Fjáröflun til varna gegn ofanflóðum

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:38:27 (1779)

[16:38]
     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. til laga um sérstaka fjáröflun til varna gegn ofanflóðum og um breytingu á kostnaðarhlut sveitarfélaga. Flm. auk mín eru hv. þm. Þuríður Backman, er sat sem varaþm. fyrir hv. þm. Hjörleif Guttormsson, og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.
    Í frv. þessu er lagt til að gera breytingar á tvennum lögum, annars vegar lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem eru nr. 28/1985, og hins vegar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992.
    Fyrri kafli frv. fjallar um breytingar á lögunum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Þar er gert ráð fyrir því að í svonefndan ofanflóðasjóð, sem er til samkvæmt ákvæðum þeirra laga, bætist við fjármagn, svonefnt sérstakt framlag frá Viðlagatryggingu Íslands. Enn fremur er gert ráð fyrir því að úr sjóðnum verði heimilt að greiða sveitarfélögum 90% í stað 80% af kostnaði við snjóflóðavarnir og varnir gegn skriðuföllum.
    Síðan er auk þess lagt til í 2. gr. frv. að einnig megi sjóðurinn taka þátt í kostnaði við viðhald á varnarvirkjum og er það nýmæli og við rannsóknir sem miða að því að bæta hönnun og auka nýtingu varnarvirkja og enn fremur við sérstök verkefni við snjóflóðaeftirlit. En þessum síðasttöldu atriðum er bætt inn í frv. frá því sem var á síðasta þingi að ábendingu Veðurstofu Íslands.
    Í II. kafla laganna, sem er breyting á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, er lagt til að árin 1994--1998 verði innheimt árlega sérstakt iðgjald af munum sem eru tryggðir samkvæmt 1.--3. tölul. 11. gr. þeirra laga sem skal vera 10% álag á iðgjöldin og renna í ofanflóðasjóð. Síðan er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. jan. 1994 og í ákvæði til bráðabirgða með þessu frv. er lagt til að ráðherra verði heimilt að fenginni tillögu Almannavarna ríkisins að láta breytingarnar í 2. gr. frv., sem eru breytingar á 11. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, gilda um framkvæmdir sem staðfestingu hlutu fyrir gildistöku laga þessara.
    Virðulegur forseti. Ég vil benda þingmönnum á ítarlega greinargerð sem fylgir með þessu frv., bæði almenna samantekt og athugasemdir við einstakar greinar auk þess sem með þessu frv. fylgir líka yfirlit yfir fjárhagsstöðu ofanflóðasjóðs. Þá fylgir einnig með sem fskj. lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og kaflar úr lögum um Viðlagatryggingu Íslands sem málið varðar. Menn hafa því allt á einu blaði, það sem þarf til þess að glöggva sig á málinu.
    Frv. þetta var sent til umsagnar á sl. vetri og fékk allgóðar undirtektir hjá sveitarfélögum sem fengu það til umsagnar og sendu inn svör. Nær öll sveitarfélög mæltu með samþykkt frv. eins og það leit þá út, en ég ítreka að bætt hefur verið við tveimur atriðum við frv. eins og það var þá að ábendingu Veðurstofu Íslands, eins og ég greindi frá fyrr í minni í framsöguræðu.
    Hvatinn að flutningi frv. er sá að það átak sem hafið var með setningu laganna um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, árið 1985, hefur skilað sér í því að lokið er gerð hættumats allvíða á landinu og segja má að undirbúningsstigi sé nánast lokið og nú sé komið að framkvæmdastigi og víða verður að ráðast í allkostnaðarsamar framkvæmdir til að verja byggð fyrir hugsanlegum ofanflóðum. Það hefur þótt, með setningu laganna árið 1985, eðlilegt að sveitarfélögin sem í hlut eiga beri ekki allan kostnað heldur verði honum deilt út í gegnum sameiginlegan sjóð landsmanna eða með sameiginlegum sérstökum sjóð, svonefndum ofanflóðasjóði. Og það sem lagt er til í þessu frv. er að styrkja þennan sjóð um fimm ára skeið þannig að unnt verði að ráðast í bráðnauðsynlegar framkvæmdir. Og þar sem er kannski ekki alltaf algengt eða allt of títt í þingmannafrv. um þörf mál sem til útgjalda horfa, þá er hér í þessu frv. lagt til líka að afla tekna til málsins þannig að hér er fyllilega ábyrgt að málum staðið.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, ekki orðlengja frekar um þetta mál en vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.