við höfum hér lifað við á undanförnum árum.
    Hins vegar tel ég, og það er rétt, að ég hefði átt að taka það skýrar fram og viðurkenni það að mér sást yfir í þeim efnum að hér er gert ráð fyrir því að um eins árs skeið verði lagður á þessi sérstaki viðbótarfasteignaskattur. Hugmyndin í framtíðinni er auðvitað sú að þetta verði einn skattur og verði samræmdur á atvinnustarfsemina og þá auðvitað hverfur þessi sérstaki skattur en hækkunin hlýtur að koma fram og það verða auðvitað sveitarfélögin að segja talsvert til um þannig að heildarskatttekjur sveitarfélaganna af atvinnuhúsnæði verði raðað upp með þeim hætti sem eðlilegast getur talist á hverjum tíma. Ég hygg að í framtíðinni gerist það að þessum skatti verði jafnað, þó það komi ekki fram í þessu frv., betur á milli atvinnugreina heldur en gert er nú um sinn, þótt ákveðið skref sé reyndar tekið í þeim efnum eins og kemur fram í greinargerðinni.